Samkvæmt ICBL (International Campaign to Ban Landmines) kostaði áður einungis 1 dal (rúmar 60 krónur) og nú u.þ.b. 3 dali að framleiða eina jarðsprengju (þá væntanlega með mikla magnframleiðslu í huga) en hins vegar kostar meira en 1000 dali að finna hana og eyða eftir að henni hefur verið komið fyrir. Það er þó bót í máli að a.m.k. 36 þjóðir hafa hætt framleiðslunni en þó eru 15 þjóðir sem eru enn að því eða geta alla vega ekki neitað því. Þessar þjóðir eru: Myanmar, Kína, Indland, Nepal, Norður Kórea, Suður Kórea, Pakistan, Singapore, Víetnam, Egyptaland, Íran, Írak, Kúba, Bandaríkin og Rússland.
Samkvæmt tölum frá Sameinuðu Þjóðunum er áætlað að árlega falli eða slasist að meðaltali 15.000-20.000 manns í heiminum að völdum jarðsprengja. Það þýðir að daglega slasast eða deyja meira en 40 manns, langflestir óbreyttir borgarar á friðarsvæðum þar sem áður var stríð. Sú tala er mögulega mun hærri þar sem einungis hluti slasaðra kemst undir læknishendur. Talið er að meira en 110 milljón jarðsprengjur séu staðsettar í um það bil 70 löndum og síðan 1975 hefur meira en ein milljón fórnarlamba slasast eða dáið af völdum þeirra.
Megintilgangur jarðsprengja er að slasa frekar en drepa fórnarlömbin. Ástæðan mun vera sú að það þarf mun meiri mannskap í að bjarga og hlúa að slösuðum en föllnum hermanni. Því var það „árangursríkara“ fyrir heri að slasa óvinina á þennan hátt en að drepa þá einfaldlega. Þau fórnarlömb sem láta ekki lífið geta misst útlimi, sjón og fengið alvarleg brunasár. Í seinni tíð hafa jarðsprengjur verið notaðar í ótal borgarastyrjöldum víða um heim, þar sem þeim er einmitt beint að saklausum borgurum til að ógna samfélaginu sem mest. Það vill þó gleymast að merkja staðsetningu þeirra á kort og því verður alltaf erfiðara með tímanum að hreinsa átakasvæðin eftirá. Friðagæsluliðar, borgarar og hermenn hafa því sjaldnast grun um sprengjurnar þegar þeir ganga inn á jarðsprengjusvæði með fyrrgreindum afleiðingum. Reyndar er það svo að hermenn slasast oft á jarðsprengjum eigin hers og deilt hefur verið um ágæti þessa vopns til að fella andstæðinginn þar sem það ógnar ekki síður þeim sem koma sprengjunum fyrir. Ekki má heldur gleyma þeim fjölda barna, sem grunlaus um hættu þessa falda óvinar úti í náttúrunni, stíga á jarðsprengjur.
Jarðsprengjur voru fyrst notaðar að einhverju ráði í Seinni Heimstyrjöldinni og upphaflega til þess að halda óvininum frá herbúðum, mikilvægum brúm og landamærum. Einnig voru þær notaðar til að koma í veg fyrir að stærri sprengjur sem áttu að granda skriðdrekum, yrðu fjarlægðar af hermönnum. Nú er svo komið að virkar jarðsprengjur ógna íbúum í meira en 70 löndum og enn er verið að koma þeim fyrir! Ástandið er verst í Afganistan, Angóla, Kambódíu, Írak, Bosníu Hersegovínu og Kólumbíu svo einhver lönd séu nefnd. Það hefur þó batnað til muna í Angóla eftir að þeir hættu að koma jarðsprengjum þar fyrir, og því gengur vel að hreinsa svæðið. Hvað Kambódíu varðar, þá slösuðust um 40.000 manns þar á árunum 1979 – 2002 en lifðu þó af. Hins vegar létust um 18.000 manns á sama tímabili. 57.000 hinna látnu og slösuðu voru óbreyttir borgarar samkvæmt tölum frá ICBL. Það eru þó ekki allir sem vilja viðurkenna ástandið fyrir alþjóðasamfélaginu, til dæmis þau ríki þar sem pólitískt ástand er erfitt og má þar nefna Myanmar (áður Burma) og gerir það hjálparstarfið mun erfiðara og flóknara.
Í desember 1997 undirrituðu ríkisstjórnir 122 þjóða (þar á meðal sú íslenska) hinn svokallaða “Mine Ban” sáttmála í Ottawa í Kanada en hann bannar notkun jarðsprengja og í mars 1999 gekk hann í gildi. WHO og Unicef sem eru innan SÞ vinna náið með öðrum samtökum eins og Rauða Krossinum og ICBL. Þessi samtök eru meðal þeirra ótal mörgu sem berjast gegn notkun og framleiðslu jarðsprengja og fyrir eyðileggingu þeirra og ekki má gleyma að nefna aðhlynningu fórnarlamba þeirra. Því er sáttmálinn þessum samtökum mjög mikilvægur þegar þau beita þrýstingi á ríkisstjórnir þeirra 146 landa sem þegar hafa undirritað hann. Meðal þeirra 40 landa sem hafa haldið sig alveg utan við þennan sáttmála eru Finnland, Kína, Bandaríkin og Rússland.
Þrátt fyrir að við Frónverjar séum blessunarlega lausir við þetta vandamál á Íslandi, berum við siðferðislega skyldu, sérstaklega í ljósi þess að við höfum undirritað þennan sáttmála, til að vekja athygli á þessu alheimsvandamáli og leggja okkar að mörkum við að koma þeim þjóðum sem eiga við þetta vandamál að etja til aðstoðar.
Heimildir:
www.un.org
www.icbl.org
www.rki.is
- Passinn til Paradísar - 18. maí 2006
- Leitin að fjársjóðnum - 19. febrúar 2006
- Jarðsprengjur: ódýrar og auðveldar í framleiðslu! - 28. ágúst 2005