Til tíðinda dró í byggingasögu Háskóla Íslands í gær þegar tilkynnt var hvaða tillaga varð hlutskörpust í samkeppni um hönnun og byggingu Háskólatorgs. Háskólatorg er í raun samnefni tveggja bygginga, Háskólatorgs 1 og 2 sem samtals verða um 8.500 fermetrar að stærð. Þar munu á þriðja hundrað starfsmenn skólans og 1.500 stúdentar fá aðstöðu á hverjum tíma. Áætlað er að byggingatíminn verði töluvert styttri en áður hefur þekkst hjá stofnuninni en miðað er við að framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2007.
Hugmyndina að byggingu torgsins á Páll Skúlason, fyrrvarandi rektor Háskóla Íslands en hann sá fyrir sér samfélag í kringum miðju eða torg. Þessa hugmynd sótti hann til Grikklands til forna. Það var í hans rektorstíð, árið 1997 að undirbúningur hófst.
Byggingarnar munu leysa úr brýnni húsnæðisþörf skólans fyrir skrifstofur og fyrirlestrasali en jafnframt auka þjónustu við nemendur til muna. Byggt verður sérstakt torg þar sem stúdentar, kennarar og gestir koma saman og þannig mun fólk úr ólíkum deildum hittast og blanda geði. Þarna mun hjarta skólans slá og vetvangur skapast fyrir ýmsar uppákomur. Á staðnum verða einnig saman komnar allar helstu þjónustur sem stúdentum standa til boða svo sem nemendaskrá, alþjóðaskrifstofa, Bóksala stúdenta, Félagsstofun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands. Allt saman komið í seilingarfjarlægð sem mun bæta verulega umhverfi stúdenta en í dag þarf að sækja þjónustu og upplýsinga víða um allt Háskólasvæðið. Þá verður að nefna að byggingarnar tvær verða tengdar með tengibyggingum og munu þær einnig tengjast Odda. Þannig mun skapast umhverfi stúdenta og starfsfólks sem hjálpar því að komast óhindrað á milli bygginga svæðisins. Það mun einnig koma sér vel í slyddu og rigningu á veturna.
Ný lesaðasta mun líta dagsins ljós og einnig sérstakur lestrarsalur fyrir meistaranema, en það mun gjörbylta aðstöðu þess hóps, sem sífellt fer stækkandi. Gert er ráð fyrir fimm nýjum kennslustofum sem munu vonandi gera það að verkum að bæta úr skorti á kennslurými. Þá gera eflaust margir sér vonir til þess að hægt verði að kenna á þeim tíma dags sem barngæslu nýtur í stað langt fram eftir kvöldi svo að fjölskyldufólk þurfi ekki að missa úr.
Í fyrsa sinn hér á landi var ákveðið að beita þeirri útboðsaðferð að festa fjárhæð verkefnisins. Við undirbúning þess var unnin sérstök kröfu- og þarfalýsing í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins. Greiðsla var ákveðin að upphæð 1,6 milljarða fyrir byggingarnar og verða þær byggðar í samræmi við lýsinguna. Þessi útboðsaðferð felur það í sér að við mat á tillögum tekur verkkaupi einungis afstöðu til gæða þeirra þar sem kostnaður er fyrirfram ákveðinn í stað þess að vega saman verðtilboð og gæði eins og tíðkast hefur. Með þessari aðferð dregur úr líkum á því að lakari tillaga verði fyrir valinu á grundvelli lægra verðs, jafnvel þótt óverulegur munur sá á milli kostnaðar við hana og bestu tillöguna.
Verktaki og hönnuður sóttu saman um að taka þátt í samkeppni um hönnun og byggingu Háskólatorgs og fór sérstakt forval fram úr þeim hópi þar sem fimm bjóðendur voru valdi til þátttöku. Fjórir af þeim skiluðu inn tillögum og það kom í hlut dómnefndar að meta þær og komst hún að einróma niðurstöðu um að ein skaraði framúr. Það voru Íslenskir aðalverktakar ásamt arkitektunum Ögmundi Skarphéðinssyni og Ingimundi Sveinssyni urðu hlutskarpastir.
Óhætt er að segja að það er mikilvægt fyrir Háskólann og honum til mikilla sóma að hafa stigið þetta mikilvæga skref í uppbygginu skólans og gefa samfélagi hans skapandi og áhuvaverðan vettvang. Með vandaðri útboðsaðferð mun verkefninu vonandi vegna vel og skila háskólaborgum byggingunum á réttum tíma. Það er mikið framfaraksref frá því áður hefur verið því að langur framkvæmdatími vegna skorts á peningum hefur í för með sér kostnað og oft á tíðum eru byggingar dýrari þegar uppi er staðaðið.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008