Óeirðirnar í Frakklandi sem staðið hafa í rúmar tvær vikur, vekja ugg og óhug um gjörvalla Evrópu. Hvernig stendur á því að kveikt hefur verið í bílum og gríðarleg eignaspjöll hafa verið framan í rúmar tvær vikur? Hvernig stendur á því að ungmenni telja sig yfir lög og reglur samfélagsins hafin og stunda íkveikjur og önnur eignaspjöll? Brást þjóðfélagið? Eru gerendur þessa að tjá mótmæli sín með róttækum hætti, eða er hér verið að fá útrás fyrir skemmdarfýsn? Rétt er að taka það fram að til hljóta og ýmsir að hafa samúð með málstað þeirra sem nú mótmæla í Frakklandi; sumir sammála þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til, aðrir þeim ósammála.
Víst er að margar spurningar vakna varðandi óöldina í Frakklandi og mörgu er ósvarað. Af frásögnum fjölmiðla að dæma er hér aðallega á ferðinni ungt fólk; innflytjendur eða afkomendur innflytjenda af 2. eða jafnvel 3. kynslóð sem rísa upp og telja sér mismunað í frönsku samfélagi á grundvelli kynþáttar eða efnahags. En er það svo með alla? Hversu margir nýta sér tækifærið og svala hvötum sínum til þess að eyðileggja eigur annarra og fá með því útrás fyrir skemmdarfýsn? Hversu mörgum gerendum í Frakklandi er nokk sama um meinta mismunun eða réttindi innflytjenda, en taka bara þátt til þess að vera með?
Og hvað með þá staðreynd að mótmælendur virðast fyrst og fremst beina spjótum sínum að eigin hverfum og umhverfi; kveikt er í bílum nágranna og hverfisskólar og íþróttamannvirki eru brennd til grunna? Hvað ber að lesa úr því? Er ekki skammgóður vermir fólginn í því að pissa í eigin skó-ef svo groddaleg samlíking er notuð? Væri ekki áhrifaríkara og betra að beina spjótum sínum að öðrum hverfum eða borgarhlutum til þess að eftir þessu væri meira tekið? Eða skiptir það mestu máli að berjast á vígvelli sem menn þekkja hvað best og geta skotið sér undan yfirvöldum hraðar og auðveldar en í ókunnum aðstæðum?
Og er unnt að fá svör við þessum spurningum? Nei að minnsta kosti ekki nú um stundir, það er fyrst þegar ró er aftur komin á sem menn geta rannsakað mótmælin að fullu til þess að komast að rótum þeirra.
Þegar hópur þjóðfélagsþegna hefja mótmæli í andstöðu við lög og rétt og tjá sig með meiriháttar eignaspjöllum,þá bresta áhrif laga og réttar fullkomlega eins og nú hefur gerst í Frakklandi. Og þegar við búum í samfélagi sem byggir á lögum og rétti er þeim mikilvægara að rýna í ástæður þess að menn telja sig tímabundið óbundnir af hátternisreglum samfélags.
Ef til vill eru fjölmargir hér á landi sem líta á óeirðirnar í Frakklandi sem staðbundið vandamál sem lítið erindi á hér á landi. Aldrei skal segja aldrei, og því er mikilvægt að reynt sé að komast að rótum vandans í Frakklandi og ástæðu þess að upp úr sauð. Til þess þurfum við að spyrja okkur óþægilegra og nærgöngulla spurninga og fá við þeim svör. Slíkt útheimtir tíma og þolinmæði.
Hafa ber í huga að lausn á sérhverjum vanda er iðulega fólgið í skilningi. Valdbeiting eða skemmdarverk leysa hins vegar færri vandamál og gera hluti oft flóknari og óviðráðanlegri.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007