Zero Tolerance felur í sér þá einföldu en ströngu reglu að hvert það verkefni eða ritgerð sem er ekki afhent réttum aðila fyrir tilsettann skilafrest fær einkunnina 0. Skilafrestur verkefna er gefinn upp með meira en fjögurra vikna fyrirvara sem á að tryggja að hver nemandi hafi nægan tíma til þess að skipuleggja vinnuna sem fylgir viðkomandi verkefni. Því skal síðan skilað fyrir lokunartíma á skrifstofu þeirrar deildar sem nemandinn stundar nám sitt. Við afhendingu fær nemandinn kvittun sem er staðfesting þess að hafa staðið við skilafrestinn. Þetta kemur í veg fyrir ýmsar tilraunir nemenda til þess að koma verkefnum seint frá sér, til að mynda í heimahús kennara eða með því að renna þeim undir hurð skrifstofunnar.
Ákveðin leið er til staðar til þess að fá framlengingu á skilafresti. Hún er þó talsverðum annmörkum bundin og fylgir henni nokkur pappírsvinna og fáar afsakanir sem að smjúga í gegnum hið þrönga net sem stefnan setur.
Tilgangur stefnunar er einfaldur; að koma í veg fyrir hið hvimleiða vandamál sem fylgir endurteknum frestunum á verkefnaskilum. Auk þess á þetta að koma í veg fyrir að tunguliprir nemendur sem eiga auðvelt með samskipti við kennara sína geti ítrekað komist upp með trassaskap. Tilgangurinn er því afskaplega skýr og greinagóður.
Það sem vakti þó mesta athygli við umræðuna, var að endanleg niðurstaða náðist ekki meðal kennara og skólayfirvalda, fyrr en stúdentaráð skólans mælti með henni. Lágu þá í valnum flest rök þeirra kennara sem voru ekki hrifnir af stefnunni vegna þess hversu þröngan ramma hún setti nemendum þeirra. Því ef að ráð stúdenta við skólann fagnar boðskapnum er erfitt að mæla gegn honum fyrir hönd nemenda.
Rök stúdentaráðsins voru einföld; þeirra verkefni er að gæta hagsmuna allra nemenda við háskólann og þau sáu sér ekki fært annað en að styðja úrlausn sem setti alla nemendur við sama borð. Jafnvel þó að lausnin hafi verið jafn harkaleg og raun ber vitni.
Fullyrða má að það yrði uppi fótur og fit meðal nemenda og fjölda kennara við Háskóla Íslands (sem og við aðrar æðri menntastofnanir á Íslandi) ef svipað kerfi væri þar í deiglunni. Vissulega hefur þessi stefna góð og gild rök en það þarf þó ekki að merkja að hún sé góður kostur. Háskólanám er undirstaða öflugs þjóðfélags og því þarf að gera sem flestum kleift að stunda sitt nám. Náminu fylgir einnig mikill kostnaður sem leiðir til þess að fjöldi nemenda neyðist til þess að vinna fyrir sér jafnframt því að stunda námið. Sveigjanleiki er lykilorð í þessu samhengi og er það nákvæmlega það sem er einna mikilvægast þegar kemur að ströngu háskólanámi. Hvor um sig kennarinn og nemandinn þarf að vera í aðstöðu til þess að haga seglum eftir vindi þegar storm ber að garði.
Þar af leiðandi er mjög æskilegt að mál sem þessi séu leyst á milli kennara og nemenda. Það merkir þó ekki að hver nemandi eigi að hafa rétt til þess að ýta endalaust á undan sér óleystum verkefnum. Því fylgir lítill lærdómur, hvort sem litið er á námið eða lífið eftir háskólann. Öfgar eru iðulega slæmar og aðeins útúrsnúningur frá betri hugmyndum. Svigrúm þarf að vera til staðar í hverju verki er vel skal unnið enda veit enginn hvað næsti dagur ber í skauti sér, hvort heldur vandamál eða úrlausnir.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010