Í fréttum stöðvar tvö í gær var fjallað um átröskunarsjúkdóma. Þar kom fram að að talið væri að um 3-4% allra íslenskra kvenna undir þrítugu þjáðist af einhvers konar átröskun. Hlutfall karla væri tíu sinnum lægra.
Átröskunarvandinn hefur löngum farið leynt í þjóðfélaginu. Átröskunarsjúklingar glíma gjarnan við ýmsan tilfinningalegan vanda sem annað hvort eru afleiðing eða orsök sjúkdómsins, sjálfsmynd þeirra er skert og skömmin mikil. Því hefur sjúkdómurinn sjaldnast fengið opna umræðu og framandi fyrir þá sem ekki þekkja hann af eigin raun.
Sjúkdómurinn er margslunginn, hefur margar mismunandi birtingarmyndir og er illskiljanlegur fyrir marga. Það er þekkt vandamál að fólk óttast hið óþekkta. Ótti leiðir til fordóma og það er því miður svo að átröskunarsjúklingar mæta miklum fordómum og vanskilningi í samfélginu. Fólk með átröskun fær oft frekar á sig stimpil um hégómleika, óskynsemi, jafnvel heimsku. Fæstir taka sér tíma í að velta því fyrir sér hvað raunverulega fer fram í hugum fólks með átröskun, hvað valdi henni og hvaða hugsanir stjórni þessari hegðun sem mörgum finnst undarleg, eða jafnvel ógeðfelld.
Átröskun er sjúkdómur eins og hver annar geðsjúkdómur. Hann er jafnframt lífshættulegur þar sem þau hegðunareinkenni sem átröskunarsjúklingar hafa geta haft mjög alvarleg áhrif á líkamlega heilsu þeirra. Hann orsakast af mismunandi hlutum og hvert einstakt tilfelli þarf sérstaka meðhöndlun. Tilfinningaröskun, streita, frammistöðukvíði og alvarleg áföll eru bara nokkur þeirra atriða sem orsakað geta átröskun hjá einstaklingum en samnefnarinn virðist þó vera sá að einhvers konar ranghugmyndir hafa búið um sig í huga sjúklingsins sem orsaka afbrigðilegt viðhorf hans til matar.
Þrátt fyrir að í umræðunni í samfélaginu sé áhersla á að fólk lifi í sátt við sjálft sig og stolt af því sem því hefur verið gefið, er undirliggjandi afskaplega mikil útlitsdýrkun sem er mun sterkari í hugum manna en hin pólitískt rétta setning „Það eru bara allir fínir eins og þeim líður vel.“ Það er bara ekki þannig sem þjóðfélagið hugsar. Fólk er ekki fínt eins og því líður vel og allir eiga helst að vera steyptir í sama mót. Ekki allir ráða jafn vel við að uppfylla kröfur samfélagsins og meðal þeirra sem eiga erfitt með það eru átröskunarsjúklingar.
Það má sjá af ofangreindu að þjóðfélagið á því mjög stóran þátt í því að gera átröskunarsjúklingum erfitt fyrir, bæði að viðurkenna sjúkdóm sinn og takast á við hann.
Síðustu fjögur ár hafa komið 1-3 nýjar tilvísanir átröskunarsjúklinga á viku á göngudeild Landspítalans háskólasjúkrahúss. Við þetta má svo bæta þeim sem leita aðstoðar hjá heilsugæslu, sálfræðingi eða í gegnum síma, og svo loks þeim sem ganga með sjúkdóminn í fjölda ára án þess að leita sér nokkurn tímann aðstoðar, eða jafnvel viðurkenna hann fyrir sjálfum sér eða öðrum.
Þrátt fyrir alvarleika átröskunarsjúkdóma, tíðni þeirra og mikilvægi þess að hann sé meðhöndlaður bæði vel og snemma hefur verið mikill skortur á meðferðarúrræðum fyrir sjúklingana. Biðlistarnir eftir aðstoð hafa verið allt of langir og úrræðin einhæf. Það voru því mjög gleðileg tíðindi þegar sagt var frá því í fréttum í gær að heilbrigðisráðherra stefndi á að setja sextán til átján milljónir í að setja á fót göngudeild fyrir fólk með átröskun. Stefnan væri að fjármagna fjögur stöðugildi sérfræðinga sem alfarið gætu beitt sér að átröskunarsjúkdómum. Þó um sé að ræða fjármagn sem dugi skammt og nægi væntanlega ekki til að anna eftirspurn eins og þyrfti, er þetta merki um það að augu fólks séu að opnast fyrir brýnni nauðsyn þess að bæta úr þjónustu við átröskunarsjúklinga.
Framtak tveggja kvenna, Ölmu Geirdal og Eddu Ýr Einarsdóttur, sem báðar hafa náð að vinna sig út úr átröskun er ekki síður ánægjulegt. Þær höfðu báðar reynslu af þeim úrræðum sem í boði eru hér á landi og töldu að bjóða þyrfti upp á aðra og jafnvel í sumum tilvikum betri eða hentugri möguleika fyrir þá sem vildu takast á við sjúkdóminn. Því hafa þær sett á fót nýtt félag, Forma, sem býður upp á aðra þjónustu og önnur úrræði en hingað til hafa verið veitt. Forma stendur fyrir málþingi og velferðartónleikum í Loftkastalanum næstkomandi laugardag frá 14-18 þar sem fjallað verður um sjúkdóminn frá ýmsum hliðum. Málþingið er opið öllum, aðgangur ókeypis, og því vill undirrituð hvetja alla sem vilja láta sig málið varða að líta við í Loftkastalanum á laugardaginn og sýna stuðning í verki. Það er mikilvægt að umræðan um sjúkdóminn opnist, meðferðarúrræðum fjölgi og fordómar gegn sjúkdómnum hverfi.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008