Kvikmyndaplakat fyrir myndina, „Um tvo stálu tunglinu“.
|
Í litlum, rólegum, fátækum smábæ einhvers staðar í Póllandi fæðast tvíburar. Tveir strákar, Jacek og Placek [les: jatsek og platsek]. Brátt kemur í ljós að drengirnir eru gjörsamlega óalandi. Þeir éta allt frá heimilinu, liggja latir allan daginn, vinna ekkert og hrekkja þorpsbúana með sífelldum brögðum og látum.
Dag einn er liggja aðgerðarlausir og horfa á gyllt tunglið svífa yfir sjóndeildarhringnum fá þeir hugmynd: „Ef við bara stælum tunglinu og kæmum því í verð, þyrftum við aldrei að vinna framar!“ Að þessu sögðu leggja þeir af stað í langt ferðalag, þeir ætla sér að finna stað þar sem tunglið flýgur lágt yfir, grípa það, selja fyrir fúlgur fjár og lifa í allsnægtum til æviloka.
Ofannefnt er lýsing á atburðarrás pólsku kvikmyndarinnar „Um tvo bræður sem stálu tunglinu“ frá árinu 1962. Þeir sem léku þá Jacek og Placek voru eineggja tvíburar og barnastjörnur, Lech og Jaroslaw Kaczynski.
Kaczynski bræður. Bentu á þann sem að þér þykir bestur!
|
Nú, fjórum og hálfum áratug síðar eru bræðurnir tveir aftur í aðalhlutverkum. Lech er borgarstjóri í Varsjá og vill verða forseti, en Jaroslaw er forsætisráðherraframbjóðandi flokks þeirra. Flokkur sá heitur Lög og Réttalæti, skammstafast PIS á pólsku. Skemmtilegt.
PIS er eins og vinstrisinnaður Repúblikanaflokkur. Líkt og nafn flokksins gefur til kynna er „barátta gegn glæpum“ eitt aðalmottó hans, eða hefur allavega verið það lengst af. (Jaðar)kristileg gildi spila líka stóra rullu í stefnu hans. „Hommar, Ojj“ gæti verið eitt af kosningaslagorðum þeirra. Flokkurinn vill lækka skatta en þó halda í töluvert flókið skattakerfi og ekki leggja út í einhverja „frjálshyggjulega samfélagstilraun“ eins og þeir kalla hugmyndir um að hætta láta helming allra Pólverja þiggja bætur frá hinu opinbera.
Annars eru pólsku þing- og forsetakosningarnar í Póllandi eins og innanflokksátökin í Sjálfstæðisflokknum sem aldrei komu. Fullt af hægrimönnum að narta hver í annan. Engir vinstrimenn sjáanlegir. Engir yfirlýstir allavega. Helsti keppinautur bræðranna tveggja er Borgarabandalagið, frjálsyndur hægriflokkur, sem vill koma á flötum 15% skatti á hagnað fyrirtækja, tekjur einstaklinga og virðisauka. Frumlegri kjósendur geta kosið LPR, Pólska fjölskyldubandalagið, flokkinn sem mun af öllum Biblíunnar krafti berjast gegn öllu sem er útlenskt, gyðingalegt, hommalegt, evrópskt eða rautt.
Nú og ef einhver vill stökkva yfir miðjuna þá getur hann auðveldlega hent atkvæði sínu í öfgasinnaða Bændaflokkinn sjálfsvörn. Frambjóðandi hans í Lodz var í fréttunum í dag fyrir að reyna múta blaðamanni. Hann hafði gefið einhverjum róna pening og vildi fá mynd af sér á forsíðuna. Formaður flokksins sagði: „Hann komst á forsíðuna, er það ekki?“
Og vinstrimenn? Já þeir eru líka þarna. Frambjóðendi þeirra til forseta hætti. Því hinir voru að stríða honum.
Hver veit hvort bræðrunum tveimur takist að vinna sig í forseta- og forsætisráðherrastólinn. Þrátt fyrir að vera nú í öðru sæti eftir Borgaraflokknum, eiga þeir enn góða möguleika. Það er reyndar ótrúlegt hve langt þeir hafa náð í að afla sér fylgis á þessu fjórum árum. Allt getur gerst. Jacek og Placek í myndinni tókst nefnilega ætlunarverk sitt. Þeir stálu tunglinu.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021