William Rehnquist
|
William Rehnquist, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, lést á laugardag, áttræður að aldri. Rehnquist átti langan og farsælan feril að baki, en hann sat í Hæstaréttinum frá 1972 og var forseti Hæstaréttar frá 1986. Þrátt fyrir að Rehnquist hafi greinst með krabbamein fyrir um það bil ári síðan hafði hann staðfastlega neitað því að hann væri að hætta störfum. Heilsu hans hafði þó hrakað að undanförnu og því kom fráfall hans ekki algerlega á óvart.
Rehnquist var bráðsnjall lögfræðingur og þriggja barna faðir. Því miður mun ekki gefast mikið tóm í umræðunni til að líta til baka því fráfall hans hefur mikil áhrif á valdapólítík í Bandaríkjunum. Á næstunni mun George W. Bush skipa eftirmann Rehnquist og ljóst er að sú skipun verður umdeild. Orsök þess liggur hvorki hjá Rehnquist né hugsanlegum eftirmanni, heldur í fyrirkomulagi við skipan Hæstaréttardómara í Bandaríkjunum.
Á Íslandi hafa pólítískar skipanir í Hæstarétt verið litnar hornauga. Þótt vissulega séu til undantekningar, hefur hefðin á Íslandi verið sú að ráðherrar hafa farið eftir umsögnum Hæstaréttar um umsækjendur og í flestum tilvikum hafa menn getað orðið á eitt sáttir um að hæfustu umsækjendurnir hafi orðið fyrir valinu.
En hvort sem Íslenskir Hæstaréttardómarar eru pólítískt skipaðir eða ekki, þá er þeim þröngt sniðinn stakkur í því að láta pólítískar skoðanir sínar hafa áhrif á dóma. Þeir skulu dæma eftir lögunum og stjórnarskránni, sem koma frá Alþingi. Ef ákvæði þeirra eru óskýr er þeim breytt til að endurspegla vilja Alþingis – og vonandi þjóðarinnar.
Í Bandaríkjunum er málinu öðru vísi farið. Þar sem nánast ómögulegt er að breyta stjórnarskrá Bandaríkjanna verður ekki hjá því komist að túlkun Hæstaréttardómara á ákvæðum hennar verði mjög mikilvægur þáttur í réttarkerfinu. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er þar að auki yfir 200 ára gömul og landsfeðurnir höfðu ekki forsendur til að mynda sér skoðanir á hlutum eins og fóstureyðingum, niðurhali á tónlist, klámblöðum og fleiru. Það hefur því komið í hlut Hæstaréttar Bandaríkjanna að reyna að túlka stjórnarskrána með tilliti til þessara og annarra málefna. Val á Hæstaréttardómurum er því mikilvægur þáttur í viðleitni sitjandi forseta til að móta stjórn landsins að sínu höfði. Bandarískum Hæstaréttardómurum er óhikað skipt í fylkingar eftir afstöðu sinni og fór Rehnquist fyrir fylkingu íhaldsmanna í réttinum.
Fyrir vikið er ljóst að margir hafa þegar byrjað að undirbúa sig fyrir þann slag sem er í vændum. Það dregur ekki úr spennunni í kringum þessa skipun að ekki er enn búið að staðfesta skipun John G. Roberts í réttinn, en Roberts var skipaður eftir að Sandra Day O’Connor lýsti því yfir nú í sumar að hún hyggðist láta af störfum. Fráfall Rehnquist flækir málið enn frekar og erfitt er að sjá fyrir hvernig Bush mun kjósa að spila þetta pólítíska tafl og munu margir fylgjast vel með hvernig fram vindur á næstu vikum og mánuðum.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020