Áfraaaaaaaam Íslaaaaaand heyrist í Norður stúkunni og Suður stúkan svarar áfraaaaaam Íslaaaaaand, þetta er hugsanlega leiðinlegasta og þunglyndislega stuðningsmanna hróp í heimi, en hvað fyrirgefur maður ekki þegar „strákarnir okkar“ vinna hvern leikinn á eftir öðrum við þessar kringumstæður og enda með að komast alla leið á #em2016. Fótboltastuðningsmenn eru alveg hrikalega öflugir miðað við áhangendur annarra íþrótta t.d. körfubolta og handbolta. Þeir syngja látlaust og það er brjálað stuð á leikjum nánast allan tímann, alveg hreint til fyrirmyndar. Þegar stuðningsmannaliðið söng Ferðalok á leiknum við Kazakstan í fyrra þá komu tárin. Ég vissi ekki að ég gæti grátið yfir fótboltaleik, en það gerðist og ég var ekki einu sinni á staðnum. Ég var heima fyrir framan sjónvarpið en ég var ekki búin að fá nóg, ég rauk niður á Ingólfstorg til að heyra …. „vaþaiggi“ … „jú“ … Vá það er ekki hægt að lýsa stemmingunni þegar rúturnar koma í lögreglufylgd og einhver skýtur flugeldum á loft, Páll Óskar, DJ Margeir, borgarstjórinn og við hin tryllumst úr gleði þegar hetjunar mæta á svæðið. Skrítið hvernig maður hrífst með og smitast af þessari gleðivímu sem samstaða og sigur geta kallað fram.
Svo er það hitt liðið okkar „strákarnir okkar“ á #em2015 í körfubolta í Berlín, þeir lentu í dauðariðlinum sagði einhver en djöfull voru þeir góðir. Þeir stóðu sko upp í hárinu á NBA mönnum sem slöguðu í 3 metra á hæð og „við“ vorum næstum því búin að vinna Tyrkina. Það voru rúmlega 1. þúsund manns sem fylgdu þeim til Berlínar til að styðja landsliðið okkar og það var ekkert smá hávær minnihluti, það heyrðist alltaf langmest í stuðningsmönnum Íslands í þessari risastóru höll og hvað sungu þeir Áfraaaaaam Íslaaaaand, einhverjar fótboltabullur hafa greinilega þvælst með og ruglað stuðningsmennina okkar. Ég er nefnilega körfuboltabulla og það kemur auðvitað fyrir að við syngjum, tökum til dæmis „Nínu“, eða „við erum svartir, við erum hvítir“. Það er nefnilega þannig í körfunni að menn hvetja bara í vörn og eru ekkert syngjandi allan tímann. Við köllum t.d. vörn, vörn, vörn eða de-fence, de-fence, en það er meira svala liðið sem notar de-fence. Svo er hið klassíska Ísland klapp klapp ekki Ísland klapp klapp klapp eins og í fótboltanum. Stundum segjum við feis og grípum fyrir andlitið á okkur eða öskrum villa dómari!!!
92% þjóðarinnar hálfóvinnufær
Ég hélt einhvernveginn að maður gæti ekki orðið spenntari yfir nokkrum íþróttaleik en þriðjudagurinn toppaði allt. 92% þjóðarinnar voru hálfóvinnufær framan af degi sökum spennu. 8% voru ekki í vinnu af því að þau voru í Frakklandi að styðja liðið okkar til dáða. Þvílík fegurð og þvílíkur kraftur í íslensku stuðningsmönnunum það mætti halda að þeir hefðu verið 50. þúsund. Við Íslendingar fögnuðum eins og við hefðum unnið en Portúgalar vældu eins og þeir hefðu tapað en leikurinn fór víst 1-1. Ég treysti á að stuðningsmennirnir taki ungverska lagið „Ferðalok“ fyrir á laugardag – það er aldrei að vita nema að Ungverjarnir taki undir.
Það er gaman að vera íþróttamaður en það er ekki síðra að vera stuðningsmaður, það getur fært manni mikla gleði og mikinn tilfinningarússíbana á stuttum tíma ef maður lifir sig inn í leikinn. Allar tilfinningar fá að leika lausum hala, stuðningsmaður getur orðið reiður og öskrað á sjónvarpið. Stundum verður gleðin svo mikil að maður faðmar næsta ókunnuga mann eða öskrar af gleði þegar liðið manns nær árangri. Það kemur fyrir að maður gólar þegar manni finnst eitthvað ósanngjarnt svo þegar leikurinn er búinn þá er stuðningsmaður búinn að fá útrás fyrir allan tilfinningaskalann. Það tekur líkamlega og andlega á að vera stuðningsmaður en það er svo þess virði. Íslensku stuðningsmennirnir hafa verið til fyrirmyndar og fylla mann stolti ekki síður en leikmennirnir. Ég legg til að maðurinn í stúkunni verði kjörinn maður ársins. Áfraaaaaaam Íslaaaaaand!
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020