Stærð sex.
|
Nýlega bárust fréttir þess efnis frá Bretlandseyjum að þarlendar tískuvöruverslanir væru í óða önn við að umbreyta mælikerfi kvenfatnaðar í því augnamiði að koma til móts við kröfur sífitnandi viðskiptavina sinna. Talsmaður einnar verslunarinnar benti á að hvort sem okkur líki betur — en sennilega verr! — þá hafi meðalkvenmanslendar tútnað verulega út á seinustu árum. Þessi óheillaþróun hefur sennilega farið fram hjá fæstum sem láta sig málið varða. Piparsveinaarmur Deiglunnar er þar engin undantekning og má fastlega búast við ályktun félagsins þar að lútandi á næstu dögum. Að grunni til er hugmynd tískuveldanna einföld: til að auka jákvæð hughrif verslanaferða kvenna þá er öllum kvenfatanúmerum hliðrað niður um eina stærð.
Hvað þýðir það?
Jú, ef kona gengur vanalega í fötum númer 8 þá mun hún framvegis ganga í kjólum númer sex.
Niðurstaðan er vitanlega sú að viðskiptavinurinn telur sig hafa grennst um heilan helling og að mæjónespizzurnar sem hann hafi gúffað í sig undanfarin tvö ár hafi hreinlega engin áhrif á vaxtalagið.
Dr. Atkins, hvað?
Það verður nú að viðurkennast að sennilega mun þessi þróun ekki hafa ráðandi áhrif á gang heimsmála á næstu misserum. Nema auðvitað að hugmyndin verði yfirfærð á fleiri svið þjóðfélagsins — sem óneitanlega væri frekar pirrandi og ruglingslegt.
Hugmyndin er auðvitað ekki ný af nálinni. Allir þeir sem sótt hafa Bandaríkin heim vita að þar er minnsti mögulegur skammtur á skyndibitastöðum „large“ enda er hugmyndin sú að viðskiptavinum finnist þeir gera reifarakaup ef þeir fá stóra máltíð á verði minnstu máltíðarinnar
Framsetning er alltaf höfuðatriði.
Sennilegast er nú samt að þessi miskvörðun á skyndibitum og kvenfatnaði sé órofa heild og að stærri skyndibitar kalli á hliðrun í kvenfatanúmerum.
Eini gallinn er að kvarðinn tapar merkingu sinni.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007