Fimmtudaginn 25. ágúst 2005 sótt ég fund á Nordica um eignarrétt og framtíðina. Fundurinn var á vegum RSE sem er nýstofnaður thinktank (hugsmiðja sbr. að leita í smiðju einhvers) um samfélags- og efnahagsmál.
Ég sá að ég var ekki eini meðlimurinn í kórnum á þessum fundi. Boðberar kenninga um öruggan og vel skilgreindan eignarrétt sem hornstein frelsis, lýðræðis og framfara á öllum sviðum fundu sjálfsagt ekki marga talsmenn andstæðra sjónarmiða á Nordica þennan fimmtudagsmorgun. En eins og máltækið segir, þá verður góð vísa aldrei of oft kveðin, og kórinn má æfa.
Fyrsta erindi fundarins var um náttúruauðlindir og kosti eignarréttar einstaklinga á þeim. Micheal De Alessi frá Reason Public Policy Institute sýndi fram á að eignarréttur einstaklinga sé betur til þess fallin að vernda náttúruna og ná fram skynsamlegri nýtingu auðlinda en að hið opinbera fari með eignarheimildirnar. Nefndi hann laxa og laxár sem dæmi um skynsamlega náttúruvernd einstaklinga. Hann sagði náttúruverndarsamtök mörg hver vera að átta sig á gildi eignarréttarins við náttúruvernd. Nú starfa nokkur náttúruverndarsamtök sem styðja kvótakerfi í sjávarútvegi, önnur sem kaupa náttúruperlur og landareignir í stað þess að þrýsta á stjórnmálamenn.
Hann tók dæmi frá Nýja-Sjálandi þar sem kvótinn eins og við þekkjum er í einkaeigu og stjórnarskrárvarinn þar með. Á Nýja-Sjálandi hafa kvótaeigendur oft á tíðum heimilað minni veiði en sérfræðingar ráðleggja í von um aukin verðmæti síðar. Þar tíðkast einnig samningar milli kvótaeigenda af sitthvorri tegundinni. Það er ef hagsmunir þeirra stangast að einhverju leyti á. Eigandi tegundar A greiðir eiganda tegundar B fyrir ákveðnar ráðstafanir af hans hálfu sem eru til þess fallnar að auka virði kvóta eiganda A. Sérhæfð kvóta-eignarhaldsfélög af þessari tegund er nánast óhugsandi hér á landi, vegna þeirrar pólitísku áhættu sem vinstrimenn skapa og hámarkseignarhluts kvóta samkvæmt lögum.
Julian Morris frá Interlational Policy Network ræddi hvernig eignarréttur og frjáls viðskipti gagnast í baráttunni við fátækt – eitthvað sem oft hefur verið rætt um hér á Deiglunni. Hann fór yfir sambandið á milli sterkrar verndar eignarréttar og hagsældar, lýðræðis og mannréttinda. Það er einföld staðreynd að lán verða auðfengnari og ódýrari þegar menn geta veðsett aðrar eignir til tryggingar. Hann sagði að helstu tækin í baráttunni við fátækt, væru eignarrétturinn, réttarríkið og frjálsir markaðir. Eins og hann benti á eru hins vegar margir á öðru máli og berjast gegn þróun í átt að frekari hagsæld.
Roger Bate fjallaði um misnotkun vísinda í stjórnmálum. Til að mynda hversu mikilli eymd bann við ódýru skordýraeitri veldur í fátækari ríkjum heimsins. Hversu skelfilegar afleiðingar tortryggni gagnvart erfðabreyttum matvælum hefur haft og fleira. Fólk sem krefst lífrænnar ræktunnar á öllum sviðum ætti að spyrja sig hvað gerist þegar matur er lífrænt ræktaður. Framleiðslan verður auðvitað minni, þegar framboð minnkar hækkar verðið, varla þarf miklar gáfur til að sjá að fyrir barðinu á dýrari matvöru verður fyrst sá fátæki, en ekki Che-bolurinn sem hefði kannski átt að láta sér duga að kaupa hinar erfðabreyttu vörur sjálfur en láta valið eftir öðrum.
Fagna ber stofnun RSE og vonast pistlahöfundur til að geta sótt fleiri áhugaverða fundi á vegum stofnunarinnar.
- Bankaleynd - 24. mars 2009
- Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við valdaskeið sitt - 12. febrúar 2009
- Hver vann? - 31. janúar 2009