Deiglan óskar lesendum sínum nær og fjær, til sjávar og sveita, gleðilegra páska. Í dag minnast kristnir menn upprisu Krists og af því tilefni er Deiglan á trúarlegu nótunum í dag. Sjónvarpsstöðin Omega nýtur sívaxandi vinsælda og hyggja forsvarsmenn stöðvarinnar nú á landvinninga, því íslenski markaðurinn er hreinlega of lítill fyrir boðskap hennar. Ætlunin er að senda dagskrárefni Omega út til 70 landa og verður fróðlegt að fylgjast með þessari nýjstu útrás landans. Þótt Deiglan sé aðdáandi Omega er ekki alveg augljóst að efni stöðvarinnar muni eiga erindi við allar þessar þjóðir – en er ekki sagt að vegir Guðs séu órannsakanlegir?
Menn geta haft misunandi skoðanir á kristniboði eins og því sem starfrækt er á Omega en í öllu falli ætti það ekki angra neinn. Ekki veit Deiglan til þess að Omega njóti ríkisstyrkja og eru tekjur stöðvarinnar að stærstum hluta frjáls framlög. Vöxtur og viðgangur Omega er lýsandi dæmi um að ríkisvaldið þarf ekki að koma að málum, sem yfirleitt eru talin til góðgerðarmála. Ef Eiríkur Eiríksson og félagar á Omega geta boðað trú sína með jafn miklum myndugleik og raun ber vitni, ætti þjóðkirkjan að geta það einnig, án stuðnings hins opinbera.
En það er hins vegar töluverður vandi að safna peningum með þeim hætti sem Omega gerir og því miður er misbrestur á því, að það sé alltaf gert með boðlegum hætti. Ónefndur þáttarstjórnarnandi á Omega hefur t.a.m. beinlínis sagt áhorfendum að þeir geti keypt sér himnaríkisvist með því að láta fé af hendi rakna til stöðvarinnar. Minnir þetta helst á djákna miðalda, sem heimsóttu dauðvona höfðinga þess tíma, með fyrirheit um himnavist, ef þeir ánöfnuðu kirkjunni jörð sinni og eigum. Flestir voru þessir menn bersyndugir og hundheiðnir í þokkabót en andspænis dauðanum með gylliboð í höndunum, játuðu þeir flesir kristna trú og með þessum hætti varð kirkjan mesti jarðeigandi á Íslandi. Á það hefur einmitt verið bent, að ef ríkið hætti stuðningi sínum við þjóðkirkjuna, myndi kirkjan einfaldlega heimta jarðir sínar aftur eða ígildi þeirra.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021