Ofurhetjur landsins, sameinist!
|
Það brá mörgum í brún þegar Blóðbankinn gekk fram fyrir skjöldu í vikunni og auglýsti eftir ofurhetjum í borginni. Eftir ríflega áratuga setu R-listans í Ráðhúsinu kveður svo rammt að blóðleysi í Reykjavík að borgarbúa sundlar í ríkari mæli en æskilegt er. Blóðbankinn er skynvísari á gangvirki hluta en margur ætlar. Auðvitað er það algert aukaatriði að pistlahöfundur lætur ímyndunaraflið allt of oft hlaupa með sig í gönur – en, kommon! – þið verðið að viðurkenna að það er freistandi að ætla, að annað og meira en lágar byrgðir búi að baki neyðarópi Blóðbankans. Sjúkdómsgreiningin er nefnilega einföld: borgin er ekki blóðlítil. Heldur er fyrir löngu búið að signa, krossa og kasta rekunum, sem liggja óhreyfðar á Ráðhúsplaninu á meðan borgarstjórinn hlustar eftir lífsmarki á hverfafundum um alla borg.
Að sögn yfirlæknis Blóðbankans eru borgarbúar ekki nægilega viljugir að gefa af sér. Þannig gera áætlanir ráð fyrir að til að viðhalda eðlilegum blóðforða þurfi um níu þúsund manns að skipta á sléttu við bankann á blóði fyrir vínarbrauð og annað bakkelsi. Haldið ykkur fast því hliðstæðurnar eru algerar: Að sögn innvígðra sjálfstæðismanna eru borgarbúar afar viljugir að gefa af sér. Þannig gera áætlanir ráð fyrir að til að ná kosningu í sæti oddvita flokksins í Reykjavík þurfi um níu þúsund manns að á skipta á sléttu við frambjóðanda á atkvæði fyrir betri borg og annað bakkelsi.
Rétt’upp hönd sem trúir á tilviljanir…
Neyðaróp blóðbankans er hrópandi, rómur sem mun ljá hugsun Reykvíkinga tón í kjörklefum í vor. Umskipti eru óumflýjanleg og það er fullvíst að Reykvíkingar munu fylkja sér um oddvita borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og veita honum brautargengi í borgarstjórastól.
Annað er óhugsandi.
Prófkjör eru flokknum holl enda virka þau svona svipað og erfiðar æfingar: sviti, blóð og tár (þó ekki tár, bros og takkskór) – en menn standa sterkari að þeim loknum. Foringjar verða aldrei skapaðir í bakhergjum, þeir þurfa að sanna sig í prófkjöri. Foringjar verða að geta lagt á vaðið. Um það verður ekki deilt og maður prísar sig sælan að sjálfstæðismenn hafi ekki freistast til að settla málið, t.a.m. með því að bjóða einhverjum stjórnarformannsstól eins og flokkurinn sem aldrei mælist í skoðanakönnunum vélar um þessa dagana.
Það stendur skrifað að eins manns dauði sé annars brauð; það er voandi að rekurnar á gröf R-listans verði öndvegissúlur í vegferð borgarstjóra Sjálfstæðisflokks.
Góða kosningahelgi, börnin góð.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007