Það fór vafalaust fram hjá fáum að á mánudaginn lögðu konur um allt land niður störf klukkan 14:08 til að mótmæla ójafnrétti kynjanna. Tímasetningin var heldur engin tilviljun enda 30 ár liðin frá kvennafrídeginum fræga árið 1975 sem margir telja marka upphaf nútíma jafnréttisbaráttu kynjanna. Síðan þá hefur margt áunnist en enn er töluvert í að fullkomið jafnrétti náist.
Launamunur kynjanna er ein birtingarmynd þess ójafnréttis sem ríkir hér á landi. Önnur er hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum fyrirtækja, á Alþingi og í æðstu embættum stjórnsýslunnar. Sem dæmi að þá er engin kona forstjóri fyrirtækis í Kauphöllinni og einungis 7,4% stjórnarmanna í þessum sömu fyrirtækjum eru konur. En hvað er til ráða hvernig má auka hlutdeild kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja?
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið skipaði á síðasta ári, að tilsögn Alþingis, nefnd til að fjalla um aukin tækifæri kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Nefndin skilaði af sér skýrslu um málið um miðjan þennan mánuð. Í meginatriðum voru tillögur nefndarinnar að aðgerðum, sem miða að því að efla fyrirtæki og atvinnulíf með því að fjölga konum í stjórnum, þessar:
1. Að tryggja farveg fyrir umræðu og þekkingaröflun
2. Að birta reglulega lista með upplýsingum um fjölda og hlutfall kvenna í stjórnum
3. Að efla tengsl kvenna
4. Að víkka leitarskilyrði og sjóndeildarhring við skipanir í stjórnir
5. Að hvetja fyrirtæki til að setja konur á dagskrá
6. Að fá karlmenn í áhrifastöðum til að gera málið að sínu
Þetta eru allt góð og gegn atriði. Þriðja atriðið í listanum hér að ofan: “Að efla tengsl kvenna”, er eflaust mjög þarft enda er aukið og þéttara tengslanet kvenna líklegt til að leiða til þess að þær verði í ríkari mæli valdar í stjórnir fyrirtækja. Sömuleiðis er ljóst að nauðsynlegt er að auka umræðu um þessi mál og viðhorfsbreytingar er þörf, sérstaklega hjá lífeyrissjóðunum sem fjárfesta fyrir almannafé.
En spurningin er kannski frekar, þótt þessi atriði séu nauðsynleg, hvort þau séu nægjanleg? Það er allavega ljóst að það verður ekki gerð kauphallarbylting á einni nóttu. Þróunin mun taka langan tíma. Hugsanlega mun hún haldast í hendur við kynslóðaskipti hjá fyrirtækjum landsins enda má telja líklegt að ungt fólk, karlar jafnt sem konur, sé mun meðvitaðra um þessi mál en sú kynslóð sem í dag ræður ríkjum í fyrirtækjum Kauphallarinnar.
En er þá hægt að gera eitthvað til að flýta þessari þróun? Að mati pistlahöfundar er svarið einfalt: Það þarf fleiri konur í að velja í stjórnir fyrirtækja. Því gætu þær náð með því að fjárfesta meira í fyrirtækjum en raun ber vitni. Það sem meira er það þarf konur til að spila sama leik og karlar gera. Þær þurfa að yfirtaka, sameina, skipta upp og skuldsetja í eigin fyrirtækjum. Þær þurfa að koma sér í þá stöðu að vera stórir hluthafar í fyrirtækjum í Kauphöllinni og þannig munu þær geta valið í stjórnir fyrirtækjanna sjálfar.
Stærstu eigendur fyrirtækja í Kauphöll Íslands í dag eru með mikla hagsmuni í húfi. Þessi aðilar velja í stjórn þá aðila sem þeir treysta best. Oftast þá sjálfa, en ef ekki, nána samstarfsmenn, vini eða kunningja. Þar sem flestir stærstu hluthafa fyrirtækja Kauphallarinnar eru karlmenn eða fyrirtæki sem karlmenn stjórna er langlíklegast að þeir velji karlmenn í stjórnir fyrirtækjanna. Jafnvel þótt viðhorfsbreyting verði í þessum efnum, sem án efa leiðir til aukins hlutar kvenna í stjórnum fyrirtækja, þá er ekki víst að það dugi til. Mannlegt eðli er þannig að menn treysta þeim sem þeir þekkja betur en þeim sem þeir þekkja ekki. Þess vegna er líklegra að karlmenn velji karlmenn í stjórnir fyrirtækja þar sem stærstur hluti trúnaðarvina karlmanna eru karlmenn. Nákvæmlega sama á við um konur þannig að konur velja frekar konur í stjórnir fyrirtækja þar sem konur eru í meirihluta þeirra sem þær treysta.
Það eru margar sterkefnaðar konur á Íslandi í dag. Þær virðast þó ekki leika sama leikinn og ríku karlarnir, þær virðast vera minna fyrir sameiningar, yfirtökur og áhættusækin, “gíruð” fjárfestingafélög. Konur hafa löngum verið sakaðar um að vera áhættufælnari en karlar í sínum fjárfestingum, sem gæti skýrt þessa stöðu að einhverju leyti. Það er þó fjarri lagi að vera algilt og í dag er fjöldi kvenna við störf í fjárfestingabönkunum að gera nákvæmlega það sama og karlarnir.
Það var hægt að fá 45.000 konur til að mæta í fylkingu í miðbæ Reykjavíkur á mánudagseftirmiðdegi. Væri ekki hægt að fá allar þessar konur og fleiri til, í að fjárfesta í fjárfestingarfélagi kvenna? Félagi eingöngu í eigu kvenna og reknu af konum. Það þyrfti að jafnaði um 100.000 krónur frá hverri þeirra sem mætti í gönguna til að mynda félag með eiginfjárstöðu upp á 4,5 milljarða. Það ætti að vera raunhæft, þar sem sumar legðu til minna en aðrar gætu hugsanlega reitt fram þúsundfalda nefnda meðalupphæð. Slíkt félag gæti eflaust fjárfest fyrir allt að fjórföldu eigin fé og þannig tekið stórar og ráðandi stöður í mörgum af fyrirtækjum kauphallarinnar. Þannig fengju konur að ráða því sjálfar hverja þær kjósa í stjórnir fyrirtækjanna og er ég meira að segja viss um að þeir stjórnarmenn yrðu flestir ef ekki allir konur.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008