Davíð Oddsson kvaddi sjálfstæðismenn sem og aðra landsmenn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Dynjandi lófatak fylgdi fráfarandi formanni löngu eftir að hann steig úr pontu.
Mikið hefur verið skrafað og skrifað um ræðu Davíðs um helgina enda hér um að ræða stjórnmálamann sem setja mun mark sitt á sögubækur landans um ókomna tíð. Það dyljast engum þær framfarir sem orðið hafa í íslensku þjóðfélagi undanfarin áratug. Undir styrkri stjórn Davíðs átti Sjálfstæðisflokkurinn þátt í þeim framförum.
Það pirraði því óneitanlega marga að Davíð skyldi eyða púðri og tíma í umfjöllun um dægurþras sem enginn mun minnast í tramtíðinni. Það verður varla mikið ritað um baugsmálið og fjölmiðlamálið í sögubækurnar og jafnvel ekki Samfylkinguna heldur eða eins og Davíð orðaði það sannlega „Eftir fáein ár verður þessi ljótasti blettur í sögu íslenskrar fjölmiðlunar kominn í sitt skot í sögunni“.
Samfylkingin var hins vegar ofarlega í huga Davíðs – aðeins of ofarlega. Davíð skaut fast á Samfylkinguna í Evrópumálum, skattamálum, baugsmálum og öðrum vandamálum. Það var helst á honum að skilja að hann væri ósáttur við að skilja við málin í þessari stöðu. Þó það ætti að vera honum fagnaðarefni að annað stærsta stjórnmálaafl landsins virðist að hans mati hafa fátt annað fram að færa en að vera á móti Sjálfstæðisflokknum.
Davíð hafði í höndum sér hið fullkomna tækifæri til að græta jafnvel örgustu vinstrimenn en pirraði sennilega bara hægrimenn. Pirringurinn smitaði einhvern veginn út frá sér alla leið inn í þennan pistil.
Það er þó ekki hægt að skilja við án þess að segja að eftirsjá verði af Davíð en með nýjum mönnum koma nýir tímar. Vonandi eru þeir ekki eins pirraðir í byrjun og Davíð var í lokin.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020