Hér í Bandaríkjunum stendur nú yfir mikil rökræða um hugmyndir sem kallaðar hafa verið vitræn hönnun (e. Intelligent Design). Fylgjendur vitrænnar hönnunar halda því fram að mismunandi einkenni lífvera sé verk vitsmunalegrar veru en ekki afurð óreiðukenndrar þróunar samkvæmt kenningum Darwins. Vísindasamfélagið samþykkir þessar hugmyndir ekki sem vísindalega kenningu og meðal helstu vísindamanna er lítið um skiptar skoðanir á þessu málefni. Þeir sem tala fyrir vitrænni hönnun vilja hins vegar að þeirra hugmyndir séu kenndar í grunnskólum til hliðs við (og jafnvel í stað) þróunarkenningarinnar og um þetta er rökrætt.
Lengi vel tóku vísindamenn þessa rökræðu ekki alvarlega. Nú er hins vegar svo komið víða um Bandaríkin að komin er mikil pressa á grunnskóla að bæta inn kafla um vitræna hönnun í líffræðibækurnar sem fullgilda kenningu við hlið þróunarkenningarinnar og nýlega hafa bæði Bush Bandaríkjaforseti og Bill Frist leiðtogi Repúblikanaflokksins lagst á sveif með þessum hugmyndum. Vikublaðið New Yorker fjallaði um þetta mál í nýlegu hefti en þar kom fram að nú þegar læra börn í 9 bekk í Dover í Pennsylvaniu að þróunarkenningin sé aðeins ein möguleg kenning til að skýra margbreytileika lífvera og að til sé önnur kenning, nefnilega vitræn hönnun. Þetta er gert samkvæmt skipun frá Skólanefnd Dover Sýslu sem samþykkt var í október í fyrra.
Heimspekiprófessorinn Daniel C. Dennett fór nýlega yfir rökstuðning fylgjenda vitrænnar hönnunar í grein í The New Times og benti þar á eina uppáhalds röksemd þeirra — byggingu augans. Hann segir meðal annars að fylgjendurnir bendi á hversu frábærlega augað sé hannað með stillanlegri linsu, breytilegu ljósopi, og þéttriðnu neti ljósnema sett saman í kúlulaga form sem getur hreyfst á millísekúndum og sent ótrúlegt magna gagna til heilans á hverri sekúndu. Slíkt geti ekki verið afurð raðar tilviljanakenndra atburða heldur hljóti þar að vera vitsmunavera að verki.
Dennett heldur áfram og talar um hvernig kenningar þróunarlíffræði skýri vel hvernig ljósnæmir punktar þróuðust smám saman yfir í augu nútímans. Í lífríkinu má finna augu á ýmsum stigi í þessu ferli sem rennir enn betri stoðum undir þessa kenningu. Augað er heldur ekki gallalaust. Í botni augans liggja taugaendar sem leiða upplýsingar yfir í heilann. Fyrir vikið er engin ljósnæmni á því svæði sem skapar “blinda blettinn” svokallaða. Hér mætti bæta við fjölda mörgum rökum fyrir þróunarkenningunni enda hefur hún verið viðtekin sem hluti vísindalegrar þekkingar mannsins í langan tíma. Á hverju ári er rennt styrkari stoðum undir hana með nýjum rannsóknum, nú á síðustu árum með því að skoða kjarnsýrur lífvera og sjá hvernig þær hafa þróast.
Dennett bendir einnig á þau brögð sem fylgjendur vitrænnar hönnunar nota: Þeir segja sem svo “Niðurstöður prófessor X sýna að jörðin er flöt” og snúa þannig út úr rannsóknum hans. Þegar prófessorinn svarar þessum fullyrðingum er sagt “Sko, sjáiði deiluna í vísindasamfélaginu um lögun jarðar. Við ættum að ræða báðar hliðar þessar rökræðu í skólunum”.
Eflaust finnst mörgum á Íslandi þetta efni algjörlega óþarft til umræðu. Staðan hér í Bandaríkjunum er hins vegar orðin sú að mjög mikilvægt er að taka á þessu málefni. Jafnvel þó yfir 80% Bandaríkjamanna telji Guð hafa skapað manninn eða hjálpað til við þróun hans (skv. fyrrnefndri New Yorker grein) og að hugmyndir um vitræna hönnun njóti töluverðs fylgis verður fólk að átta sig á inntaki málsins. Kjarninn er að þessar hugmyndir fólks um vitræna hönnun eru ekki vísindi. Þær eiga því engan stað í líffræðitímum sem eiga að fræða börn um vísindalega þekkingu og aðferðir. Vonandi átta Íslendingar sig á þessu og halda áfram að leyfa líffræðikennurum að kenna líffræði í líffræðitímum.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007