Í kjölfar átakanlegs sjónvarpsviðtals í liðinni viku við foreldra yngsta lifrarþega landsins vaknaði þörf umræða um líffæragjafir. Vildu foreldarnir með sögunni vekja athygli á brýnni nauðsyn líffæragjafa. Kölluðu þau jafnframt eftir því að umgjörð þessara mála yrði sem fyrst háttað á þann veg að möguleikinn á því að taka formlega afstöðu til slíkra gjafa yrði almenningi sem aðgengilegastur.
Staðreyndin er einfaldlega sú að alltof fáar líffæragjafir eiga sér stað á Íslandi í dag en aðeins er um þrjár til fjórar að ræða á ári. Helmingi fleiri, eða sjö til átta einstaklingar, eru þó árlega á biðlista eftir líffærum hér á landi.
Síðan 1992 hafa Íslendingar verið í samvinnu við hin Norðurlöndin í gegnum samtökin Scandiatransplant, en frá þeim tíma höfum við getað gefið líffæri í sameiginlegan líffærabanka þaðan sem við gátum áður aðeins þegið líffæri. Á vegum samtakanna fara líffærin sem hér fást síðan til Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn, þar sem þau eru þó sjaldnast grædd í íslenska sjúklinga.
Það er ekki að ástæðulausu sem aðstandendur líffæraþega kalla eftir umræðu. Hér á landi skortir augljóslega leið til að fólk geti á sem einfaldastan máta lýst yfir afstöðu sinni til líffæragjafa. Landlæknisembættið hefur reyndar gefið út bæklinga sem innihalda líffæragjafakort sem hægt er að fylla út og bera á sér, en ekkert er raun vitað um útbreiðslu þeirra. Sömuleiðis hefur verið gefin út svokölluð lífsskrá þar sem fólk getur tekið ákvörðun um hvað sé gert á síðustu metrum lífs síns. Bent hefur verið á gæfulegt gæti reynst að taka upp svipað kerfi og er til staðar í Bandaríkjunum, en komi til þess er skýrt tekið fram á ökuskírteini hvort viðkomandi kjósi að verða líffæragjafi.
Víða í Evrópu er því þannig háttað að lög hafa verið sett sem gera ráð fyrir ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf. Þá hafa læknar í raun lagalega heimild til að fjarlægja líffæri til ígræðslu svo fremi að ekki liggji fyrir formleg afstaða einstaklingsins gegn líffæragjöf. Í Austurríki og Belgíu er m.a.s. gengið svo langt að ekki er leitað samþykkis nánustu ættmenna fyrir brottnámi líffæra hins látna. Það kemur því ekki á óvart að þessi lönd eru meðal þeirra sem hafa hæsta hlutfall líffæragjafa í heiminum.
Ástæður lágs hlutfalls líffæragjafa hér á landi er þó líklega helst skortur á umræðu og fræðslu um þessi mál. Það er því kannski ekki skrítið að kallið eftir auðveldara aðgengi almennings að upplýstri og formlegri afstöðutöku til líffæragjafa hafi ekki verið háværara. Auðvitað er vandkvæðum háð að skilgreina þessa umræðu sem sjálfsagða og eðlilega innan fjölskyldna þegar um jafn viðkvæmt efni er að ræða. Enginn vill að óþörfu setja sig í þær stellingar að þurfa hugleiða framvindu mála við hugsanlegt andlát sitt eða sinna nánustu. En þá verður einnig að líta til þess að taki hver og einn afstöðu til líffæragjafa, er létt af aðstandendum gífurlega erfiðri ákvarðanatöku. Í dag er málum þannig háttað hér á landi að í um 40% þeirra tilvika sem óskað hefur verið eftir samþykki ættingja fyrir líffæragjöf hefur því verið neitað. Það er t.d. tvöfalt hærra hlutfall en á Spáni þar sem um 23% slíkra beiðna er hafnað.
Tölurnar segja okkur að umræðan þolir enga bið. Það liggur fyrir að þegar best lætur getur líffæragjöf einnar manneskju bjargað 10 til 15 mannlífum. Bíðum ekki eftir því að kerfið setji okkur valkosti eða afarkosti hvað varðar ákvarðanatöku. Tökum afstöðu. Það er vart hægt að hugsa sér göfugri gjöf.
Bæklingur um líffæragjöf:
Líffæragjafi
Heimild:
Læknablaðið
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007