Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins bar margt til tíðinda og náðu fjölmörg góð mál framgangi. Eitt þessara góðu mála var síðasta setning í ályktun um viðskipta- og neytendamál, en þar stóð einfaldlega “Verslun með áfengi skal gefin frjáls”. Í gegnum tíðina hafa ungir Sjálfstæðismenn lengi barist fyrir því að þetta mál nái fram að ganga á Landsfundum, en það hefur aldrei tekist með jafn skýrum og afdráttarlausum hætti eins og nú.
Það er hreint með ólíkindum að einkaaðilum hafi ekki verið treyst fyrir sölu áfengra drykkja í smásölu sem víðast hvar telst til almennrar neysluvöru. Hér á landi hefur einkaaðilum til að mynda verið treyst fyrir sölu lyfja og frjálsræðið verið aukið mikið á því sviði undanfarin ár. Einkaleyfi til smásölu áfengis var aftur á móti veitt ÁTVR árið 1922 í þeim eina tilgangi að hefta aðgang venjulegs fólks að áfengi. Hér er náttúrulega um forsjáhyggju að svörtustu sort að ræða þar sem staðið er gegn eðlilegum verslunarháttum og haldið í höftin haftanna vegna.
Lengi vel hafa helstu rök fyrir rekstri ÁTVR verið þau sömu og þau voru áður. Ef einhver annar en ríkisstarfsmaður afgreiðir flöskunar þá halda menn að áfengisbölið magnist. En auðvitað er hægt að gera sömu kröfur til einkaaðila um starfsfólk eins og ríkisrekin einokunarstofnun gerir. En þessi rök hafa verið víkja fyrir öðrum og gjörólíkum rökum sem felast í því að nú í seinni tíð hefur ÁTVR tekið upp þá stefnu að fjölga afgreiðslum og bjóða sífellt upp á betri þjónustu, þ.e. að auka aðgengi almenings að áfengi. Sumir þeir sem fylgjandi eru ríkisrekinni einokunarverslun halda því nú fram að að þjónusta munu versna og verð hækka. Þeir hinir sömu ættu aðvitað að spyrja sig hvort það myndi auka þjónustu og lækka verð ef matvöruverslanir, raftækjaverslanir eða í raun hvaða sú verslun eða þjónusta sem nú er á hinum almenna markaði væri eingöngu á hendi ríkisins. Auðvitað gilda sömu lögmál um allar neysluvörur.
Í flestum löndum er selt nokkurn vegin sama áfengi eins og á Íslandi, hvorki betra né verra. Í þessum löndum riðar ekki allt samfélagið til falls vegna þess að hægt er að kaupa vínflösku í matvöruverslunum, né liggja menn örendir sökum áfengis drykkju í öllum húsum. Hvort sem ÁTVR-sinnar nota þau rök að hefta þurfi aðgang að áfengi, eða þau öfugu; að aðgangur og þjónusta muni skerðast, þá eru þessu rök jafn vitlaus. Áfengi er vinsæl neysluvara sem mun finna sér farveg eins og allar aðrar almennar neysluvörur.
Nú er lag til þess að kasta burtu þessum höftum, þessum illskiljanlega arfi liðinar tíðar. Komið hefur í ljós að í öllum venjulegum stjórnmálaflokkum er að finna talsverðan vilja til þess að ganga þetta skref til fulls. Aldrei áður hefur Landsfundur veitt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins jafn skýrt og skilmerkilegt umboð í þessum efnum. Verslun með áfengi skal gefin frjáls.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007