Rétt fyrir jólin árið 2003 birtust fréttir þess efnis að KB banki hefði náð samningum um kaup á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þessi fyirhuguðu viðskipti ollu vægast sagt miklu fjaðrafoki í þjóðfélaginu. Stjórn Sparisjóðasambandsins barðist hatrammlega fyrir því að lög yrðu sett sem myndu koma í veg fyrir að gjörningurinn gæti átt sér stað. Þeim tókst ætlunarverkið og í byrjun febrúar 2004 voru samþykkt lög á Alþingi fyrir tilstuðlan Valgerðar Sverrisdóttur sem beint var gegn áðurnefndum samningi. Varð þar af leiðandi aldrei úr fyrirhuguðum kaupum KB banka á SPRON.
Hugmynd KB banka var að breyta SPRON í hlutafélag og sameina svo félögin. Stofnfjárhafar í sparisjóðum eiga samkvæmt lögum ekki tilkall til annars hluta eigin fjár sparisjóða en stofnfjárins sjálfs. Sé eigið fé sparisjóðs meira en stofnfé þá skal stofna sjóð, sem styrkja á menningu og góðgerðarmál á starfssvæði sparisjóðsins, við breytingu hans í hlutafélag. Í tilfelli Kb banka og SPRON fyrir tveimur árum síðan átti þessi sjóður að fá um sex milljarða stofnframlag.
Af óskiljanlegum ástæðum ákváðu þingmenn að skipta sér af þessu máli á sínum tíma. Lög voru sett gagngert í þeim tilgangi að stöðva þennan gjörning og þannig var gróflega brotið á rétti manna til að gera samninga um viðskipti sín á milli sem lúta lögum. Það fordæmi sem Alþingi setti er forkastanlegt og vonandi að það endurtaki sig ekki. Eins nauðsynlegt og það er að fara eftir þeim lögum og reglum sem eru í gildi á hverjum tíma er líka nauðsynlegt að þurfa ekki að óttast það að lögum verði breytt eftir á til að koma í veg fyrir ákveðnar gjörðir. Slíkt grefur undan trausti fólks á þingræðinu og hefur lamandi áhrif á þjóðfélagið.
Helstu rök þingmanna fyrir lagasetningu á sínum tíma voru þau að það hefði aldrei verið vilji löggjafans að fólk gæti hagnast mikið á sölu stofnfjárbréfa í sparisjóðum. Þar sem KB banki var reiðubúinn að greiða næstum sexfalt nafnverð fyrir stofnfé SPRON þá var ljóst að stofnfjáreigendur hefðu hagnast. Tilgangurinn helgar meðalið. Lög skyldu sett sem kæmu í veg fyrir ógeðfelldan hagnað alþýðu fólks. Þar með tókst þingmönnum að koma í vef fyrir að um eitt þúsund manns skiptu á milli sín þremur milljörðum króna og auk þess að stofnaður yrði góðgerðarsjóður sem fengi um sex milljarða stofnframlag.
En sama hver vilji löggjafans er þá heftir hann ekki þróun markaðarins. Sem betur fer er eignarétturinn vel skilgreindur í stjórnarskránni. Af þeim sökum geta þingmenn ekki bannað fólki að selja þá hluti sem það á og sömuleiðis er ekki hægt að banna öðrum að kaupa hluti á því verði sem það telur sanngjarnt. Úr varð því að stofnaður var markaður með stofnfé SPRON. Mikill áhugi var til staðar og ríflega helmingur stofnfjár skipti um hendur á fyrstu mánuðum. Stofnfjárhafar fengu auk þess flestir betra verð fyrir stofnféð sitt en KB banki var reiðubúinn að greiða. En enginn varð góðgerðarsjóðurinn.
Með þessari arfaslöku og gerræðislegu lagasetningu tókst því þingmönnum að koma í veg fyrir að stofnaður yrði sex þúsund milljóna góðgerða- og menningarsjóður. Óhætt er að fullyrða að sjóður af slíkri stærðargráðu hefði gjörbreytt því landslagi sem listamenn búa við og stóreflt menningarstarf á höfuðborgarsvæðinu. En vegna þess að þingmönnum fannst það ekki hægt að stofnfjárhafar myndu græða nokkrar krónur á gjörningnum eða kannski vegna þess að landsbyggðin hefði ekki fengið neitt fyrir sinn snúð var réttlætanlegt að banna löglega gerðan samning milli tveggja skattgreiðenda.
Þeir eru eflaust fleiri en einn og fleiri en tveir sem hefðu notið góðs af þeim sex þúsund milljónum sem þingmenn höfðu af íbúum Reykjavíkur og nágrennis. Fyrir þeirra hönd og allra hinna er vonandi að þingmenn geti lært af þessu dæmi og reyni ekki í framtíðinni að hefta þróun frjáls markaðar. Lagasetning af því tagi sem tíunduð hefur verið hér að ofan er skýrt brot á frelsi manna til athafna. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða að einbeita sér að því að auka frelsið og einfalda leikreglurnar til að þjóðfélagið geti þróast með sem minnstu viðnámi. Það er klárlega ekki hlutverk þeirra að auka viðnámið, jafnvel þó svo að einstakir aðilar eða gjörningar séu þeim ekki þóknanlegir.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008