Enn að skipulagsmálum. Um daginn kom út úttekt frá verkfræðistofunni Hönnun á Reykjavík. Þar kom í ljós að Reykjavík væri nær bandarískum borgum en evrópskum í hlutfalli á ferðum með einkabílum á móti ferðum með almenningsvögnum. Í Evrópu er hlutfallið oft um fimmtíu prósent og á Norðurlöndum (sem við snobbum nú yfirleitt fyrir að líkjast) talsvert lægra en það. Í Bandaríkjunum er hins vegar hlutfallið að í kringum áttatíu prósent bílferða er með einkabíl, stundum hærra og verst í Houston.
Reykjavík er frekar nálægt Houston í þessum samanburði. Er Houston borg sem við viljum líkjast? Á stöku stað í Houston eru götur sem eru með 15 akbrautum. Það er ekki fáheyrt. Houston er líka feitasta borg Bandaríkjanna. Ja, kannski vegna þess að Houstonbúar hreyfa sig gjörla spönn frá rassi án þess að vera viss um að þeir geti fírað upp áttastrokkavélina í leiðinni.
Spennandi, ekki satt? Getum við ekki reynt að snúa þessari þróun við að einhverju leyti? Ef við látum nú allt þras um nýja leiðakerfi Strætó BS liggja milli hluta. Við getum gleymt því að Strætó verði e-n tímann faramáti miðaldra millistéttar. Þá finnst mér að það mætti gefa hjólreiðum og gönguferðum betri gaum.
Sjálfur er ég eilítið viðrini í þessari menningu þar sem ég, 24 ára karlmaðurinn, hef aldrei átt bíl. Ég hjólaði í vinnuna í nær allt sumar. Rúnturinn var tæplega 20 mínútur hvora leið ef ég vildi ekki mæta kófsveittur og daunillur í vinnuna. Sumarið var nokkuð gott og vætulítið þannig þetta gekk langoftast upp án þess að ég þyrfti að galla mig sérstaklega upp – bara hafa föt til skiptanna sem fjármálafyrirtækið gerir kröfur um. En svo kemur veturinn með sinni slyddu, norðanátt og skafrenningi sem gerir hjólamönnum erfitt um vik og ég hef takmarkaða trú á sjálfum mér í e-a brjálaða hörku. Vandamálið er að hvar sem maður ferðast bíllaus í Reykjavík þá er maður algjörlega varnarlaus gagnvart veðri og vindum án þess að vera þeim mun betur útbúinn. Hvergi er skjól að finna.
Hvernig væri að setja upp trjáskjólvegg á þeim leiðum sem eru líklegastar fyrir ungt fólk að fara? Sem dæmi má taka leiðina frá stúdentagörðum frá Eggertsgötu til Háskólans. Í dag eru örugglega margir sem nenna ekki að ganga/hjóla þessa leið vegna veðurofsa. Ef Borgin er í virkilega grand skapi þá væri kúl að splæsa í upphitaðar gangstéttir. Þessum leiðum væri hægt að koma við á flestum stöðum þar sem eru greinilegar leiðir frá byggðum ungs fólks yfir í skólana. Bæði myndi þetta minnka bensínkostnað og stuðla að aukinni hreyfingu.
Þar til einhver af mörgum prófkjörsframbjóðendanna tekur málið og gerir að sínu – og kemur því í gegn – þá er ég hræddur um að þurfa að bíða eftir maísólinni til að geta grafið út hjólið aftur.
- Maísól hins hjólandi manns - 11. október 2005
- Ha, flugvöllur? - 7. október 2005
- Bjórvömb? - 30. október 2004