Á laugardag og sunnudag birtust greinar í Fréttablaðinu þar sem bútar úr tölvupóstsamskiptum nokkurra einstaklinga voru birtir og fjallað efnislega um þá. Óhætt er að segja að þessar fréttir hafi valdið nokkrum titringi í þjóðfélaginu og um leið vaknað umræða um lögmæti slíkra heimilda í blaðamennsku. Talar t.d. einn málsaðila um að lögsókn á hendur Fréttablaðinu sé að öllum líkindum væntanleg en ekki er ljóst hvernig þessar tölvupóstsendingar komust í hendur Fréttablaðsins. Jafnframt hefur heyrst að birting þessarar samskipta sé dæmi um gróft brot á friðhelgi einkalífsins.
En hvað á fjölmiðill að gera sem fær ákveðnar upplýsingar í hendurnar sem líkur eru á að hafi verið fengnar með vafasömum hætti? Þegar enginn vafi leikur á að þetta sé mikilvægt mál sem eigi fullt erindi til almennings þá hlýtur það að vera skylda og kappsmál þess fjölmiðils að koma þeim á framfæri.
Í þessu máli er um að ræða tölvupóstsendingar milli manna um mál sem hefur orðið stærsta dómsmál í Íslandssögunni og miklar deilur hafa staðið um hvort annarlegir hagsmunir standi að baki málshöfðuninni. Þegar svo stendur á hlýtur almenningur að eiga rétt á fréttum um málið. Það, hvernig þessar upplýsingar komust í hendur Fréttablaðsins, hlýtur því að liggja milli hluta.
Fyrir utan það þá er réttur blaðamanns til að vernda heimildarmenn sína mjög traustur. Skemmst er að minnast þess í byrjun þessa mánaðar hætti lögregla rannsókn á hugsanlegu broti á þagnarskyldu opinbers starfsmanns. Málið varðaði leka frá lögreglu varðandi Baugsrannsóknina vegna þess að blaðamaður, í þessu tilfelli pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu, neitaði að gefa upp heimildarmann sinn. Sá lögreglan ekki forsendur fyrir því að keyra málið fyrir dómstóla til að reyna að knýja blaðamanninn til þess. Markast sú ákvörðun lögreglu líklega af frægum dómi Hæstaréttar frá 9. áratugnum en þá var Agnesi Bragadóttur, blaðamanni hjá Morgunblaðinu, stefnt vegna neitunar á að gefa upp heimildarmann sinn fyrir skrifum um uppgjör SÍS við Landsbankann á þeim forsendum að um rof á bankaleynd væri að ræða. Úrskurðaði Hæstiréttur Agnesi og Morgunblaðinu í vil sem þurftu ekki að gefa upp heimildarmann sinn.
Baugsmálið er mjög viðamikið og ekki á allra færi að hafa yfirsýn yfir allt það sem hefur komið fram á undanförnum árum. En ef að fólk vill geta tekið upplýsta afstöðu hljótum við að krefjast þess að sem flestir þættir málsins séu dregnir fram í dagsljósið. Því er nauðsynlegt að búa fjölmiðlum starfsumhverfi sem gerir þeim kleift að vinna vinnuna sína án þess að eiga málshöfðanir yfir höfði sér.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021