Undanfarið hef ég orðið var við að áróður virðist ekki njóta sannmælis í okkar ágæta samfélagi. Allt of oft er boðskapur af ýmsu tagi skotinn í kaf af efasemdarmönnum á þeim forsendum einum að eingöngu sé um „bullandi áróður“ að ræða. Þá er um leið gefið í skyn að einhvers konar skrumskæling á sannleikanum fylgi áróðri óhjákvæmilega. Vissulega er það eitt einkenni áróðurs að boðskapurinn hefur tilhneigingu til að vera einhliða, jafnvel skreyttur örlítið til að styrkja málflutninginn enn frekar, en þegar áróðri er beitt er ekki sjálfgefið að lygar og prettir fylgi með. Áróður er einfaldlega ein leið til að koma skoðunum okkar á framfæri og fá fólk til að taka afstöðu, og alveg eins og með aðrar samskiptaleiðir er hægt að nota þær í ýmsum tilgangi.
Þegar áróður ber á góma eru gjarnan dregin fram nöfn eins og Hitler og Lenín sem dæmi um menn sem beittu áróðri til að renna stoðum undir ógnarstjórnir sínar og kúga hrjáða samlanda sína. Þessir menn mötuðu þjóðir sínar á röngum og misvísandi upplýsingum til að styrkja völd sín og stöðu enn frekar og hylma yfir þau voðaverk sem þeir unnu, og það er vissulega ekki tilætlan undirritaðs að verja slíkar gjörðir. Hins vegar var það ekki áróðurinn sjálfur sem ól af sér ranghugmyndir og vanþekkingu fjöldans á stefnu stjórnvalda í þessum ríkjum, heldur var meginástæðan skortur á áróðri. Þetta hljómar kannski undarlega en er í raun afar einfalt. Í Þýskalandi nasismans og Sovétríkjum kommúnismans var valdi beitt óspart í þeim tilgangi að kæfa allar tilraunir til að gagnrýna stjórnvöld. Þetta varð til þess að áróðurinn sem almenningur fékk að heyra var afar einleitur, og þegar valdníðsla í stórum skömmtum bættist ofan á „heilaþvott“ stjórnvalda áttu þegnarnir ekki margra kosta völ; þeir voru þvingaðir til hlýðni og undirgefni.
Áróður er einnig áberandi í þeirri stjórnmálaumræðu sem nú á sér stað. Stjórnmálaflokkar eru oft sagðir blekkja kjósendur með áróðri sínum með því að snúa út úr staðreyndum, og telja margir að stjórnmálamönnum sé álíka treystandi eins og hinum verstu sölumönnum. En raunveruleikinn er sá að stjórnmálamenn eru að selja ákveðna vöru – sjálfa sig, stefnu flokks síns eða aðrar hugsjónir – og það væri einfaldlega léleg sölumennska að draga fram alla gallana við sig sjálfan ef markmiðið er að fá fólk til að kjósa sig.
Velgengni stjórnmálamanna stendur og fellur að miklu leyti með þeim trúverðugleika sem þeir vinna sér inn meðal almennings, og því eru fáir sem grípa til slíkra örþrifaráða að ljúga blákalt til að fá fólk til liðs við sig. Þó þekkist það, en þá er líka verið að misnota það öfluga verkfæri sem áróður óneitanlega er, um leið og áróðri andstæðinganna eru veitt öflug vopn í hinni stöðugu baráttu fyrir trúverðugleika og atkvæðum.
Hægt er að velta því lengi fyrir sér hvort sagan hefði tekið aðra stefnu ef allur áróður hefði fengið að njóta sín í löndum eins og fyrrum Sovétríkjunum eða Þýskalandi Hitlers. Að öllum líkindum hefði það stuðlað að upplýstara þjóðfélagi sem væri betur í stakk búið að bregðast við múgæsingamönnum. Mills sló naglann á höfuðið með rökum sínum fyrir hugsunarfrelsi og málfrelsi:
1. Bönnuð skoðun getur verið rétt, og með því að útiloka þann möguleika eru stjórnvöld að segjast vera óskeikul, en sagan sýnir annað.
2. Bönnuð skoðun getur verið röng, en það eflir rétta skoðun ef hún er borin saman við ranga skoðun.
3. Andstæðar skoðanir geyma oft hvor sinn hluta sannleikans; til dæmis hafa íhaldssemi og frjálslyndi í stjórnmálum hvort sínu hlutverki að gegna þrátt fyrir að vera andstæð sjónarmið.
Við búum yfir gagnrýnni hugsun og ættum að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Því segi ég við áróðursmeistara þessa heims: Bring it on! Þeim mun meiri áróður, því betra.
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009