Þögnin er að gera út af við mann. Öll umræða um eitt mest spennandi, óskipulagða svæðið í Reykjavík er annað hvort þöguð í hel eða týnist í þvaðri sem er gert til að leyna því hver raunveruleg skoðun viðmælanda er. Hvergi í undirbúningi flokkana fyrir prófkjör og borgarstjórnarkosningar er minnst á hvernig sé best að haga 102 svæðinu í framtíðinni. Sjálfstæðismenn ganga svo langt að í bæklingi þeirra er ókennileg slikja yfir flugvellinum þannig að erfitt er að sjá hvað þeir ætla sér fyrir – hvað þá að það sé minnst á heildstæða stefnu fyrir flugvöllinn í orðum. Orðrétt af www.betriborg.is:
„Við ætlum að beita okkur fyrir varanlegri niðurstöðu um flugvallarmálið með viðræðum við ríkisvaldið og aðra hagsmunaaðila um skipulag í Vatnsmýrinni og fá þar aukið landrými undir blandaða byggð, án þess að vegið verði að flugöryggi eða gengið gegn hagsmunum Reykjavíkur og landsbyggðarinnar í samgöngumálum.“
Þarna er þetta orðað án þess að styggja neinn; hvorki landsbyggðarmenn sem vilja komast í bíó korteri fyrr né braskara sem vilja fá land undir blokkir. Kjósendur eru langþreyttir á skoðanaleysinu og vilja fá botn í umræðuna. Eins og er þá hafa ekki margir frambjóðendur til borgarstjórnar úr neinum flokki lýst yfir sínum skoðunum um þetta mál án þess að fara undan í flæmingi og leyna skoðunum sínum.
Auðvitað er erfitt og beinlínis óábyrgt að hrópa: „Flugvöllinn burt“ eða „ekki sjens“ eða önnur gífuryrði án þess að skoða málið til hlítar og bjóða upp á raunhæfa lausn í staðinn. Flugvallarmálið er byrjað að hljóma eins og umræðan um inngöngu í ESB þar sem allir í heita pottinum höfðu persónulega skoðun á málinu en viðurkenndu að þau væru ekki nógu vel inn í málinu til að segja neitt út frá neinni vissu, bara brjóstviti. En áður er en hægt er að taka upplýsta ákvörðun þá er holskefla af spurningum sem þarf að svara:
– Hvað kostar lest til Keflavíkurflugvallar ef innanlandsflug verður flutt þangað?
– Hvaða verð fæst fyrir lóðirnar í Vatnsmýrinni, sérstaklega miðað við núverandi uppsprengt verð á íbúðum og lóðum?
– Hversu margir gætu átt heima þarna?
– Hver væru drög af skipulagningu og kemur Dr. Maggi nálægt henni?
– Hversu mikið skerðist sjúkraflug? Eru þyrlur nóg? Er nóg að bæta neyðarþjónustuna í sjúkrahúsinu í Suðurnesjabæ?
– Hvaða aðrir staðir (ef einhverjir) nálægt borginni koma til greina? Er það skammgóður vermir eða raunhæfur möguleiki að flytja flugvöllinn á nýjan stað en ekki að flytja flugið í Keflavíkurflugvöll?
– Hver er slysahættan af því að hafa flugvöllinn í miðri borg og HR í bakgarðinum?
Ekki fyrr en eru komin góð svör og úttektir unnar af fagmönnum þá er lítið hægt að gera annað en að giska út frá persónulegum skoðunum. Gerum sjálfum okkur greiða og hugarfrið með því að pressa á slíka úttekt svo að unnt verði að taka ákvörðun sem er hægt að verja með staðreyndum. Fyrr en seinna er betra svo Reykvíkingar lendi ekki annarri „Hryggbrotinni Hringbraut“ eða öðrum misgáfulegum ákvörðunum sem hafa áhrif á okkur öll.
Vilhjálmur, Gísli Marteinn, Stefán og Alfreð; vinsamlegast komið þessu á hreint fyrir næstu kosningar.
- Maísól hins hjólandi manns - 11. október 2005
- Ha, flugvöllur? - 7. október 2005
- Bjórvömb? - 30. október 2004