Í gær bárust fregnir af því hvernig þjófur var gómaður við iðju sína þegar myndir náðust af honum að stela. Um var að ræða falda myndavél í búningsklefa karla í líkamsræktarstöð, en eigandinn hafði komið myndavél fyrir til að góma þjófinn, sem ítrekað hafði stolið verðmætum gesta úr skápum stöðvarinnar.
Að frumkvæði viðskiptavinar sem hafði margsinnis orðið fyrir barðinu á þjófnum, var ákveðið koma fyrir myndavél sem aðeins var beint að umræddum skápum. Myndskeiðin sem náðust á filmu voru einungis skoðuð þegar þjófurinn hafði látið aftur til skara skríða og þá var bara skoðað myndbrot sem tekið var upp á þeim tímapunkti sem atvikið átti sér stað. Í gær var skýrt tekið fram að upptöku vélarinnar hafði ekki verið varpað á skjá sem sýndi „í beinni“ hvað fram færi í klefunum og þegar myndbrotið með glæpnum var afhent lögreglu, þá var búið að hylja viðkvæma nakta líkamsparta.
Eftir að lögreglu barst sönnunargangið í hendur var þjófurinn handsamaður, þrátt fyrir að myndavélin hefði verið sett upp í leyfisleysi en ekki lá fyrir úrskurður frá dómara um uppsetningu vélarinnar.
Það er ljóst að eftir erfiða ákvörðun um að beita þessari aðferð við að stöðva þjófinn, þá var reynt að vanda framkvæmdina í hvívetna. Sagði eigandi líkamsræktarstöðvarinnar að tilgangurinn hefði verið fyrst og fremst að vernda viðskiptavini sína og að hreinsa allan grun af starfsfólki sínu því þeir gestir sem lentu í þjófnum voru farnir að gruna starfsmennina um græsku.
Af þessu að dæma, þá er greinilegt að eigandi stöðvarinnar hafði mikinn metnað fyrir hönd skjólstæðinga sinna, og vildi vernda þá. Sá metnaður er aðdáunarverður og sýnir viðkomandi er full alvara að tryggja öryggi viðskiptavinanna. En sú spurning vaknar hvort að það réttlætir það að koma fyrir myndavél í búningsklefanum. Hér er á ferðinni ítrustu aðgerðir, og spurning hvort að ekki hefði verið hægt að ná þjófnum með öðrum og mildari aðferðum?
Persónuvernd hefur gefið út álit um málið þar sem fram kemur að rafræn vöktun, sem framkvæmd var með með leynd í búningsklefanum var ólögmæt. Í áliti persónuverndar stendur: „…við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skuli ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum vægari, raunhæfum úrræðum. Þetta ákvæði felur í sér að ef til dæmis má ætla raunhæft að koma í veg fyrir þjófnað með læsingum á skápum getur rafræn vöktun á svæðinu, þar sem skáparnir eru, aldrei talist heimil.“
Mildari aðferð hefði verið að biðja fólk um að læsa skápum sínum aftur á meðan farið er í sturtu, og eins hefði verið hægt að fylgjast með skápunum með öðrum aðferðum en að mynda þá.
Leynileg vöktun með notkun falinna eftirlitsmyndavéla í búningsklefum er alvarlegt brot á viðskiptavinum, sem ganga út frá því sem vísu að þeir njóti einkalífsréttar í búningsklefanum. Með þessari aðferð er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Búningsklefar, rétt eins og líkamsræktarstöðin öll, á að vera griðarstaður þar sem fólk kemur til að slaka á og rækta kroppinn. Vernd er dýru verði keypt ef brotið er á þessum rétti og það er ósanngjarnt að ganga þurfi svona langt gagnvart öllum gestunum til að góma einn óvelkominn gest.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008