Það er kannski orðum aukið að hæstu byggingar samtímans muni virka eins og hjáróma mjálm við hliðina á honum. En ljóst er að þegar (og kannski ef) byggingu hans lýkur mun Burj Dubai – Dubai Turninn – gnæfa yfir Taipei 101 í Taiwan, Petronas turnana í Kuala Lumpur og Sears turninn í Chicago eins og ekkert sé sjálfsagðra.
Slagorð verkefnisins, sem áætlað er að ljúki á þarnæsta ári, er sagan rís upp á við eða history rising. Þetta er nafngift við hæfi. Þótt endanleg hæð hafi enn ekki verið gefin upp, sem hluti af dulúðinni í kynningar- og markaðsherferðinni, er talið að hæð Burj Dubai verði um 800 metrar og hæðirnar 154 talsins. Fullkláraður mun hann hýsa um 3000 íbúa í lúxusíbúðum auk alls þess sem lúxussækið fólk telur sjálfsögð forréttindi og meira til.
Hönnuður byggingarinnar, arkitektinn Adrian Smith í Chicago, og aðalfjárfestirinn, krónprins furstadæmisins Dubai, Sjeik Mohammad, eru staðráðnir í að setja met sem stenst tímans tönn (a.m.k. lengur en þau gera um þessar mundir). Í ljósi þess að turninn er í harðri samkeppni við kínverska efnahagsundrið var ljóst að fara þyrfti talsvert langt yfir núverandi hæðarmet til að glata því ekki strax aftur til Sjanghai, Hong Kong eða jafnvel Moskvu og Istanbúl.
En það er stutt í gagnrýnisraddirnar, eins og eðlilegt er í verkefnum sem þessum. Sú gagnrýni sem virðist hvað háværust er sú að bygginguna skorti markaðsforsendur. Að það standist ekki einfalt reikningsdæmi að byggja 900 milljón dollara háhýsi í borg með svipaða íbúatölu og Stokkhólmur og á hlutfallslega óverðmætu landi. En dæmið er sennilega flóknara en svo. Eigandi byggingarinnar fer ekki í launung með það að turninn er hluti af kynningar- og áróðursstarfsemi sívaxandi lúxusferðamannaiðnaðar í þessu smáa furstadæmi. Ef Burj Dubai verður til að skjóta traustari rótum undir þá tekjulind er e.t.v. vel þess virði að fjárfesta í óhagkvæmum skýjaborgum þegar allt er tekið með í reikninginn. Aðdáendur skýjakljúfa verða að á meðan að biðja við rúmstokkinn þess að sjóðir sæbersjeiksins (eins og hann er ósjaldan nefndur) tæmist ekki.
Það verður því fróðlegt að líta til baka eftir nokkra áratugi eða svo og reyna að átta sig á því hvort Burj Dubai verði minnst sem tilraunar til að byggja einhvers konar Babelsturn 21. aldarinnar. Turn til dýrðar Dubai og eiganda hans. Eða hvort hans verði minnst sem snjallrar, en dýrrar, auglýsingarbrellu fyrir ferðamannaparadís hinna ríku og frægu við Persaflóann.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021