Sveigjanlegir flatskjáir með tveimur hliðum?

Hinn nútíma einstaklingur eyðir sífellt stærri og stærri hluta lífs síns fyrir framan skjái af einhverju tagi. Sjónvarpsskjái, tölvuskjái, símaskjái, auglýsingaskjái og svo mætti áfram telja. Ofurskjáir framtíðarinnar munu bjóða upp á ótrúlegan sveiganleika og þægindi fyrir allt þetta skjá-gláp.

Fortíðin – gömlu góðu skjáirnir

Hinir gömlu sjónvarps- og tölvuskjáir sem eru stórir og fyrirferðamiklir á alla kanta eru senn að renna sitt skeið á enda, því varla er lengur seld sú tölva eða sjónvarp án þess að skjárinn sé flatur. Í stuttu máli er myndin sem birtist á gamla CRT (e. Cathode Ray Tube) sjónvarpsskjánum stjórnað með svokallaðri rafeindabyssu sem skýtur rafeindum á innri hluta skjásins. Skjárinn er svo húðaður með fosfór sem gerir það að verkum að þegar rafeindin skellur á skjánum lýsir hún upp tiltekinn depil (e. pixel). Með þessu móti eru myndgæði takmörkuð og skjárinn er einnig mjög viðkvæmur fyrir utanaðkomandi truflun svo sem segulmagni.

Nútíðin – flatskjáir

Undanfarna áratugi hafa heimilisfeðurnir í úthverfunum keppst við að eiga flottasta jeppann í götunni, og ef einn þeirra kaupir sér nýjan fylgja hinir í kjölfarið. Þrátt fyrir að þetta virðist reyndar ekkert æta að breytast er líka komið “í tísku” að eiga stærsta og flottasta Plasma sjónvarpið. Í dag má skipta flatskjáum upp í tvær tegundir, fljótandi kristals skjái (e. LCD: Liquid Crystal Display) og rafgas (Plasma) skjái. Í báðum þessu skjáum er grunnlitasamsetningunni (rauðum, bláum og grænum) stjórnað með rafboðum. Á LCD skjám er notast við flúrljós og fljótandi kristal en á Plasma skjám er notast við fosfór og náttúrulegu gösin Argon, Neon og Xenon. Báðir þessir skjáir bjóða upp á mun betri myndgæði en gömlu skjáirnir, en hafa þó bæði sína kosti og galla. Stórir LCD skjáir eru til að mynda mjög dýrir og myndgæði ekki jafn góð og á Plasma skjám. Plasma skjáir, sem einnig eru dýrir, eru aftur á móti mun viðkvæmari og nota mikla orku.

Framtíðin – Sveigjanleigir flatskjáir með tveimur hliðum!

Sjónvarpsskjár framtíðarinnar rúllað upp í lítið hylki

Það er magnað til þess að hugsa að skjáir framtíðarinnar væru svo léttir og meðfærilegir að hægt væri að stinga þeim í vasann. Samt væru þeir á stærð við stærsta Plasma sjónvarp þegar horft væri á þá. Jafnvel væri horft á sitt hvora myndina á framhlið og bakhlið á sama tíma. Þrátt fyrir þetta væru myndgæðin betri en í dag og skjárinn notaðist við tvær litlar AA rafhlöður. Þannig væru líka hægt að vera með bækur og dagblöð í vasanum á tölvutæku formi. Skjáinn væri svo líka hægt að tengja við farsíma til að vafra um netið og skoða tölvupóstinn – allt þetta í hægri buxnavasanum.

Hið merkilega er að þetta er ekki jafn fjarlægt og halda mætti. Fjölmörg fyrirtæki og háskólar vinna nú gríðarmikið rannsóknar- og tilraunastarf til að gera slíka ofurskjái mögulega.

Sjá má stutt myndband af slíkum tilraunaskjá HÉR

Prentaðir skjáir!

Bollar framtíðarinnar verða ekki með áletruðum texta heldur „áletruðum“ hreyfimyndum!

Þeir skjáir sem að mati pistlahöfunds lofa bestu um ofurskjái framtíðar má kalla lífræna díóðu skjái (e. OLED: Organic Light Emitting Device). Slíkir skjáir munu leysa LCD skjáina af hólmi. Tæknin að baki slíkum skjám eru lífrænar efnisfilmur sem umluktar eru jávæðu og neikvæðu rafskauti. Rafskautin skjóta rafhleðslu í gegnum lífrænu efnisfilmurnar sem gefa frá sér ljós. Með því að notast við mismunandi lífrænar efnissamsetningar má svo breyta litum, líftíma ljóssins og orkunotkun. Framleiðsluaðferðin á slíkum skjám sem lofar bestum árangri er líka nokkuð merkileg. Skjáirnir eru “prentaðir” með prentunum sem byggja á sömu tækni og venjulegir bleksprautuprentarar. Með þessari tækni má í einfölduðu máli segja að efnisuppbygging skjásins sé hreinlega prentuð á plastfilmu, ótrúlegt en satt.

Þegar þessi tækni verður orðin nægilega háþróuð og ódýr í framleiðslu getum við svo loksins farið að stinga sjónvarpsskjánum okkar í vasann.

Nánari upplýsingar:

http://spectrum.ieee.org/sep05/1676

http://www.cdtltd.co.uk/

http://www.universaldisplay.com/

http://www.ewh.ieee.org/soc/cpmt/presentations/cpmt0401a.pdf (fyrir þá sem vilja sökkva sér í tæknina á bakvið OLED)

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)