Nýlega sá ég auglýsingu hérna í Bandaríkjunum sem, að því er virtist, átti að stuðla að því að fólk hætti að reykja. Hún sýndi mann á miðjum aldri sem sagðist hafa miklar áhyggjur af heilsunni og við tók dúnmjúk kvenmannsrödd sem benti á að besta leiðin til að til að draga úr hættu af reykingum vera einfaldlega að hætta. Tók hún sérstaklega fram að ekki væru neinar „betri“ sígarettur en aðrar.
Sem Íslendingi var svo sem ekkert sem kom mér á óvart í auglýsingunni, enda hefur Tóbaksvarnaráð verið öflugt að koma slíkum skilaboðum á framfæri heima á Íslandi. Hins vegar kom það á óvart að ekki var það bandaríska útgáfa Tóbaksvarnaráðs sem auglýsti svona heldur stærsti sígarettuframleiðandi Bandaríkjanna, Philip Morris.
Líklega hefði maður svona fyrir fram haldið að þeir legðu meiri áherslu á að auglýsa Marlboro manninn en að fæla hugsanlega kaupendur frá viðskiptum.
En auðvitað var eðlileg skýring á þessari auglýsingu. Philip Morris hefur nýlega uppgötvað, eins og margir aðrir tóbaksframleiðendur,að reykingar eru skaðlegar. Líklegt er að 200 milljarðar bandaríkjadala borgaðir í skaðabætur hafi eitthvað haft með þessa skyndilega hugljómun að gera.
Ekki er það svo gott að fyrirtækið hafi ákveðið að reyna bæta fyrir skaðann sem reykingar valda. Skyndilegur áhugi þeirra á því að fólk hætti að reykja er tengdur því að þeir sjá viðskiptatækifæri í því að hjálpa fólki að hætta og hafa því fært sig inn á lyfjamarkaðinn með sérstaka áherslu á lungnasjúkdóma. Þannig vilja þeir verja sig fyrir viðskiptum sem þeir verða af vegna þess að sígarettumarkaðurinn minnkar óumflýjanlega frá ári til árs.
En þetta er ekki eina dæmið um að bandarískt stórfyrirtæki finni skyndilega fyrir umhyggju fyrir hag almennings. Nýlega ákvað eitt stærsta matvælafyrirtæki í Bandaríkjunum, Kraft foods, að hætta að beina auglýsingum á óhollari vörum sínum til ungra barna. Vilja margir meina að þetta hafi verið gert til að koma í veg fyrir lagasetningu til að sporna við offitu, sem hefði neitt þá á þessa braut. Aðrir benda á að fyrirtækið hefði einfaldlega lært af reynslu Philip Morris og viljað koma í veg fyrir stórfeldar málsóknir.
Þessi stefnubreyting hjá Kraft foods er langt frá því að vera sjálfsögð því að talið er að þeir tapi 75 milljónum dala í sölutekjum á ári. En væntanlega ráða langtímahagsmunir ferðinni í þessari ákvörðun þar sem Bandaríkjamenn horfa fram á að offita meðal barna er vandamál sem versnar með hverju ári. Í stað þess að verða framtíðarsökudólgur, stefnir fyrirtækið að því að leiða umræðuna um heilsufar barna og sér markað í því að taka ábyrga stefnu varðandi mataræði.
Þó að ólíklegt sé að offita barna verði jöfnuð við hættu af reykingum er ljóst að neytendur í Bandaríkjunum eru smátt og smátt að verða meðvitaðir um áhrif óholls mataræðis og stórfyrirtæki að bregðast við því.
Þó að flest fyrirtæki láti hagnaðarsjónarmið ráða stefnu sinni er það gömul kredda að slíkt leiði alltaf að neikvæðri hegðun sem skaðar hagsmuni neytenda. Það eru nefnilega neytendur sem í flestum tilfellum ráða ferðinni og svo lengi sem skýr lög gilda sem tryggja þeim nákvæmar upplýsingar um vörur á markaði, er velgengni fyrirtækja að miklu leyti í þeirra höndum.
Því er kannski ekki alltaf svarið að takmarka sveigjanleika fyrirtækja með lagasetningu. Það er nefnilega ágætis viðskiptatækifæri í skynsemi.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021