Íþróttir eru ekki fyrir alla. Sumir hafa meira að segja hvorki gaman af því að stunda íþróttir né að fylgjast með öðrum spreyta sig. Hins vegar skipa íþróttir stóran sess í lífi margra. Í dag veltir íþróttaiðnaðurinn stjarnfræðilegum fjárhæðum og virðist fara vaxandi ár hvert. Íþróttahetjur eru dýrkaðar í öllum heimshlutum svo nánast jaðrar við trúarbrögð á stundum.
Íþróttahetjur velja oftast að einbeita sér aðeins að því að vera sá íþróttamaður sem þær eru. Margar hverjar hafa aldrei verið neitt annað en íþróttamenn og eina hugmynd þeirra um „æðri köllun“ er að vinna að 0framgangi þeirrar íþróttar sem þeir stunda. Þessar hetjur veita stuðningsmönnum sínum innblástur og hvatningu til íþróttalegra afreka, svo ekki sé minnst á skemmtannagildi þeirra „takta“ og „bragða“ sem þeir sýna. Þetta er að sjálfsögðu gott og blessað og réttlætir að flestra mati þau fjárútlát sem íþróttirnar krefjast. Íþróttir lúta jú eins og flest annað lögmálum markaðarins um framboð og eftirspurn.
Af og til, en þó ekkert allt of oft, koma fram á sjónarsviðið íþróttamenn sem eru sérstakir á annan hátt en bara þann að vera rosalega góðir í einhverri íþrótt. Þeir hafa þjálfað með sér hæfileika til að verða meistarar, sem er nógu sjaldgæft, en hverjir þeir eru og það sem þeir standa fyrir gerir þá enn sérstakari. Þeir vekja athygli, einnig hjá þeim sem eru e.t.v. ekki íþróttaáhugamenn. Þeir verða tákn vonar og hugrekkis og veita einstaklingum og hópum innblástur í hinum ýmsu baráttum sem þeir há. Með hvatningu íþróttahetja hafa konur barist harðar í jafnréttisbaráttu, svartir múslimar öðlast talsmann og trúarlegt frelsi og svartir Ameríkubúar yfirunnið hindranir hörundslitar og svo mætti áfram telja.
Að öllu framansögðu vill pistlahöfundur kynna til leiks íþróttahetju sem er meira en íþróttahetja. Lance Armstrong er fæddur í september 1971 í Plano, Texas og er sjöfaldur sigurvegari Frakklandshjólreiðanna (Tour de France – af mörgum nefnt Tour de Lance). Það eitt í sjálfu sér er stórfenglegt afrek því aldrei fyrr hefur sami maðurinn unnið keppnina oftar en þrisvar. Það sem gerir sögu Lance Armstrong enn sérstakari er sú staðreynd að þegar hann vann sína fyrstu Tour de France keppni árið 1999 hafði hann nýlega sigrast á hinum illvíga sjúkdómi krabbameini. Lance greindist með krabbamein í október 1996. Krabbameinið hafði fyrst tekið sig upp í eistum en þegar hann greindist hafði sjúkdómurinn borist til lungna og heila. Læknar sögðu honum að hann ætti í kring um 40% lífslíkur. Eftir að Lance hafði náð fullum bata sögðu læknar honum hins vegar að í raun hefðu þeir talið lífslíkur hans í kring um 3%.
Árið 1997 stofnaði Lance og íþróttavöruframleiðandinn Nike, The Lance Armstrong Foundation, en tilgangur sjóðsins er að styðja við bakið á krabbameinssjúklingum. Árið 2004 hóf sjóðurinn sölu Livestrong armbanda, sem var ætlað að safna peningum til krabbameinsrannsókna, en ekki síður að vekja fólk til umhugsunar og gefa krabbameinssjúklingum von í baráttunni við sjúkdóminn. Meira en 50 milljónir armbanda hafa selst á 1 bandaríkjadollara hvert. Allt frá grunnskólabörnum til öldungardeildarþingmanna bera gulu armböndinn til að sýna málefninu stuðning. Lance segir sjálfur að allra mikilvægasti þátturinn í starfi hans sé sá að veita þeim sem há baráttu við krabbamein innblástur, von og styrk. Þó svo að hann hafi varið stærstum hluta frítíma síns í að hitta fólk og halda fyrirlestra og reyna að kvetja fólk áfram segir hann að mesta gagn sem hann sjálfur getur gert sé að setjast á hnakkinn á hjólinu og láta til sín taka í keppni við færustu hjólreiðamenn heims. Með því getur hann sýnt öllum fjöldanum hvað hægt er að gera í kjölfar erfiðrar viðureignar við krabbamein. Barátta hans hefur svo sannarlega skilað árangri. Milljónir manna um allan heim líta á Lance Armstron sem hetju sína og fyrirmynd. Fjöldi þeirra hópast til Frakklands á hverju ári og hvetur Lance áfram í keppninni. Margir hverjir segjast aldrei hafa séð tilgang í því að fylgjast með íþróttum fyrr en þeir heyrðu af Lance.
Þessi merki íþróttamaður hefur nú lýst því yfir að hann sé sestur í helgan stein sem hjólreiðamaður. Nú ætlar hann að beina öllum sínum kröftum að fjáröflun til krabbameinsrannsókna og því að aðstoða krabbameinssjúka með þeim hætti sem hann mögulegast getur. Lance Armstrong hefur skapað sér arfleið sem mun eflaust hafa áhrif um ókomna tíð. Hans verður eflaust ávallt minnst fyrir íþróttaafrek sín, en örugglega miklu frekar fyrir framlag hans til baráttunnar gegn krabbameini. Hann er meira en íþróttahetja.
- Tólf útlendingar handteknir! - 7. nóvember 2006
- Óflekkað mannorð - 6. ágúst 2006
- Rock hallelujah! - 20. maí 2006