Jarðgöng
|
Hugmynd um Héðinsfjarðargöng sem tengja ættu Siglufjörð og Ólafsfjörð, hlýtur að teljast með ævintýralegri hugmyndum íslenskrar samgöngusögu. Ekki nóg með það að gangnagerðin geri ráð fyrir því að tengja tvö sveitarfélög þar sem samtals búa 2.366 íbúar skv. upplýsingum Hagstofu Íslands, heldur er áætlaður kostnaður vegna framkvæmdarinnar tæpir sjö milljarðar króna. Sjö milljörðum króna af skattfé landsmanna á sem sagt að eyða í að tengja saman tvo tiltölulega afskekkta byggðakjarna nyrst á landinu, sem hingað til hafa ekki verið í vegasambandi.
Gróflega áætlað, miðað við íbúafjölda þessara tveggja sveitarfélaga, kostar framkvæmdin á hvern haus tæpar þrjár milljónir króna. Með dólgarökum má finna margt annað sem unnt er að eyða sjö milljörðum í. Til að mynda væri hægt að kaupa fyrir þá fjárhæð 2.366 smájeppa eins og Ford Escape, eða 1.569 stykki af Nissan Patrol jeppum.
Án þess að fara út í þá umræðu hvernig fjármagna eigi samgöngumannvirki eða hver eigi að kosta slíkt, má sjá að þessi framkvæmd er fullkomlega og algjörlega út í bláinn. Göng þessi munu fyrst og fremst nýtast íbúum þessara sveitarfélaga og bæta samgöngur þeirra, einkum að vetri til. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að ferðamenn muni einnig nýta sér þá möguleika sem verða til með þessari gangagerð að einhverju leyti, aðallega yfir sumartímann, er vandséð að unnt réttlæta megi þessa framkvæmd með því eða að hún geti talist hagkvæm eða skynsamleg.
Ráða byggðasjónarmið hér fyrst og fremst för eða telja menn að hér sé um brýna þarfa og nauðsynlega gangnagerð að ræða?
Ef um byggðasjónarmið er að ræða varðandi framkvæmdina er um skammsýni að ræða. Gerð slíkra gangna hefur í besta falli tímabundin áhrif á atvinnulíf á viðkomandi stöðum að gera, en stuðlar ekki að viðvarandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Vissulega er það staðreynd að Héðinsfjarðargöng munu tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og þá Ólafsfjörð, en hvort eða hvernig þau áhrif munu verða er ekki unnt að taka afstöðu til þess á grundvelli tilvistar jarðgangna einna saman.
Ekki er dregið í efa að slík gangnagerð sé þörf, til þess að bæta samgöngur. En þörfin ein dugar vart til þess að réttlæta slíkan fjáraustur almannafjár. Líta þarf til fleiri þátta.
Ákvörðun um gerð samgöngumannvirkja af þessari gerð fyrir almannafé á að endurspegla annars vegar þörfina fyrir slíkt og hins vegar hversu almenn og víðtæk áhrifin verða, m.a. byggt á áætluðum fjölda notenda. Jarðgöng í Héðinsfirði uppfylla hugsanlega fyrra skilyrðið en alls ekki það síðara.
Þeir sem fara með almannafé þurfa að geta réttlætt það fyrir okkur skattgreiðendum hvernig með það er farið og á hvaða grundvelli ákvarðarnir byggjast. Og ekki fæst séð að að það hafi verið gert, eða að unnt sé að gera það með neinu móti.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007