Stórveldi í fæðingu!

Það er ekki oft sem að maður fær tækifæri til þess að fylgjast með fæðingu og byrjunarörðugleikum verðandi stórveldis og því vil ég gefa lesendum Deiglunar kost á því í dag. Venjan er sú að fæstir vita af starfi félaga fyrr en þau hafa risið til nokkurs frama, enda er fréttaflutningur af þeim í lágmarki þar til þau geta státað af einhverju viðamiklu afreki. Þetta á þó sérstaklega við ef viðkomandi félag á uppruna sinn utan höfuðborgarsvæðisins. Af þessum sökum hef ég tileinkað pistli mínum dag, ungu en drifmiklu félagi sem ber hið kraftmikla nafn, Hamrarnir.

Þann 30. október síðastliðin, það er að segja í gær, fór fram stofnfundur knattspyrnufélagsins Hamrarnir. Fundurinn fór fram á veitingastaðnum La Vita e Bella á Akureyri. Var fundurinn þokkalega vel sóttur en 19 manns sáu sér fært að mæta á svæðið. Þetta verður að teljast nokkuð gott þar sem að stór þorri leikmanna og velunnara gátu ekki mætt vegna landfræðilegrar staðsetningar. Kosið var í stjórn auk þess sem að kosið var um lög félagsins eins og venja er á stofnfundi. Segja má að í stjórn sé valinn maður í hverju rúmi enda virðist félagskapurinn vera ótæmandi uppspretta efnilegra ungra manna.

Svo að lesendur komi nú ekki alveg af fjöllum þá stikla ég hér á stóru í sögu félagsins. Hamrarnir er nafn á vinahópi sem að myndaðist í Menntaskólanum á Akureyri, á árunum 2000 og 2001, og hefur vaxið gríðarlega síðan. Sameiningartákn vinahópsins var og er enn í dag knattspyrna, í allri þeirri mynd sem að hún birtist. Vinahópurinn tók þátt í hinum ýmsustu knattspyrnumótum á menntaskólaárunum og naut gríðarlegrar velgengni. Það var á mínum eigin menntaskólaárum sem að ég kynntist þessum vinahópi og hef því getað fylgst með framgöngu þeirra nokkuð náið hin síðustu ár. En eins og í sögu hvers vinahóps og/eða félags myndaðist ákveðinn vendipunktur og þeirra var þegar menntaskólaárunum lauk og einstaklingar lögðu land undir fót hver í sína átt. Það er hinsvegar gott merki um styrk þeirra og stöðugleika að félagið hefur haldið áfram að vaxa og dafna þrátt fyrir landlægar hindranir.

Nú er vinahópurinn aftur kominn að vendipunkti í sögu sinni þar sem hópurinn er formlega orðinn félag. Þetta kemur í kjölfar þess að Íþróttabandalag Akureyrar samþykkti umsókn þeirra sem aðildarfélag að bandalaginu. Þannig að öllu óbreyttu munu Hamrarnir taka þátt í íslandsmóti KSÍ í knattspyrnu næsta sumar. Tímasetningin gat heldur ekki verið öllu betri þar sem Norðurlandsriðill þriðju deildar verður æsispennandi næsta sumar. Stærri lið eins og Dalvík, Tindastóll (Sauðárkróki) og hugsanlega Leiftur (Ólafsfirði) verða í riðlinum auk þess sem að Magni frá Grenivík mun koma með fyrnsterkt lið til leiks næsta sumar. Það er því ljóst að Hamrarnir munu ekki ráðast garðinn þar sem að hann er lægstur. Þeirra bíður verðugt verkefni og ef ég þekki þá rétt verður þetta verkefni tæklað með brosi á vör. Enda eru leikgleði og metnaður tvö helstu einkenni Hamranna.

Ég vil ítreka það fyrir lesendum að þrátt fyrir að enn sem komið er hafi Hamrarnir aðallega látið að sér kveða á nótum knattspyrnunnar, þá hefur félagið alla burði til þess að gera miklu stærri og meiri hluti en þá sem bundnir eru við boltaspark. Enda er það fólkið í og á bakvið félagskapinn sem gerir hann eins sterkan og raun ber vitni. Nokkuð sem Deiglupennar þekkja mætavel. Svona í lokin vil ég minna fólk á að hafa bæði augu og eyru opin og láta sér ekki bregða þó nafn Hamrana eigi eftir koma víðar við í fjölmiðlum á komandi árum.

Fyrir áhugasama:

www.hamrarnir.tk