Piparsveinn á ástarfleyi

Íslendingar virðast ekki ætla að vera neinir eftirbátar Bandaríkjamanna í þáttagerð. Innan tíðar munu hefja göngu sína hérlendis a.m.k. tveir þættir þar sem hugmyndir þeirra vestra eru fluttar hingað heim.



Óhætt er að fullyrða að þáttargerð síðustu fimm árin hefur tekið gífurlegum stakkaskiptum með tilkomu raunveruleikaþátta. Það er augljóst að hægt er að gera þætti um hvað sem er og um hvern sem er. Ekkert virðist vera heilagt í þeim málum og hafa Bandaríkjamenn verið einna duglegastir við að framleiða alls konar þáttaraðir þar sem þátttakendur þurfa ekki að vera útskrifaðir leikarar. Allir hafa möguleika á frægð án hæfileika.

Við Íslendingar skipuleggjum daginn með það í huga að vera laus nákvæmlega klukkan átta þegar enn einn raunveruleikaþátturinn hefur göngu sína. Því hispurslausari sem þættirnir eru því vinsælli verða þeir og svo virðist sem þessi nýja stefna í þáttagerð, þar sem að óbreyttir íbúar eru aðalnúmerin, sé himnasending fyrir þáttaframleiðendur. En er markaður fyrir hvað sem er á Íslandi og eru engin takmörk fyrir því hvað við erum tilbúin að selja okkur í?

Íslendingar virðast ekki ætla að vera neinir eftirbátar Bandaríkjamanna í þáttagerð. Innan tíðar munu hefja göngu sína hérlendis a.m.k. tveir þættir þar sem hugmyndir þeirra vestra eru fluttar hingað heim. Íslenski Bachelorinn sem við þekkjum öll úr bandaríska sjónvarpsefninu og Ástarfleyið sem má rekja beint til þáttana sem kölluðust “Loveboat”. Háværar raddir voru um að Bandaríkjamenn væru engum líkir og þvílík vitleysa það væri að ganga svona langt í raunveruleikaþáttagerð.

En nú þegar eru til staðar þættir hérlendis þar sem hugmyndir hafa verið nýttar erlendis frá. Þeir hafa gengið vel eins og til að mynda Idol stjörnuleit sem er eitt vinsælasta sjónvarpsefni sem sýnt hefur verið í íslensku sjónvarpi.

Þættir sem snúa að tilfinningum fólks og eru með kynferðislegan undirtón eru eitthvað sem hlýtur að selja og því gefið að þeir munu virka – ef markaðurinn er nógu stór fyrir slíka þætti. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem reynt verður að leiða fólk saman því Djúpa laugin lagði sig fram við að búa til pör með mjög saklausum hætti. Það hætti hins vegar að ganga og eftir mjög stuttan líftíma seríu númer tvö voru þættirnir blásnir af.

Á landi eins og Íslandi er íbúafjöldi á við götu í Bandaríkjunum og allir eru skyldir á einhvern hátt samkvæmt Íslendingabók á netinu. Það er því klárlega ekki markaður fyrir þáttaröð á borð við Íslenska Bachelorinn eða Ástarfleygið að mati pistlahöfundar. Eftir að fólk verður búið að hneykslast, flissa og hæðast að þeim þátttakendum sem senn hefja þátttöku, mun enginn lengur hafa áhuga á að finna hinn eina rétta / réttu með slíkum hætti. Það hefur einmitt þótt bregða til slíkrar hegðunar í því litla samfélagi sem Ísland er.

Miðað við þann árangur sem náðst hefur úr þeim seríum sem sýndar hafa verið í Bandaríkjunum þá lítur út fyrir að þetta sé ekki leiðin. Fyrst og fremst miðast þessir þættir við hagsmuni framleiðenda en ekki þátttakenda.

Eins fljótt og fiskisagan flýgur og almenningsálitið mótast taldi ég að bandarískar steikur á við The Bachelor og Loveboat kæmust ekki alla leið á diskinn hér heima.

– Eflaust verða margir vant við látnir klukkan átta á þriðjudagskvöldum (óska tímasetning undirritaðrar) þegar umdeildustu raunveruleikaþættirnir hefja göngu sína hérlendis. Þeir fá þó stemninguna beint í æð. Heppnir.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.