Sérfræðivitni

Erlendis eru svokölluð sérfræðivitni oft kölluð fyrir rétt þegar nauðsynlegt er að skera úr um atriði sem krefjast tiltekinnar sérfræðiþekkingar. Hér á landi eru það svonefndir dómskvaddir matsmenn sem að einhverju leiti sinna þessu hlutverki. Þörf er á skýrari reglum um hverjir eru valdir til þess og hvernig mati á þeirra aðferðum sé háttað.

Erlendis eru svokölluð sérfræðivitni oft kölluð fyrir rétt þegar nauðsynlegt er að skera úr um atriði sem krefjast tiltekinnar sérfræðiþekkingar. Hér á landi eru það svonefndir dómskvaddir matsmenn sem að einhverju leiti sinna þessu hlutverki. Þörf er á skýrari reglum um hverjir eru valdir til þess og hvernig mati á þeirra aðferðum sé háttað.

Eftir því sem undirritaður fær best séð eru lögin heldur tilkomulítil í þessu tilliti hér á landi en í 3.mgr.61.gr laga nr. 91/1991 segir:

Þann einn má dómkveðja til að framkvæma mat sem er orðinn 20 ára að aldri, er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hefur nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestrar er kostur.

Sérfræðivitni skipa stóran sess í bandarísku réttarkerfi og þar lagði hæstiréttur Bandaríkjanna fram ákveðnar reglur í fordæmisgefandi dómi árið 1993 (Daubert v. Merrell Dow). Með dómnum setti rétturinn skýrar reglur um hæfi vitna, áreiðanleika vitnisburðar og hvað teljist viðurkenndar vísindaaðferðir.

Sorglegt dæmi um sérfræðivitnisburð sem hafði hræðilegar afleiðingar er vitnisburður Roy Meadows í réttarhöldunum yfir Sally Clark árið 1999 í Englandi. Tvö börn Sally dóu aðeins nokkurra vikna gömul af óþekktum orsökum og í kjölfarið var hún ákærð fyrir að myrða þau. Roy var heimsþekktur barnalæknir, prófessor, sérfræðingur í barnadauðum af óþekktum orsökum og hafði fengið riddaranafnbót fyrir störf í barnalækningum. Hann staðhæfði að líkurnar á að tvö börn í sömu fjölskyldunni dæju af óþekktum orsökum væru 1 á móti 73 milljónum. Þessi vitnisburður vó þungt, sérstaklega m.t.t. stöðu og virðingar Roy, þegar Sally var dæmd í fangelsi fyrir morð.

Þremur árum síðar var málið tekið fyrir aftur en þá hafði komið í ljós að útreikningar Roy voru kolrangir og í raun mætti gera ráð fyrir að þetta kæmi fyrir í einni fjölskyldu í Englandi á eins og hálfs árs fresti. Roy reyndist ekki hafa þekkingu á grundvallar líkindafræði og því fór sem fór (helstu mistök hans voru að gera ráð fyrir að dauði barnanna væru óháðir atburðir) . Sally var leyst úr haldi og Roy er ekki lengur á lista yfir breska lækna.

Ofangreint mál er dæmi um hrakfarir þegar “sérfræðingur” vitnar um atriði sem hann hefur ekki sérþekkingu á, í þessu tilviki líkindafræði. Annar flötur á þessu fjallar ekki um hæfi sérfræðinga heldur um hversu viðurkenndar vísindakenningar eða -aðferðir þeirra eru. Á næstunni mun t.d. réttur í Bandaríkjunum fjalla um lögmæti þess að kenna vitræna hönnun (e. Intelligent Design) í grunnskólum (í nýlegri grein hér á Deiglunni eru sett fram rök gegn kennslu á vitrænni hönnun). Fylgjendur kenningarinnar geta hæglega kallað til „sérfræðivitni“ sem hafa öll tilskilin próf og reynslu en myndu samt rökstyðja vitrænni hönnun í hag. Hér hefur bandarískt réttarkerfi sett þær reglur (í ofangreindum Dubert dómi) að kenningarnar verði að vera viðurkenndar af vísindasamfélaginu og er líklegt að slíkur vitnisburður yrði ekki tekinn til greina.

Vonandi munu íslenskir dómstólar í sameiningu við lögjafann tryggja að um vitnisburð sérfræðinga gildi heilsteyptar reglur svo það megi fyrirbyggja harmleiki á borð við mál Sally Clark og tryggja að dómar séu byggðir á bestu mögulegu vísindaniðurstöðum.

Heimildir:

Nature

Wikipedia

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)