Heimsókn Bush til Kína um síðastliðna helgi markaði engin sérstök tímamót í samskiptum þjóðanna. Embættismenn stjórnarinnar höfðu líka lýst því yfir, að þeir hefðu fremur litlar væntingar um hvað heimsókn Bush mundi afreka, fyrir utan það að dýpka samband sitt við forseta Kína, Hu Jintao. Auðvitað var mikill þrýstingur heima fyrir, sérstaklega frá bandaríska þinginu, að Bush tækist að fá Kína til að breyta gjaldeyrisstefnu sinni, bæta verndun hugverkarétts í landinu auk annarra mála, en engin áþreifanleg niðurstaða fékkst hins vegar í þeim málaflokkum.
Mannréttindamál báru afskaplega lítið á góma í viðræðum leiðtoganna – enda langt frá því að vera efst á forgangslistanum, hvorki hjá Kína né Bandaríkjunum. Bandaríkjunum tókst meira að segja ekki að fá neinum pólitískum andófsmönnum í Kína sleppt úr fangelsi, eins og hefur svo oft áður tíðkast í aðdraganda þess að Bandaríkjaforseti heimsækir Kína. En þrátt fyrir að allt séu þetta mikilvæg mál sem varða bandaríska hagsmuni, þá eru stærri verkefni til lengri tíma litið sem bíða Bandaríkjanna í samskiptum sínum við Kína.
Það er kannski merki um breytta tíma í samskiptum þjóðanna, að í fyrsta skipti í mörg ár hafði Kína engin áríðandi mál sem það þurfti hjálp frá Bandaríkjunum til að leysa. Þessi staðreynd endurspeglar vel það aukna sjálftraust sem ráðamenn í Peking hafa í utanríkismálum. Á meðan hinn mikli efnahagsuppgangur í Kína fær mestu athyglina í umfjöllun fjölmiðla, fer minna fyrir því að fjallað sé um hvernig framkvæmd utanríkisstefnu Kína hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár: Kína hefur tekið skipan alþjóðakerfisins, stofnanir þess og þær reglur og venjur sem innan þeirra gilda, í sátt. Fyrir aðeins einum áratugi síðan starfaði Kína að mjög litlu leyti innan alþjóðakerfisins, en í dag er Kína virkur þátttakandi í mörgum fjölþjóða stofnunum. Þetta er algjör umbreyting frá þeim tíma þegar Deng Xiaoping var forseti Kína, sem hafði óbeit á slíkum stofnunum og óttaðist alltaf að þeim yrði beitt til að refsa og þvinga Kína.
Eins og Evan S. Medeiros og M. Taylor Fravel hafa bent á í grein sinni, „China´s New Diplomacy“ í Foreign Affairs, þá hefur þetta verið mjög hægfara og um leið lúmsk þróun af hálfu Kína, en afleiðingarnar sem þessi stefnubreyting hefur – bæði fyrir samskiptin við Bandaríkin og aðrar stórþjóðir – eru gríðarlegar. Þegar tækifæri til samvinnu eru fyrir hendi, þá mun Kína hafa upp á miklu meira að bjóða fyrir t.d. Bandaríkin heldur en það hafði áður. Gott dæmi um einmitt þetta voru nýlegar samningaviðræður við Norður-Kóreu um að hætta við smíði kjarnavopna. Kína spilaði stórt hlutverk í þeim viðræðum við að setja þrýsting á Norður-Kóreu, en áður hafði Kína haft lítinn áhuga á skipta sér af þessum málaflokki.
En hvað var það eiginlega sem hvatti Kína til þessarar stefnubreytingar og að fara láta meira til sín taka í utanríkismálum? David Shambaugh, sérfræðingur um málefni Kína, nefnir fimm ástæður í greininni „China Engages Asia: Reshaping the Regional Order“, sem birtist fyrr á þessu ári í International Security.
Í fyrsta lagi voru það viðbrögð þjóðanna í ASEAN samtökunum eftir atburðina á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Japan var eina þjóðin í Asíu sem fordæmdi grimmdarverk kínverska hersins afdráttarlaust. Á meðan Bandaríkin og aðrar þjóðir reyndu að einangra Kína eftir atburðina, voru ASEAN samtökin snögg að byrja aftur að eiga eðlileg samskipti við Kína. Og þetta hefur Kína svo sannarlega munað og haft varanleg áhrif.
Í öðru lagi var það fjármálakreppan í Asíu 1997-1998. Kínversk stjórnvöld óttuðust mjög að kreppan breiddist út til Kína og næði að veikja viðkvæmt bankakerfi þess. Kína brást við með því að veita fjölmörgum ríkjum efnahagsaðstoð. Þetta breytti mjög ímynd Kína í Asíu. Farið var að líta á Kína sem ábyrgt stórveldi.
Í þriðja lagi er það endurmat Kína á svæðisbundnum stofnunum og samtökum í Asíu. Hér er ekki um að ræða neinn sérstakan atburð heldur breytingu sem átti sér stað smátt og smátt á árunum 1997-2001. Með aukinni þátttöku í slíkum stofnunum hefur Kína lært heilmikið hvernig leikurinn gengur fyrir sig og í kjölfarið hefur sjálfstraustið aukist til muna.
Í fjórða lagi hefur Kína horfið frá þeirri kröfu sinni um að leggja niður öll hernaðarbandalög, sem það taldi að væri tímaskekkja og aðeins arfleifð frá tímum kalda stríðsins. Þessi krafa Kína var hins vegar algjörlega virt að vettugi og mörg ríki í Asíu sögðu Kína að hætta þesssari vitleysu, það væri engin möguleiki á því að þau myndu segja upp öryggisbandalagi sínu við Bandaríkin.
Að lokum hefur Kína ítrekað stefnu Deng um frið og þróun. Og til að ná því markmiði taldi Kína að það þyrfti að hafa meiri áhrif innan alþjóðakerfisins til að móta leikreglurnar að sínum eigin hagsmunum.
Staða Kína í Asíu hefur því gerbreyst og byggir núna á fjórum máttarstólpum:
1) Þátttöku í svæðisstofnunum- og samtökum.
2) Koma á fót strategískri samvinnu og dýpka tvíhliða samskipti sín.
3) Útvíkka efnahagstengsl sín í Asíu.
4) Draga úr tortryggni og kvíða á sviði öryggismála.
Hinar hefðbundnu stoðir valdajafnvægis í Asíu hafa tekið djúpstæðum breytingum undanfarin fjögur til fimm ár með uppgangi Kína á hinu pólitíska sviði – og það er bara nýlega sem eftir þessu hefur verið tekið. Kína hefur lært að meta hversu miklu máli hið „milda vald“ (e. soft power) skiptir stundum í utanríkismálum. Eins og einn reynslumikill ríkiserindreki Singapúr sagði fyrir skemmstu; „The United States may still dominate the [regional] balance of power, but not the balance of influence.“
Þessi tilkoma Kína sem virkari þátttakanda á alþjóðavettvangi hefur komið sumum í opna skjöldu og hafa óttast minnkandi áhrif Bandaríkjanna í kjölfarið. En í raun er þetta bara ósköp eðlileg afleiðing þess efnahagsuppgangs og þróunar sem hefur átt sér stað í Kína. Og Bandaríkin og Kína hafa líka mun fleiri sameiginlega hagsmuni heldur en kannski mætti halda í fyrstu. David Shambaugh telur upp 35 málefni í Asíu sem varða bæði Kína og Bandaríkin. Niðurstaða hans er að stefna og hagsmunir þjóðanna í sextán af þessum málefnum sé hin sama; eru aftur á móti ósammála í átta og í ellefu málefnum ríkir óvissa.
Uppgangur Kína er líklega flóknasta áskorun sem Bandaríkin hafa staðið frammi fyrir frá því að þau urðu stórveldi. Ólíkt nasistum Þýskalands og Sovétríkjunum, hefur Kína enga alþjóðalega hugmyndafræði og virðist heldur ekki hafa neinn áhuga á að útvíkka landsvæði sitt í framtíðinni. Kína er því allt annars konar stórveldi; það fer að mestu leyti eftir hinum vestrænu reglum alþjóðakerfisins, vöxtur þess er drifin áfram af kapítalisma og það er farið að starfa innan alþjóðastofnana.
Verkefni Bandaríkjanna er að samlaga Kína áfram inn í alþjóðakerfið á þann hátt að Kína hafi verulega hagsmuni í húfi í framtíðinni til að viðhalda því. Timothy Garton Ash heldur því fram í nýrri bók, Free World: America, Europe, and the Surprising Future of the West, að Bandaríkin (og Evrópa) hafi um tuttugu ár til að stjórna þróun alþjóðakerfisins áður en Kína og Indland verða farin að hafa veruleg áhrif. Það er því mikilvægt að Bandaríkin og Evrópa vinni að því að viðhalda og festa í sessi hin vestrænu einkenni alþjóðakerfisins, samhliða þeirri þróun að Kína taki meiri þátt í alþjóðastofnunum, þar sem það þarf að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar og gildi.
Ágætis næsta verkefni væri t.d. að bjóða Kína varanlegt sæti í G-8 klúbbnum.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008