Yao Ming og Hlynur Bæringsson takast á í Harbin í gærkvöld
|
Íslenska landsliðið í körfuknattleik mætti liði Kínverja síðastliðinn sunnudag í Xian í fyrri leik liðanna af tveimur í Kína og fór seinni leikurinn fram í Harbin í gær þriðjudag. Þetta er í fyrsta skipti sem landsliðið keppir í Kína, en liðin hafa mæst þrívegis áður árið 1980 á Íslandi. Í það skiptið sigruðu Kínverjar tvo leiki, en Ísland einn. Á þeim tíma var lið Kína eingöngu skipað leikmönnum frá Mansjúríu-héraði.
Í þetta skiptið sóttu Íslendingar Kínverja heim og beið það fyrrnefnda lægri hlut í báðum viðureignunum. Fyrri leikurinn fór 51-89 en sá seinni 80-96. NBA leikmaðurinn Yao Ming sem er 2.26 metrar á hæð og leikur með Houston Rockets, spilaði í fyrsta skipti með kínverska landsliðinu eftir langa fjarveru.
Yao Ming er einn frægasti maðurinn í Kína um þessar mundir, ásamt því að vera í hópi ríkustu manna landsins. Það verður ekki hjá því komist að sjá kappann í Kína þar sem hann er að finna í fjölda auglýsinga, jafnt í sjónvarpi sem og dagblöðum. Þegar ljóst var að Yao Ming myndi spila með kínverska landsliðinu gegn Íslandi seldust allir miðar upp á ör skammri stundu. Það fór ekki framhjá Íslendingunum að frægðarsól Yao skín sterkt í Kína. Öll öryggisgæsla í kringum liðin tvö var aukin til muna vegna þátttöku þessa fræga íþróttamanns. Það er ekki auðvelt fyrir mann eins og Yao að fela sig á bak við sólgleraugu eins og annað frægt fólk þar sem hann er vel á þriðja metra og sést því vel úr fjarlægð.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins
|
Íslensku leikmennirnir höfðu það á orði að það væri sérstök upplifun að fara í lögreglufylgd á æfingar, en greinarhöfundur ásamt þremur öðrum stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í Kína fékk að upplifa lögreglufylgdina þegar farið var á leikinn í Xian. Það var augljóst að kínversku lögreglumönnunum leiddist hlutverk sitt ekki, þeir keyrðu á fullri ferð á móti umferð á undan rútunni með blikkandi blá ljósin og vælandi sírenurnar, líkt og helst er að finna í góðri Hollywood hasarmynd.
Lögreglumenn mynda hring um rúturnar
|
Þegar við nálguðumst höllina sáum við fjöldan allan af fólki sem beið eftir að komast á leikinn, þarna voru þúsundir manna saman komnir til þess að sjá liðin tvö takast á. Rúta kínverska landsliðsins ók á undan þeirri íslensku í gegnum vallarhliðið og þegar þangað var komið tók fjöldinn af skarið á eftir rútunni. Allir vildu sjá leikmanninn knáa, en ekki smáa, Yao Ming. Þegar rúturnar voru stöðvaðar komu mörg hundruð lögreglumenn hlaupandi, þeir héldust hönd í hönd til að bægja æstum múgnum frá og allt var þetta frekar nýstárleg upplifun fyrir okkur Íslendingana.
Íþróttahöllin var þéttsetin, en rúmlega sjö þúsund áhorfendur fylgdust með leiknum. Því miður gekk ekki nógu vel hjá íslenska landsliðinu í Xian, þeir hittu illa og töpuðu boltanum nokkuð oft. Liðinu gekk hins vegar mun betur í seinni leiknum sem fram fór í Harbin, en þar leiddi Ísland leikinn eftir fyrsta fjórðunginn með þá Magnús Þór Gunnarsson og Hlyn Bæringsson í fararbroddi. Magnús setti niður sjö þriggja stiga körfur og Hlynur skoraði 18 stig og tók 11 fráköst.
Íslenski hópurinn ásamt Eiði Guðnasyni,sendiherra Íslands í Kína
|
Ljóst er að kínverska landsliðið er mjög sterkt á heimsvísu, en það munar miklu um Yao Ming sem hefur lítið fyrir því að skora þar sem hann nær nánast upp í körfuna. Í umfjöllun helstu dagblaða landsins er ávallt talað um kínverska landsliðið og Yao Ming likt og um tvö ólík lið sé að ræða. Sú staðhæfing er ekki svo fjarri lagi þar sem liðið spilar gerólíkan leik án Yao Ming. Þrátt fyrir ósigur eiga þessir leikir eflaust eftir að styrkja íslenska landsliðið enn frekar og vonandi verða til þess að liðið sigri Dani í viðureign liðanna um næstu helgina.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020