Máfaplágan

Máfar hafa tekið yfir lofthelgina og rífa frekjulega í sig æskuminninguna um brauðgjöf til anda á tjörninni. Pirringur í garð þessarar fuglategundar virðist almennur. Hvað skal til bragðs taka? Skjóta hann, fylla hann eða byrla honum eitur?

Á liðnum árum, kannski sér í lagi á liðnu vori og sumri hafa borgarbúar orðið tilfinnanlega varir við sviptingar í fuglafánunni. Máfar hafa tekið yfir lofthelgina. Það virðist óneitanlega fara fyrir brjóstið á mörgum að sjá máfana rífa frekjulega í sig æskuminninguna um brauðgjöf til anda á tjörninni. Pirringur í garð þessarar fuglategundar virðist almennur.

En það er svo sem ekkert skrítið við það. Máfarnir eru búnir að leggja undir sig Tjörnina. Þeir hrifsa til sín fæðu sem ætluð er þeim anda- og gæsategundum sem þar lifa og hafa hrist rækilega upp í þessu litla vistkerfi. Þeir eru þó einnig iðnir við að hreinsa upp rusl og leifar sem mannfólkið lætur eftir sig liggja og virðast ekki veigra sér við því að fæðuleitin hafi í för með sér mikið návígi við okkur hin ófleygu. Það sem er þó miklu mun alvarlegra er návígi uppeldisstöðva þeirra á Miðnesheiði við flugvöllinn í Keflavík en gífurleg slysahætta getur skapast ef þeir sogast í hreyfla flugvéla sem þar eiga leið um.

Þessi alræmda máfategund ber nafnið Larus fuscus, eða sílamáfur. Við þekkjum hann grásvartan á baki og vængjum með skærgula fætur. Við þekkjum hann ekki síður á sínum einkennandi hljóðum, en á vef íslenska skotveiðimannsins er þeim lýst þannig: ,, Mjög fjölbreytt gagg og garg. Með frekar háa rödd og endurtekur gjarnan fjórum sinnum ,,gvaagg’’.

Sílamáfurinn er 100% farfugl, sem þýðir að allir sílamáfar fara af landi brott yfir vetrarmánuðina. Fjarvera þeirra er því nokkuð sem glöggir vegfarendur í miðborginni ættu að vera orðnir varir við. Þeir koma hingað á vorin til að verpa og fljúga síðan allir sem einn í burtu til vetursetu. Þeir máfar sem skriðu úr eggjum hér í sumar snúa síðan ekki aftur til landsins fyrr en þeir eru orðnir fjögurra vetra gamlir.

Sílamáfurinn er nokkuð nýlegur landnemi. Hann byrjaði fyrst að verpa við Faxaflóann á sjötta áratugnum og árið 1975 voru milli 1000 – 2000 varppör á Miðnesheiðinni. Árið 2004 voru pörin þar aftur á móti orðin 37 þúsund! Það má því segja að máfinum hafi fjölgað nær lógaryþmískt síðan hann nam hér land. Þessa staðreynd hefur vantað í umræðuna og skýrir hún hvers vegna máfurinn hefur nokkuð skyndilega á liðnum árum orðið svona atkvæðamikill og áberandi. Stofninn hefur einfaldlega verið að ná sér á strik hér. Teikn þykja hinsvegar á lofti um að hann sé orðinn nokkuð stöðugur og verði líklega ekki mikið stærri. Skýringin á fjölguninni er að minnsta kosti alls ekki sú að ekki megi skjóta hann eins og mávaskyttur hafa haldið fram.

Ef miðað er við umræðuna í fjölmiðlum í sumar er ljóst að almenningur hefur illan bifur af þessum nýju vinum okkar og vill aðgerðir til að stemma stigu við máfaplágunni miklu. En hvað er til ráða?

Í raun og veru er bara tvennt sem kemur til greina. Annars vegar fækkunaraðgerðir og hinsvegar fælingaraðgerðir. Fækkunaraðgerðir miða hreinlega að því að fækka í stofninum og fælingaraðgerðir að því að fæla fuglinn burt af ákveðnum svæðum. Líffræðingar eru á einu máli um að fækkunaraðgerðir séu á engan hátt raunhæfur kostur og því séu fælingaraðgerðir þær einu sem hægt er að beita til fá frið fyrir máfinum. Það væri því hægt að grípa til einhverra aðgerða t.d. á Miðnesheiðinni til að fæla fuginn í burtu, en hann myndi þá bara fara eitthvert annað. T.d. til Garðabæjar. Væru Garðbæingar ánægðir með það?

Máfaplágan á Miðnesheiðinni og máfaplágan í miðborginni eru þó tvær ólíkar plágur. Á Miðnesheiðinni eru varpstöðvar en miðbæjarmáfurinn er hinsvegar að mestum hluta svokallaður geldmáfur. Geldmáfurinn er máfur sem verpir ekki það árið og er því bara á sveimi um bæinn að leita sér að einhverju ætilegu. Nokkurs konar piparmáfur. Það væri t.d. til lítils að beita fækkunaraðgerðum (t.d. skjóta þá) þar sem þeir eru ekki líklegir til afreka á mökunarsviðinu hvort sem er.

Ef ætlunin væri t.d. næsta sumar að flæma geldmáfana úr miðbænum yrði einfaldlega að fjarlægja þann þátt sem þeir sækja í. Fæðuna. Það ætti ekki að vera svo flókið mál að ganga um miðbæinn okkar eins og siðmenntað fólk og henda matarafgöngum og öðru í þar til gerð ílát. En erum við til í að svelta endurnar til að losna við máfinn?

Hversu erfitt sem það kann að vera að sættast við máfinn liggur samt ljóst fyrir að við þurfum að bjóða hann velkominn og sættast við hann sem eðlilegan hluta af fuglafánunni.

Pistlahöfundur er langt frá því að vera máfaaðdáandi en er þó heldur minni geitungaaðdáandi. Styttra er þó síðan geitungar gerðu sig í einhverjum mæli heimakomna hér og er lítið annað hægt að gera við landnámi þeirra en að sætta sig við þá og lifa með þeim. Á sama hátt og maður gerir sér grein fyrir að ekkert eitt inngrip kemur til með að færa manni geitungalausa tilveru ætti maður að gera sér grein fyrir tilveru máfsins. Þetta snýst allt um aðlögun. Hvað geitunga varðar – ekki baða sig í hunangi. Hvað máfinn varðar – ekki skjóta hann, fylla hann eða byrla honum eitur. Hendum matarleifum í ruslið og förum að hugsa um eitthvað annað.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.