Geimskiparán eru líkleg plága í framtíðinni
|
Undirritaðum þykir gaman af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum þar sem sögusviðið er geimurinn. Stjörnustríðsmyndirnar eru í miklu uppáhaldi ásamt sjónvarpsþáttunum Star Trek. Fyrir þá sem ekki þekkja til þessara mynda og þátta, þá fjalla þær og þeir m.a. um valdabrölt og átök í geimnum. Oft á tíðum er mikill hasar, menn og geimverur fremja hin og þessi voðaverk í geimskipum og sumir stunda jafnvel geimskiparán.
Umfjöllunarefni geimpistilsins að þessu sinni er einmitt hvernig refsilögsögureglur eru háttaðar yfir einstaklingum sem fremja refsiverðan verknað í geimnum og hvernig þær ættu að vera háttaðar yfir þeim sem fremja geimskiparán í geimnum.
Áður en lengra er haldið verður að skýra hvað geimurinn merkir í þjóðréttarlegum skilningi. Sérhvert ríki hefur ákveðið forráðasvæði þar sem þau geta nokkurn veginn gert það sem þeim dettur í hug í samræmi við kenningar um fullveldi. Forráðasvæði ríkja eru hins vegar takmörkuð. Sú takmörkun er ekki einungis lárétt heldur einnig lóðrétt. Oft er miðað við hversu hátt flugvélar geta flogið. Þjóðir heims eru ekki sammála um hvar þau mörk eru. Hvað sem því líður þá er hægt að álykta að þar sem forráðasvæði ríkja í háloftinu og alþjóðlegt loftrými endar taki geimurinn við.
Nefnd Sameinuðu þjóðanna um friðsamleg afnot af geimnum hefur ályktað að geimurinn skuli vera notaður í friðsamlegum tilgangi og hann sé sameign mannkyns. Ríki heims eru almennt sátt við þessa ályktun. Ljóst er af ályktun þessari að ekkert ríki hefur forráðasvæði í geimnum. Vegna þessa má spyrja sig að því hvernig refsilögsögureglum skuli háttað í geimnum yfir geimskipum og áhöfnum þeirra. Spurningunum er svarað í samningnum um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum (Treaty on Principles Governing the Activities of States in the Exploration and Use of Outer Space, including the Moon and other Celestial Bodies), taka verður fram að ekki eru allir á eitt sáttir við efni samningsins. Geta má þess að íslenska ríkið er aðili að samningnum. Í 8. gr. samningsins er kveðið á um að ríki sem sendir far út í geim skuli fara með lögsögu yfir því og áhafnarmeðlimum þess hvort sem þeir eru innanborðs eða á vappi um plánetur og tungl himingeimsins. Ljóst er af samningi þessum að refsilögsaga vegna verknaðar sem framinn er um borð í geimskipum og á svokölluðum tunglgöngum er hjá því ríki sem sendir far út í geim. Eru það því hegningarlög þess ríkis sem sendir farið sem gilda fyrir áhafnarmeðlimi hvort sem þeir eru um borð í geimskipinu eða á vappi um geiminn. Í samningnum um skráningu fara sem send er út í geim (Convention on Registration of Objects Launched into Outer Space), eru ítarlegar reglur um hvaða ríki skuli teljast hafa sent far út í geim og hvernig skráningu geimfara skuli háttað, ekki verður farið nánar út í þann samning hér.
Ekki eru til neinar reglur í þjóðarétti hvernig refsilögsögureglum yfir gerendum geimskiparána skuli háttaðar. Þykir undirrituðum það ekki skrýtið, enda eru fáir sem hafa geimför í fórum sínum, hvað þá að til séu þeir aðilar sem stunda geimskiparán að staðaldri. Reyndar telur undirrituðar ólíklegt að mögulegt sé tæknilega að fremja geimskiparán eins og staðan er í dag. Í fjarlægri framtíð gæti þó geimskiparán átt sér stað. Undirritaður ætlar þó engu að spá um hvenær slíkt rán geti átt sér stað, enda ekki spámaður. Ef ríki heims myndu taka sig til og ákvarða refsilögsögureglur vegna geimskiparána er líklegt að byggt yrði á svipuðum sjónarmiðum og þeim sem lýst eru í 100-107. gr. Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Fjalla þær greinar um sjórán. Í 105. gr. Hafréttarsamningsins er fjallað um lögsögureglur yfir sjóræningjum á úthafinu. Tekið skal fram til að forða misskilningi að réttarstaða úthafsins er lík réttarstöðu geimsins. Í áðurnefndri grein kemur m.a. fram að á úthafinu sé sérhverju ríki heimilt að leggja hald á sjóræningjaskip og skip sem tekið hefur verið af sjóræningjum eða sem er undir stjórn sjóræningja auk þess sem heimilt er að handtaka sjóræningja og leggja hald á verðmæti um borð. Einnig kemur fram að dómstólar þess ríkis sem handtekið hefur sjóræningjanna séu bærir til að ákvarða viðurlög vegna verknaðar sjóræningjanna. Leggur undirritaður til að svipuð regla verði notuð um geimskiparán, er hann reyndar ekki einn um það. Myndi hún hljóða nokkurn veginn á þann veg að þar til bær geimskip [geimherskip og tollgæslugeimskip] sérhvers ríkis geti stöðvað geimskip þar sem leikur grunur á að sé geimskiparæningjaskip eða sé undir stjórn þeirra, handtekið þá og lagt hald á góss þeirra. Yrði einnig kveðið á um að dómstólar þess ríkis sem handtekið hefur geimskiparæningja geti ákvarðað viðurlög þeirra.
Þrátt fyrir að hugmyndir þessar virðist ekki vera tímabærar þá skal minnast annarra hugmynda sem hafa ekki verið taldar tímabærar í gegnum tíðina og jafnvel hafa verið taldar fáránlegar en eru í dag taldar bera vott um mikla framsýni, gæti svo verið um hugmyndir þessar.
Þeim sem vilja kynna sér geimrétt frekar er bent á heimasíðu Geimstofnunar Sameinuðu þjóðanna
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009