Það eru varla margir í heiminum sem hafa ekki heyrt eitthvað um fuglaflensu og þá ógn sem steðjar af henni. Í fréttum birtast æ oftar myndir af löndum þar sem veiran hefur fundist og þó flestir hér á landi séu kannski nokkuð rólegir yfir þessu ennþá, kemst maður varla hjá því að finna fyrir hvernig hún virðist læðast smám saman nær okkur. En án þess að gera lítið úr hættunni á alheimsfaraldri, sem vissulega er til staðar, þá er ekki úr vegi að skoða þennan skaðvald örlítið nánar og skilja hismið frá kjarnanum í þeirri umræðu sem ríkt hefur undanfarið, oft í fullmiklum æsifréttastíl fyrir minn smekk.
Fuglar geta fengið flensu eins og aðrar dýrategundir, og falla tegundir fuglaflensu í 15 flokka. Þeir stofnar sem eru mest smitandi og eru oftast banvænir fuglum eru H5 og H7. Sá veirustofn sem hefur náð hvað mestri athygli og útbreiðslu undanfarið kallast H5N1 en innan hans hafa síðan birst ákveðin blæbrigði sem eru ólík milli landa og svæða. Veiran berst með ákveðnum tegundum farfugla sem eru náttúrulegir smitberar en vísindamenn telja þó afar ólíklegt að þær tegundir smitist sjálfar.Ræktuðu fiðurfé er hins vegar sérstaklega hætt við smiti og þar sem ekki er hægt að stöðva hina fljúgandi smitbera hafa heilbrigðisstofnanir í Evrópu miklar áhyggjur af fréttum undanfarið af sýktum fuglum í austasta hluta Evrópu.
Þrátt fyrir þessa smithættu og þá erfiðleika sem fylgja því að stöðva útbreiðsluna er sérstaklega tvennt sem verið er að gera til að koma í veg fyrir að sýkingin berist í alifugla og þaðan í menn. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að eftirlit með ræktendum fiðurfés og öryggismálum þeirra sé virkt. Í því felst að hreinlæti sé eftir þeim stöðlum sem settir eru og að útilokað sé að villtir fuglar geti komist í návígi við þá ræktuðu. Í öðru lagi er mögulegt að reikna út flökkuferla farfuglanna og bregðast rétt og hratt við þegar þeir birtast. Þar sem veiran hefur komið upp hafa milljónir fugla verið drepnir til að reyna að stöðva útbreiðsluna meðal fuglanna og þannig koma í veg fyrir að veiran berist í menn.
Ástæða er til að taka það sérstaklega fram að smitleiðin í menn er í gegnum nálægð við lifandi fiðurfé, en ekki í gegnum mat. Sérfræðingar telja að þeir sem í eru í mestri hættu á að smitast eru starfsmenn alifuglabúa sem vinna við slátrun og undirbúning kjötvöru. Þó eru það tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að elda allt kjöt á að minnsta kosti sjötíu gráðum á celsíus og að matreiðslu eggja sé gætt sérstaklega. Ef veiran síðan berst í menn er það mat sérfræðinga að ólíklegt sé að veiran sjálf muni dreifast hratt og vítt en mesta hættan verður ef þessi banvæni veirustofn blandist við flensu úr mönnum; talið er að þannig hafi heimsfaraldurinn 1918, sem nú er talinn hafa verið fuglaflensa, breiðst út. Vísindamenn telja að orsakir slíkrar stökkbreytingar gætu orðið hörmulegar og leitt til allt milli tveggja og fimmtíu milljóna dauðsfalla.
Samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hafa 126 tilfelli af fuglaflensu í mönnum greinst síðan 26. desember 2003 og þar af eru 64 dauðsföll. Þessi tilfelli hafa komið upp í fjórum löndum; Indónesíu, Víetnam, Tælandi og Kambódíu. Útbreiðsla veirunnar í fuglum hefur dreifst víðar og er núna á jaðri Evrópu. Ennþá er óvissan mikil um þróun þessa faraldar og hversu mikil ógn mönnum muni stafa af honum, en vísindamenn og aðrir sérfræðingar eru að gera ýmislegt til að halda hættunni í skefjum og það verður víst að duga okkur, almennu borgurunum, að sinni.
Heimildir: www.bbc.co.uk og www.who.int
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009