Slippstöðin á Akureyri hefur verið endurreist með aðkomu nýrra fjárfesta og margir starfsmenn hafa þegar verið endurráðnir. Þessi viðreisn er vonandi bæði jákvæð fyrir starfsfólkið og skynsamleg fyrir hugrakka nýja fjárfesta. En það er deginum ljósara að vandi skipasmíðaiðnaðarins mun einungis aukast með árunum – sömuleiðis vandi íslensks iðnaðar sem byggir á mannaflsfrekum láglaunastörfum.
Líkt og oft áður var hlaupið upp til handa og fóta þegar enn eitt iðnfyrirtækið, sem reiðir á mannaflsfrekan iðnað, fer á hausinn. Iðnaðarráðherra lét ekki á sér standa og taldi “gríðarlega” mikilvægt að slippstöðin yrði endurreist á Akureyri. Ráðherra sagðist ennfremur vona að hægt yrði að ná samstöðu í ríkisstjórn um að hækka aðflutningsgjöld (tolla) úr 4% í 6% sem hjálpa myndi félaginu – með öðrum orðum að vernda iðnaðinn fyrir samkeppni erlendis frá. Framúrstefnuleg snilld.
Ráðherra lét þess reyndar ekki getið af hverju hann taldi svo mikilvægt að endurreisa starfsemi Slippstöðvararinnar, að öðru leyti en því að á Akureyri væri öflugur sjávarútvegur sem þyrfti að þjónusta (á hærra verði en erlendir samkeppnisaðilar bjóða). Það má hins vegar geta sér til um það að ráðherra sé að hugsa um atvinnuástand bæjarins og að sjálfsögðu atkvæðin í bænum. En atvinnuástand á Íslandi hefur sjaldan verið betra og atvinnuleysi er undir þremur prósentustigum. Þessi staðreynd kristallast einnig í viðbrögðum eins af forsprökkum hinna nýju fjárfesta sem tilkynnti að hefði verið mikið kappsmál að endurráða strax starfsfólkið því það væri svo mikil eftirspurn eftir starfsfólki í málmiðnaði! Af hverju var þá svona “gríðarlega” mikilvægt að bjarga Slippstöðinni á Akureyri? Varla til þess að hækka aðflutningsgjöld?
Viðskiptaráðherra, sem og margir íslenskir stjórnmálamenn, virðast ganga út frá því sem vísu að það sé slæmt að störf tapist í iðnaði sem þessum og gera verði allt til þess að hindra það. Skipasmíðaiðnaður á Íslandi er að öllum líkindum dauðadæmd atvinnugrein og alls óvíst hvort starfsmönnum stöðvarinnar hafi yfirleitt verið greiði gerður með því að endurráða þá. Ef hin nýja Slippstöð nær ekki árangri í að þróa sinn rekstur út fyrir skipasmiðaiðnaðinn er allar líkur á því að hún fari rakleiðis aftur á hausinn, og á þeim tímapunkti gætu atvinnutækifæri starfsmanna hugsanlega verið færri en í dag og/eða þeir í verri stöðu til að skipta um störf á þeim tímapunkti.
Um aldamótin 1900 höfðu níu af hverjum tíu Íslendingum lífsviðurværi sitt af landbúnaði og fiskvinnslu. Í dag er þessu hlutfalli öfugt farið sem betur fer því annars væri Ísland ekki á meðal ríkustu þjóða í heimi. Á Íslandi hefur átt sér stað eðlileg og skynsamleg þróun, sem oftar en ekki hefur verið stefnt í hættu með skammsýni misvitra stjórnálamanna er hafa reynt að halda aftur af þróuninni, og reyna enn.
Það er kominn tími til þess að við áttum okkur á því það er ekki veikleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf að störf tapist í landbúnaði, fiskvinnslu og mannaflsfrekum iðnaði, heldur er það þvert á móti styrkleikamerki. Atvinnuleysi á Íslandi er með því lægsta sem gerist og í raun það lágt að það veldur óæskilegu launaskriði í mörgum atvinnugreinum. Við nákvæmlega þessar aðstæður eiga stjórnmálamenn að hvetja til þess að störf færist úr mannaflsfrekum iðnaði yfir þjónustu og hálaunaiðnað, til dæmis hátækni og lyfjaframleiðslu. Framtíð okkar byggist hvorki á landbúnaði né skipasmíðum.
Ef Slippstöðin á Akureyri heldur sig við skipasmíðar mun ekki líða á löngu þar til kínverskar eða pólskar skipasmíðastöðvar keyra hana í kaf. Ef það gerist verðum við að tryggja að störfin flytjist yfir í aðrar arðbærari atvinnugreinar. Ef stjórnmálamenn ætla sér hins vegar að vernda greinar eins og skipasmíðaiðnað með aðflutningsgjöldum munu þeir fyrst keyra íslenska útgerðarmenn í kaf og síðan skipasmíðaiðnaðinn.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009