Í skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær kom enn og aftur fram að Framsóknarflokkurinn er í dauðateygjunum. Merkilegast var þó að lesa um viðbrögð oddvita flokksins í borgarstjórn, sem greinilega gengur í myrkri, því hann taldi ástandið nú ekki vera svo slæmt enda „oft séð það svartara en þetta“. Pistlahöfundur á erfitt með að ímynda sér að staða stjórnmálaflokks sem virðist vera að þurrkast út hafi oft verið verri.
Af 800 manna úrtaki könnunarinnar lýstu einungis 22 hræður því yfir að þeir myndu kjósa Framsókn ef nú yrði gengið til kosninga. Þetta hljóta að vera alvarlegt tíðindi fyrir flokkinn en einungis Frjálslyndi maðurinn mældist með minna fylgi, en 10 manns sögðust myndu veita honum atkvæði sitt af einhverjum ástæðum. Pistlahöfundur veltir líka fyrir sér hvaða stefnu þessir 22 einstaklingar sem myndu kjósa Framsókn eru að styðja – fyrir hvað stendur flokkurinn í borgarmálum? Rækjur?
En það er ekki bara Framsókn sem bíður afhroð í könnuninni heldur virðast flokkarnir sem stóðu að R-listanum fá falleinkun. Niðurstöðuna er ekki hægt að túlka á annan hátt en að kjósendur séu orðnir þreyttir á ráðaleysi og valdasýki R-lista fólksins. Einu málefnin sem fram hafa komið undir það síðasta, fyrir utan utan það að hætta-við-að-hækka skatta, hætta-við-að-hækka leikskólagjöld og hætta-við-að-breyta leiðarkerfi strætó, eru málefni sem nefna mætti „ég, um mig, frá mér, til mín“ -málefni. Eini samnefnari frambjóðenda R-listanas síðastliðið ár virðist nefnilega hafi verið styr um það hver tæki við af Tal-forstjóranum og hver yrði borgarstjóraefni í næstu kosningum.
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna hefur staðið sig mjög vel að undanförnu og góð niðurstaða þeirra í könnuninni ber merki um það, þó svo að getuleysi hinna flokkanna hljóti óneitanlega að hafa fækkað valmöguleikum þátttakenda í könnunni. Oddviti sjálfstæðismana virðist vera farinn að trúa því að hann geti leitt listann og virðist nú í fyrsta sinn stíga fram sem trúverðugt borgastjóraefni. En það eru fleiri um hituna og í spjallþáttum sjóvarpsstöðvanna í gærkvöldi komu fram tveir einstaklingar sem taldir eru hafa gengið með „borgarstjórann í maganum“ um þónokkurt skeið. Ekki er hægt að segja að fyrstu skref þessara borgarstjóraefna hafi verið stór eða þýðingarmikil og fátt virðist enn benda til þess að komandi prófkjörs- og kosningabarátta verði skemmtileg.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009