Fréttir af fellibyljum ættuðum úr Mexíkóflóa hafa birst nokkuð reglulega í fjölmiðlum upp á síðkastið og toppuðu eflaust í hugum flestra þegar Katrín reið yfir Bandaríkin nú í haust. Í kjölfarið á miklum skemmdum og mannfalli sem varð af völdum þessara náttúruhamfara, hafa margir velt því fyrir sér hvort breytingar í loftslagi á jörðinni vegna gróðurhúsaáhrifa hafi valdið þessum fellibyljum. Eða í stuttu máli; hvort jarðarbúar séu nú farnir að súpa seyðið af áralangri losun gróðurhúsalofttegunda.
Umræðan um breytingar í loftslagi hefur verið hitamál um nokkurt skeið og skiptast menn almennt í tvo hópa. Annars vegar þá sem telja að breytingarnar séu af mannavöldum og hins vegar þá sem telja að eðlilegar skýringar séu á hitnun loftslags á jörðinni og um náttúrulegar sveiflur sé að ræða. Segja má að deila þessara hópa hafi náð hámarki þegar Bandaríkjamenn kusu að virða Kyoto-bókunina að vettugi, þrátt fyrir að hafa skrifað undir hana árið 1997.
Þó að kannski sé ekki fullkomin vissa fyrir því að á jörðinni gæti breytinga sem við mannfólkið berum ábyrgð á, verða þær raddir sem eru á þeirri skoðun að svo sé, sífellt háværari. Þannig er orðið algengara að vísindamenn gefi sér ákveðnar staðhæfingar, sem studdar eru rannsóknum, áður en fjallað er um þessi mál:
Sú fyrsta er að loftslag á jörðinni er að hitna.(0.6 ± 0.2° C á síðustu öld; 0.1° C/áratug síðustu 30 árin). Síðan gefa menn sér að mannfólkið eigi sinn þátt í þessum breytingum og ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram mun hitnunin halda áfram og hraði breytinga á henni aukast.
Um það hvort að við ættum að gera eitthvað í þessu vandamáli er hins vegar ekki eins mikil sátt. Þar koma inn hagfræðileg sjónarmið og telja margir að sú lífsgæðafórn sem við þyrftum að færa til að snúa ferlinu við, væri í raun ekki þess virði.
En aftur að Katrínu og hvort íbúar New Orleans hafi fengið að gjalda fyrir sífellt aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Í stuttu máli sagt er ekki nokkur leið til að skera úr um hvort breytingar á loftslagi á jörðinni hafi valdið Katrínu. Náttúran er það nálæg því að vera slembið kerfi að erfitt er að segja til um hvort slíkar breytingar hafi valdið einstökum atburði. Til þess þyrfti fleiri mælipunkta yfir lengra tímabil. Hins vegar væri nær að spyrja hvort breytingar loftlagshitastigi geti aukið líkurnar á fellibyljum.
Vert er að taka fram að engin gögn sýna fram á að tíðni fellibylja hafi aukist með tíma. Hins var sýnt fram á í nýlegri grein í bandaríska tímaritinu Nature að sterkt samband er á milli aukins styrkleika fellibylja síðustu ára og hækkunar yfirborðshitastigs sjávar. Segja má að yfirborðshitinn sé orkuuppspretta fellibylja og hafi þónokkur áhrif á hversu mikinn eyðileggingarmátt þeir hafa. Sú tenging skýrir meðal annars af hverju fellibylir myndast nærri alltaf á ákveðnum árstíðum á heitari svæðum jarðarinnar. Niðurstöður þessarar greinar gefa jafnframt til kynna að breytingarnar í styrkleika fellibyljanna séu ekki eðlilegar sveiflur í náttúrunni og kemst höfundur hennar að þeirri niðurstöðu að líklega séu gróðurhúsaáhrifunum um að kenna.
Þó að nokkrar framfarir hafi orðið í skilningi okkar á veðurkerfum jarðarinnar verða vísindamenn að lifa með mikilli slembi. Einn atburður, svo sem fellibylur á stærð við Katrínu, getur ekki sagt okkur mikið um framtíð veðurfars á jörðinni. Hins vegar er vert að líta ekki fram hjá því að kviknað hefur á aðvörunarljósum og rannsóknir gefa til kynna að við gætum fundið tilfinnanlega fyrir gróðurhúsaáhrifinum á næstu áratugum með viðeigandi manntjóni og eyðileggingu. Hvort að hægt sé að bregðast við með viðeigandi hætti og hvort hreinlega það sé þess virði, er ekki auðsvarað. Hins vegar má ætla að eftir því sem við finnum meira fyrir áhrifum hækkandi hitastigs á jörðinni, því öflugri verði viðleitnin til að leita svara við þessum áleitnu spurningum.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021