Leyndarmál Viktoríu, uss – ekki segja neinum!.
|
Nýlega bárust fregnir þess efnis að þriðja kryddið Viktoría Beckham hafi ekki lesið bók í mörg ár. Ekki veit ég hvort margir hafi verið gáttaðir á þeim fréttum en hins vegar minnti það mig óneitanlega á ummæli eins gagnrýnanda bókar Jessicu Simpsons sem lét hafa eftir sér í nýlegri gagnrýni um bók hennar: „Hún hefði átt að lesa bók áður en hún skrifaði eina, þessi elska.“ Kannski eru það bara óraunhæfar kröfur að ætlast til þess að fólk lesi bækur, áreitið er svo ótrúlega mikið að það getur verið ómögulegt að finna kyrrðarstund til að setjast niður með góða bók í hönd. Tölurnar tala líka sínu máli: Samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum hefur lestur tímarita sem sérhæfa sig í fréttum af leyndarmálum Viktoríu Beckham og annarra smástirna af hennar sauðahúsi aukist gríðarlega á sama tíma og alvarlegri blöð — svo ekki sé nú talað um bækur! — lúta gjörsamlega í gras fyrir froðunni af fræga fólkinu.
Einhvern veginn virðast þessar niðurstöðu samt ríma illa við t.a.m. lestur á Deiglunni, sem verður að teljast alvarlegt vefrit — hið minnsta í aðra röndina! — enda á Deiglan sér fastan og vaxandi lesendahóp sem virðist láta sér í léttu rúmi liggja þótt svo pistlar á vefritinu séu ekki myndskreyttir með fáklæddu kvenfólki! Enda myndi slík myndbirting vafalaust fara fyrir brjóstið á mörgum.
Að sama skapi virðist sem menningarólæsi landans sé nú ekki meira en svo að tugir þúsunda manna sjá sér fært að spásséra árlega um stræti miðborgarinnar á Menningarnótt.
Sem er auðvitað gott mál.
Svona menningardótarí þarf nefnilega ekkert að vera leiðinlegt. Þetta hafa t.a.m. forsvarsmenn Bókmenntahátíðar Reykjavíkur áttað sig á enda verður breski rithöfundurinn Nick Hornby einn af aðalgestum hátíðarinnar. Hornby er mörgum að góðu kunnur og er sennilega jafnfyndinn og hann er skemmtilegur rithöfundur. Bækur hans eru kannski ekki nein bókmenntaleg þrekvirki, en hins vegar tekst honum betur en flestum öðrum að taka á vandamálum sem margir kannast við úr eigin lífi – og matreiða þau ofan í lesandann af mikilli hugmyndaauðgi.
Fyrirlestur hans verður þess vegna örugglega skemmtilegur og vonandi að einhverjir lesendur Deiglunnar sjái sér fært að mæta.
Þótt svo hann verði ekki á Menningarnótt.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007