Undanfarið ár höfum við orðið vitni að fjölmörgum atburðum sem fyrir fram þóttu ólíklegir en hafa haft hræðilegar afleiðingar. Tsunami flóðbylgjan í Indlandshafi, fellibylurinn Katrina og jarðskjálfti í Pakistan eru meðal þeirra.
Þetta ár hefur einkennst af náttúruhamförum en hörmungar næsta árs gætu allt eins verið í formi fuglaflensu faraldurs eða stórtækra hryðjuverka. Spurningin er hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja eða gera áætlanir fyrir slíkar hörmungar og hvernig eigi að forgangsraða slíkum aðgerðum. Er mikilvægara að huga að jarðskjálftum en smitsjúkdómum? Hvað með hryðjuverk? Loftsteina, jafnvel?
Áhættumat
Það eru ekki ný vísindi að reynt sé að meta áhættu og afleiðingar. Slíkt er til dæmis grundvallaratriði í rekstri tryggingafélaga sem skila hagnaði. Í grundvallar áhættumati er byrði ákveðinna atburða oft ákvörðuð með
byrði = áhætta * afleiðingar
þar sem áhættan metur líkurnar á að atburðurinn eigi sér stað. Rökrétt forgangsröðun væri því að byrjað sé á aðgerðum vegna atburða sem hafa mikla byrði en mögulegt sé að fyrirbyggja eða lágmarka afleiðingar á tiltölulega ódýran hátt.
Það getur verið erfitt að meta umfang afleiðinga og kostnað fyrirbyggjandi aðgerða, en slíkt er þó vel hugsandi. Vandamálið liggur hins vegar helst í því að meta áhættuna þegar atburðir eru sjaldgjæfir. Tryggingafélagið getur metið áhættu á bílslysum enda gerast þau að hverjum degi og því höfum við tiltækar upplýsingar um tíðni þeirra. En hvernig var hægt að meta áhættuna á hryðjuverkaárásunum 11/9 eða fljóðbylgjunnar um síðustu jól? Erfitt er að meta tíðni slíkra atburða í fortíðinni og auk þess er alls ekki víst að það gefi rétta vísbendingu um framtíðina. Eru líkur á hryðjuverkaárás núna þær sömu og í kring um aldamótin? Staðreyndin er sú að undanfarin ár hafa nokkur “vel heppnuð” hryðjuverk verið framin. Eykur það líkurnar á slíkum voðaverkum í framtíðinni?
Margir hafa bent á mikinn fjölda náttúruhamfara undanfarið og sumir hafa nefnt hækkað hitastig jarðar í því sambandi. Er ástæða til að meta líkur á náttúruhamförum í framtíðinni meiri en tíðni þeirra hingað til?
Áhættuskynjun
Fjölmargir þættir hafa áhrif á skynjun fólks á áhættu. Þar á meðal umfang afleiðinga, hvort þær séu afturkræfar eða ekki og hvort hægt sé að fyrirbyggja þær. Fjölmiðlar gegna mjög stóru hlutverki þegar kemur að skynjun fólks á áhættu en gefa oft ónákvæma mynd. Hér í Bandaríkjunum hefur fjöldi fólks, t.a.m., heilmiklar áhyggjur af Vestur-Nílar vírusnum þó aðeins 1000 manns hafi smitast á þessu ári og 73 dáið (borið saman við Ísland þá jafnast þetta á við að einn einstaklingur hafi smitast og að öllum líkindum lifað af).
Áhættustjórnun
Listinn af mögulegum hörmungum er að sjálfsögðu endalaus. Því er mikilvægt að ákvarða þær sem hafa tiltölulega mikla áhættu og afleiðingar, og grípa til mögulegra aðgerða. Nú hins vegar, með fjölmiðla og internet sem ótæmandi uppsprettu upplýsinga um hættu á hörmungum, er kannski ástæða til að hafa meiri áhyggjur af of mikilli fjárfestingu í slíkum aðgerðum.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007