Það hefur sennilega ekki farið fram hjá mörgum að nú er loksins búið að ákveða hver mun leika James Bond í næstu mynd um uppáhaldsnjósnara hennar hátignar. Mikið hafði verið rætt um þá sem líklegastir þóttu í hlutverkið og nöfn eins og Ewan McGregor (skoskur), Colin Farrell (írskur) og Hugh Jackman (ástralskur) hafa verið áberandi í umræðunni. Sá sem hreppti hnossið var hins vegar Daniel Craig, lítt þekktur Englendingur sem helst hefur unnið sér það til frægðar að leika aðalhlutverkið í gangstera-myndinni Layer Cake. Sem aðdáanda James Bond fannst undirrituðum þörf á að skoða þessa verðandi stórstjörnu nánar og sjá hvort Daniel sé verðugur arftaki Pierce Brosnan í hlutverki frægasta njósnara í heimi.
Hann fæddist í Chester á Englandi árið 1968 en ólst upp í Liverpool. Craig býr núna í London með þýsku leikkonunni Heike Makatsch en á dóttur af fyrra hjónabandi. Snemma á tíunda áratugnum nam hann við hinn virta tón- og leiklistarskóla Guildhall og voru Ewan McGregor og Joseph Fiennes meðal samnemenda hans. Sjónvarpsferillinn hófst með litlu hlutverki í Drop the Dead Donkey (breskir grínþættir með pólítískri ádeilu) og í sjónvarpsmyndum um Indiana Jones á sínum yngri árum. Hann vakti þó fyrst athygli breskra sjónvarpsáhorfenda árið 1996 með hlutverki sínu sem Newcastle-búi í þáttunum Our Friends in the North og hefur hann síðan leikið töluvert í breskum sjónvarps- og kvikmyndum við góðan orðstír.
Kynni hans af Hollywood voru afar takmörkuð framan af ferli hans, en síðan hann fékk verðlaun sem ein af rísandi stjörnum evrópskrar kvikmyndagerðar árið 2000 hefur hlutverkum vestan hafs fjölgað jafnt og þétt. Craig lék félaga Löru Croft í Tomb Raider frá árinu 2001 og ári síðar lék hann brjálaðan son glæpaforingja í myndinni Road to Perdition, undir handleiðslu óskarsverðlaunaleikstjórans Sam Mendes (American Beauty). Nú virðist þessi 180 cm. hái, ljóshærði og bláeygði leikari hafa náð fótfestu í lausamöl framans og tekur stór skref fram á við með þeim myndum sem eru núna í vinnslu. Hann leikur stórt hlutverk í næstu mynd Stevens Spielbergs, Munich, sem fjallar um eftirmála árásar palestínskra hryðjuverkamanna á ísraelska keppendur á Ólympíuleikunum í Munchen 1972, og núna er hann við tökur á framtíðarspennutryllinum The Visiting þar sem hann leikur eitt aðahlutverkanna á móti Nicole Kidman og Jeremy Northam (Gosford Park, Enigma). Að auki er á dagskrá hjá honum hlutverk sakfellds morðingja í myndinni Have You Heard, þar sem einvalaliði leikara hefur verið safnað saman. Þó er hætt við að það risaverkefni sem honum hefur verið falið muni riðla framtíðaráætlunum þessarar upprennandi stjörnu að einhverju leyti.
Ráðning Craigs hefur vakið nokkuð sterk viðbrögð hjá Bond-aðdáendum og gagnrýnendum. Það fer fyrir brjóstið á mörgum að hann skuli vera ljóshærður og bresku slúðurblöðin voru ekki lengi að stimpla hann sem „Blond, James Blond“, auk þess sem sömu prentmiðlar gáfu honum viðurnefnið James Bland fyrir stutt og óspennandi svör á fyrsta blaðamannafundinum sem haldinn var með nýráðnum Bond. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að kalla hann „ljótasta Bondinn“ á spjallsíðum, en undirritaður hefur lítinn áhuga á að taka þátt í slíkri orðræðu. Vissulega er Craig ekki sama sjarmatröllið og margir forverar hans í starfi og útlit hans er óneitanlega óhefðbundið fyrir þetta hlutverk, en hann fékk hlutverkið einmitt vegna þess að framleiðendur myndarinnar vilja fara í aðrar áttir með þessa mynd en hefur verið gert hingað til; þeir voru að leita að alvöru karakter, ekki bara kvennagulli, og það er skilyrði sem Daniel Craig uppfyllir svo sannarlega. Með þessu er meiningin ekki að kasta rýrð á hæfileika annarra umsækjenda eða frammistöðu þeirra sem með hlutverkið hafa farið síðustu áratugina, heldur eingöngu verið að draga fram meginástæðuna fyrir ráðningu Craigs. Aðstandendur myndarinnar voru að leita að myrkari persónu en áður, meiri skapgerð og minna af brellum (til að mynda er ekki pláss fyrir Q í þessari mynd), og þeir telja að Craig sé rétti maðurinn í starfið.
Áður hafa verið teknar áhættur með ráðningu í þessa stöðu, sem umdeilanlega er sú mest krefjandi í kvikmyndabransanum, og oftar en ekki hafa þær gengið upp (þó með örfáum undantekningum, að sjálfsögðu). Craig er hvorki jafn frægur og Ewan McGregor né jafn snoppufríður og Hugh Jackman, en hann er hæfileikaríkur leikari sem gæti hugsanlega hafið Bond í nýjar hæðir. Tíminn mun leiða í ljós hvort Daniel Craig hafi það sem til þarf að breyta ásýnd ofurnjósnarans, en þar til annað kemur í ljós ætla ég að leyfa honum að njóta vafans.
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009