Almennt held ég að það yrði skemmtilegt að setjast á Alþingi. Miðað við þann fjölda sem reynir slíkt gegnum prófkjör og Alþingiskosningar eru fleiri á svipaðri skoðun. Enda minnast margir framhaldsskólans sem skemmtilegs tíma og Alþingi virðist á margan hátt svipa til framhaldsskóla.
Þegar við vorum í grunn- og framhaldsskóla var alls staðar í kringu var fólk að brýna fyrir okkur að læra alltaf jafnt og þétt yfir önnina: lesa heima fyrir tímann, skrifa niður spurningar, fletta upp orðum sem við skildum ekki og reikna öll dæmin samviskusamlega. Þau stjörnumerktu líka.
En auðvitað hlustaði engin, nema kannski einstaka tússlitastelpur. Jú, menn sprettu kannski af stað fyrstu vikuna, en misstu fljótt dampinn og lágu í leti til loka nóvember. Þýskustílar og efnafræðidæmin voru bara göldruð fram í frímínútunum fyrir viðkomandi tíma. Ekki var hafist handa við nein stærri skiladæmi, ritgerðir eða skýrslur nema í fyrsta lagi daginn áður, helst seint að kvöldi. Og svo var bara vakað ef þess þurfti.
Þegar fór að koma að prófum voru það oft ekki aðeins nemendur sem voru með allt niðr’ um sig. Sumir kennarar voru þá kannski töluvert á eftir áætlun og redduðu sér með því að skella upp mörgum tugum glæra í hverjum tíma. Nemendurnir sátu með handkrampa og skrifuðu. Aðrir einfaldlega hentu í fólk fjölrituðum glósum og tilkynntu að „þetta væri til prófs.“ Þessu oft mótmælt því „það væri svo illa búið að fara í þetta“ (eins og okkur hafi ekki verið sama) og kennarinn bakkaði stundum með því að gefa til kynna að þáttur viðkomandi efnis á lokaprófinu yrði rýr.
Það var kannski fyrst þegar lesið var undir próf sem vitur ráð kennara, foreldra og námsráðgjafa rifjuðust upp. „Ef ég bara hefði verið duglegur alla önnina! Ef ég bara hefði lært fyrir hvern tíma og nennt að lesa yfir glósurnar mínar um þegar heim var komið! Ef ég hefði sannarlega lesið ensku smásögurnar, en ekki bara spurt einhvern sem var búinn að því! Ó, hve auðveldari yrði þá þessi prófalestur.“ Svo var því lofað að næsta önn yrði tækluð af krafti. Það loforð entist heldur ekki lengur en fyrstu vikuna.
Nú þegar þingið er komið í gang er gaman að fylgjast með hve mikill skólabragur er á þessu hjá þingmönnunum okkar og ráðherrum. Framan af þingi dunda menn sér klukkutímum saman í umræðum um útflutning hrossa, eflingu iðnnáms, heimaframleiðslu vína og kaup á skólaskipi. Þingmennirnir keppast við að spyrja ráðherrana um áhugamál sín og annarra, í von um nokkrar mínútur í fréttatíma. Þingstörfum lýkur vel fyrir kvöldmat. Suma daga er frí eftir hádegi.
En síðan fer að koma desember og ekkert búið að gera: fjárlög ósamþykkt, banki óseldur, framhaldsskóli óstyttur, eignaskattur óaflagður og búvörusamningur óendurnýjaður. Allt í rugli. Hvert stórmálið á eftir birtist út úr ráðuneytinum og skýst í gegnum nefnd í kvöldmatarhléi. Rætt í annari og þriðju umræðu með korters millibili. Stjórnarandstæðan stundum með múður og fær frestun á einhverjum málum gegn því að vera sæmilega samvinnuþýð í hinum.
Þegar leið á skólaferil kom það oftar og oftar upp að ekki var lengur nóg að byrja læra undir próf eða hefja vinnu við ritgerð kvöldið áður. Sum verkefni voru einfaldlega of víðamikil til þess. Þannig uxu menn smám saman út úr þessum framhaldsskólavinnuaðferðum. Það er tímabært að þingheimur geri það líka.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021