Benidorm er borg sem að flestir Íslendingar þekkja eða hafa heyrt nefnda einhvern tímann á lífsleiðinni. Hún hefur skapað sér sess sem einn helsti áfangastaður sumarleyfisfara frá Evrópu og jafnvel þó víðar væri leitað. Sú staða þarf þó ekki að koma á óvart enda er borgin áhugaverð og strendurnar fallegar. Það skemmir heldur ekki fyrir að veðurguðirnir þarna við Miðjarðarhafið eiga ekkert skylt við þá sem við blótum hér á klakanum kalda. Á þessum slóðum hefur ekki rignt í marga mánuði og meðalhitinn hangir í 30ºC.
Það eru þó ekki við Íslendingarnir sem fjölmennum hvað mest til þessarar sólríku strandborgar. Þrátt fyrir talsverðan fjölda Íslendinga þá blikknar sú tala í samanburði við fjöldann sem landar þeirra Bond-brædra, Sean Connery, Roger Moore og Pierce Brosnan bjóða upp á. Skotar, Englendingar og Írar virðast hafa tekið höndum saman (sem er mjög jákvætt í sjálfu sér miðað við fyrri deilur þessara þjóða) og vinna nú að því er virðist að taka öll völd í þessari fyrrum Máraborg. Hvar sem stigið er niður fæti má sjá breskar fjölskyldur eða hópa af ungu bresku fólki sem er að njóta veðursældar borgarinnar.
Hin síðustu ár hafa Bretarnir hinsvegar verið að færa sig upp á skaftið. Nú er svo komið að fjölmargir barir, diskótek og jafnvel nokkrar verslanir eru starfræktar af Bretum og varla finnst sá bar í borginni sem hefur ekki í hið minnsta einn breskan starfsmann. Þessi þróun er gengin svo langt að heil gata gengur undir nafninu „Breska gatan“. Í þessari götu má til að mynda finna skemmtistaði sem kenndir eru við ekki ómerkari menn en Bítilinn John Lennon og knattspyrnusnillinginn Gary Lineker.
Af þessu má leiða að fyrrum nýlenduveldið Stóra-Bretland er ennþá með einhver járn í eldinum. Þeir sem þekkja til nýlendusögu Bretlands, vita að margar af fyrrum nýlendum þeirra komust í þeirra hendur sökum ævintýraþrár djarfra einstaklinga, frekar en vegna skipulegrar útþenslustefnu drottningarveldisins. Besta dæmið var líklega Rhódesía sem nú heitir Zimbabwe. Þrátt fyrir þetta verður það að teljast harla ólíklegt að Breska krúnan reyni að sölsa undir sig þessa sólarströnd í suðri, jafnvel þó sagan sé þeim hliðholl þegar kemur að stríðsátökum gegn Spánverjum.
Það er þó ljóst að Bretarnir halda áfram að dreifa menningu sinni til framandi heimshluta og við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessari menningarútþenslu. Þrátt fyrir að Bretarnir flykkist ekki til okkar ástkæru eyju til þess að sóla sig í Nauthólsvíkinni þá eru menningaráhrif þeirra á klakanum bersýnileg. Það er því greinilegt að þrátt fyrir að nýlenduveldi Breta hafi liðið undir lok, mun menning þeirra og lífshættir hafa áhrif á fólk hvarvetna í heiminum um ókomin ár.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010