Notaðu atkvæðisrétt þinn Jói!!!
|
Í uppsiglingu eru hinar og þessar kosningar, t.d. innan Sjálfstæðisflokksins eru 3 mikilvægar kosningar, þ.e. kosningar til stjórnar Heimdallar, kosningar til formanns SUS og prófkjör í borginni. Undirritaður ætlar að taka þátt í öllum þessum kosningum og ætlar að nýta kosningaréttinn sinn vel.
Í sveitastjórnarkosningunum 2002 vann ég það stórskemmtilega starf að flokka atkvæði. Nánar tiltekið þá flokkaði ég atkvæði í borgarstjórnarkosningunum. Ég hafði það verkefni að flokka í sundur þau atkvæði sem voru etv. ógild og þau atkvæði sem minni flokkar fengu, t.a.m. Húmanistaflokkurinn og Frjálslyndiflokkurinn.
Ýmislegt skondið og sérstakt kom í ljós við skoðun mína á þessum atkvæðum, einkum þó þann flokk sem var etv. ógildur. Á u.þ.b. 20 kjörseðlum hafði verið skrifuð fúkyrði fyrir aftan nafn Björns Bjarnasonar. Einhverjir voru ekki nógu sáttir við Ingibjörgu Sólrúnu og létu það í ljós með lastmælum á kjörseðlinum. Enn aðrir myndskreyttu atkvæði sín eða úthúðuðu stjórnmálamönnum yfirhöfuð. Einn kjörseðill stóð þó upp úr en á honum hafði einfaldlega verið ritað með stórum stöfum: „Þið platið mig ekki, kveðja Jói.“
Við fyrstu sýn er þetta alveg bráðfyndið, þ.e. að einhver skuli vera svo útúrflippaður að eyða kosningarétti sínum í svona vitleysu. Ef maður hins vegar skoðar málið yfirvegað þá er þetta grafalvarlegt, þ.e. að einhver hafi eytt kosningarétti sínum í vitleysu. Kosningar innan flokka sem utan eru gríðarlega mikilvægt tæki fyrir hinn almenna félagsmann eða almenning að hafa áhrif á hvernig samfélag við viljum lifa í. Því er gríðarlega mikilvægt að nota atkvæðisrétt sinn vel. Því segi ég við Jóa. „Þú platar mig ekki, X-D, kveðja Bjarni.“
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009