Samgöngumálaráðherra lét hafa eftir sér á dögunum að hann vildi frekar sjá Reykjavíkurflugvöll á Bessastaðanesi heldur en á Lönguskerjum. Ráðherra hefur markað sér ágætt orðspor fyrir að vera fljótfær í nokkrum málum og pistlahöfundi virðist lítil breyting vera þar á.
Bessastaðanesið lætur lítið yfir sér en er frekar mikið landflæmi. Nesið er slétt, fagurt og þar er sennilega glæsilegasta útsýni yfir höfuðborgarsvæðið, þar sem Esjan, Hengilinn, Bláfjöllin, Langahlíðin og Keilir ramma inn höfuðborgina. Það er því ekki að undra að menn líti það landsvæði hýru auga þegar umræður um framtíð flugvallarins eru annars vegar. Bessastaðanesið er afar verðmætt land og líklega ekki verðminna byggingarland en Vatnsmýrin, og verður sennilega nokkuð miðsvæðis á öllu höfuðborgarsvæðinu „þegar“ byggð verður brú yfir í Vatnsmýrina. Þess vegna er afleit hugmynd að vannýta nesið undir flugvöll þar sem framtíðarsýn bendir til þess að innan örfárra ára verði Bessastaðanesið líklega að einum eftirsóknarverðasta byggingarreit á höfuðbogarsvæðinu. Tillaga ráðherra felst varla í því að flugvöllinn verði færður á 10 ára fresti?
Eina skynsamlega hugmyndin sem fram hefur komið í flugvallarmálinu, að mati pistlahöfundar, er hugmynd Suðurnesjamanna um að stytta leiðina til Keflavíkur með því að brúa Straumsvík yfir á Álftanes og þaðan yfir í Vatnsmýrina. Kostnaður við rekstur tveggja flugvalla er íslenskri þjóð ofaukinn. ekki síst í ljósi þess að rekstur Keflavíkurflugvallar kemur til með að færast í auknum mæli úr höndum Bandaríkjamanna yfir til Íslendinga. Þegar glundroðanumn í borgarstjórnarpólitíkinni linnir og menn fara að tala af skynsemi um raunhæfar lausnir flugvallarvandans er líklegt að menn komist að þeirri niðurstöðu að sameining innanlands- og millilandaflugs á einn stað skili lægstum kostnaði og leiði til mestrar hagræðingar þegar til framtíðar er litið. Umræðan ætti því frekar að snúast um hvernig má bæta samgöngur úr höfuðborginni til Keflavíkur. Fagna ber tillögum Suðurnesjamanna og á hún ágæta samleið með hugmyndum Sjálfstæðismanna um borgina við sundin.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009