Samkvæmt árlegri úttekt stofnunarinnar Transparency International sem kom út á þriðjudaginn þrífst hvergi minni spilling í heiminum en á Íslandi. Á skalanum 1 til 10, þar sem 10 merkir engin opinber spilling, mælist Ísland með 9,7. Marga rak í rogastans þegar fréttir af þessu birtust í íslenskum fjölmiðlum. Menn láta í ljósi efasemdir um gildi þeirrar niðurstöðu og spyrja sig á hvaða forsendum er verið að mæla þessa spillingu.
Á síðu stofnunarinnar segir að könnuð sé spilling í opinberri stjórnsýslu og er hún skilgreind sem misnotkun á opinberri stöðu fyrir persónulegan ávinning.
Niðurstaða stofnunarinnar byggir könnunum sem kaupsýslumenn, fræðimenn og embættismenn svöruðu um afstöðu þeirra til stjórnkerfisins í þeim löndum sem þeir búa við og einnig þeim sem þeir eiga viðskipti við. Það er trú rannsakenda að svona kannanir sé eina leiðin til að fá góðar niðurstöður og benda á að erfitt sé t.d. að draga ályktanir af samanburði á fjölda lögsókna og málarekstra því það segi meira til um gæði réttarkerfisins í hverju landi. Í niðurstöðutöflunni er ennfremur flokkun á samræmi í niðurstöðum kannanna í hverju landi ásamt mælingu á vissu út frá fjölda niðurstaðna í hverju landi.
Þær kannanir sem skýrslan byggir á spyrja um misnotkun á opinberu valdi í eigin þágu, með áherslu, til dæmis, á mútuþægni opinberra starfsmanna. Í niðurstöðunum er ekki gerður greinarmunur á spillingu stjórnmálamanna eða embættismanna, og ekki heldur greint á milli stigsmunar á spillingu.
Könnunin byggist upp á 16 spurningum og er Ísland aðeins í spurningaflokkum 5-8 og 13-16 en allar spurningarnar nema nr 16 snúast aðallega um mútur. Í spurningu 16 er spurt um líkindi þess að lenda í spilltum embættismanni, allt frá smávægilegri skrifræðis-spillingu til meiriháttar pólitískrar spillingar.
Miðað við þessar spurningar er ekki furða að Ísland hafi skorað hátt á skalanum þar sem mútumál hafa alls ekki verið áberandi á Íslandi. Umræðan um spillingu hefur meira snúist um fyrirgreiðslustjórnmál og pólitískar ráðningar, svokallaða bitlinga.
Forsenda fyrirgreiðslustjórnmála er löngum talin sú að þegar lýðræði þróast í landi þar sem sterk stjórnsýsla er ekki til staðar (eins og á Íslandi) geri það stjórnmálamönnum kleift að nota pólitíska bitlinga til að verðlauna sína stuðningsmenn og þannig kaupa sér stuðning. Öfugt við t.d. Danmörku og Frakklandi þar sem embættismannakerfin byggðu á konungsveldinu og höfðu því verið að þróast í margar aldir áður en lýðræði komst á. Við slíkar aðstæður höfðu stjórnmálamenn ekki jafn frjálsar hendur til að nota stjórnsýslu hins opinbera í þágu einkahagsmuna.
Fyrirgreiðslustjórnmál hafa vissulega farið minnkandi í seinni tíð með aukinni regluvæðingu opinbera geirans og minni pólitískri stýringu á gæðum. En þótt þau séu ekki jafn fyrirferðamikil og þau voru þá er ekki búið að uppræta þau.
Til að gera svona úttekt þá þarf jú að gefa sér einhverjar skýrar forsendur. Fyrir þá sem vilja kynna sér spurningalista, aðferðafræði og úrtök þá er hægt að nálgast allar upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar. En það hinsvegar má leiða hugann að því hvernig fjölmiðlar kjósa að koma svona fréttum á framfæri.
Heimild: http://www.icgg.org
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021