Þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að lækka skatta virðist það vera þrautin þyngri annars staðar. Ástæðu þess er bæði að finna í þrautseigju vinstri mann til skattpíningar sem og í óbeinni hækkun skatta. Í fyrra notaði R-listinn tækifærið í Reykjavík og hækkaði útsvar þegar ríkisstjórnin lækkaði tekjuskatt. Núna í ár fer R-listinn enn ósýnilegri leið til þess að “hækka” skatta en þeir gerðu í fyrra.
Eins og allir vita hefur fasteignaverð hækkað óheyrilega síðustu mánuðina eða sem nemur um 37%. Fasteignamat eigna er gefið út af Fasteignamati Ríkisins miðað við áætlað verðmat í lok nóvember hvert ár. Á þessu mati byggir svo fasteignaskattur sem eigendur fasteigna greiða. Að öllum líkindum má búast við því að fasteignmatið hækki óvenju mikið í ár enda eðlilegt þegar tilgangur þess er að endurspegla raunvirði “>fasteigna. Þessi hækkun fasteignamats leiðir svo til þess að skattar sem sveitafélögin innheimta í formi fasteignaskatta hækka samsvarandi nema hlutfallstölu fasteignaskatts verði breytt.
Tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignaskatti voru um 5,4 milljarðar árið 2004 en endurskoðuð áætlun fyrir árið í ár hljómar upp á 6,4 milljarða. Er það um 18% hækkun milli ára sem skýrist af mestu af hækkun fasteignmats í fyrra um að meðaltali 13% fyrir fjölbýli og 20% fyrir sérbýli. Ef við gerum ráð fyrir að matið hækki í ár um næstum 37% á íbúðarhúsnæði, eins og fasteignaverðið hefur hækkað síðustu 12 mánuðina, þá ættu tekjur borgarinnar af fasteignasköttum að verða allt að 8,5 milljörðum króna á næsta ári*. Það er þriggja milljarða hækkun frá árinu 2004.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2006 gerir ráð fyrir einungis 5% hækkun fasteignaskatta af íbúðarhúsnæði vegna hækkunar fasteignamats og áætlar að fasteignaskattar verði 7,2 milljarðar á árinu 2006 að teknu tilliti til örlítillar lækkunar holræsagjaldsins sem Ingibjörg Sólrún kom á “tímabundið”. Hér má því segja að um augljóst vanmat sé að ræða upp á allt að 1,2 milljarða króna. Vanmatið er enn óskiljanlegra í ljósi þess að í áætluninni er sagt að fasteignaverð hafi hækkað um 35% á árinu en engu að síður er einungis gert ráð fyrir 5% hækkun fasteignamats.
Ofan á þetta bætist svo útsvarshækkun um síðustu áramót. Í raun hafa álögur á hvern borgarbúa á kjörtímabilinu því aukist úr kr. 266.000 árið 2002 í áætlaðar kr. 320.000 fyrir árið 2006 á verðlagi nóvember mánaðar 2005. Sé tekið tillit til skýrs vanmats fasteignaskatta í áætluninni má gera ráð fyrir að sú tala sé vanáætluð um 10.000 kr. á borgarbúa. Allt í allt hafa því álögur á hvern íbúa borgarinnar hækkað um næstum 65.000 kr. á einu kjörtímabili eða um næstum 25%. Það gera í heildina um og yfir 7 milljarða króna á ári. Geri aðrir betur!
Vissulega þarf að hafa í huga að stór hluti þessara hækkana hefur verið vegna hækkunar fasteignaverðs í höfuðborginni. Það er þó engin afsökun því að þessi “óviðbúna” tekjuaukning hefði þá átt að skila sér beint í sjóði borgarinnar en það hefur hún ekki gert. Jafnframt þessu hafa skuldir borgarinnar aukist mikið á undanförnum árum eins og Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn hefur margsinnis bent á.
Eftir þessa stuttu yfirferð um fjárhag Reykjavíkurborgar eru aðallega tvennt sem situr eftir. Annars vegar stóraukin skattheimta sem leiðir til vangaveltna um í hvað peningarnir hafa farið. Hins vegar skrýtin áætlunarbúskapur borgarstjórnar. Af hverju er verið að vanáætla tekjur af fasteignasköttum jafnaugljóslega og raun ber vitni? Maður spyr sig hvort menn séu kannski að búa í haginn ef ske kynni að gjöldin verði umfram áætlanir. Þá væri nú gott að hafa smá aukaforða upp á einn milljarð eða svo.
Útskýringar
Í þessum útreikningum er miðað við að skatttekjur af íbúðarhúsnæði séu um 61% af heildarálögðum fasteignaskatti. Tekjur af atvinnuhúsnæði því um 39% af álögðum fasteignaskatti en þetta hlutfall er reiknað út frá áætlun um álagningu fyrir árið 2006. Jafnframt er stuðst við 20% aukningu skatttekna af atvinnuhúsnæði sem er það sama og fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2006 styðst við.
Verði hækkun fasteignamats á íbúðarhúsnæði að jafnaði 5% verða skatttekjur borgarinnar 7,2 milljarðar. Hækkun fasteignamats um 25% á íbúðarhúsnæði ætti að skila um 8 milljörðum í kassann en möguleg hámarkshækkun upp á 37% gæti skilað allt að 8,5 milljörðum í fasteignaskatt fyrir borgina.
Byggt á fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 á vef Reykjavíkurborgar
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008