Auk þess að vera þekkt fyrir Lunda og Víkinga er Ísland einnig þekkt fyrir að vera eitt besta land í heimi. Mynd: www.viclindal.com/iceland_trip.htm
|
Það eru nokkrar meinlokur í hverju þjóðfélagi sem eru þannig eðlislægir að þeir verða ávallt að sjá skrattann í hverju horni. Á síðasta ári þá var Fréttablaðið áberandi verustaður þessarra skoðanna, í ár er DV krossfari neikvæðninnar undir forystuorðunum: „þorir þar sem aðrir þegja“.
Ef Sagnfræðingur myndi eftir 50 ár taka upp nokkur eintök af DV á þessu ári og ætla að meta ástandið á Íslandi eftir því er hætt við því að hann teldi að landið væri að hruni komið.
Undirritaður hefur búið í þremur erlendum löndum á síðustu tveimur árum, Frakklandi, Danmörk og Bandaríkjunum og haft því gott tækifæri til að bera saman venjulegt líf í löndunum.
Samanburður þessarra landa við Ísland hefur yfirleitt fallið Íslandi í hag. Þó það séu ýmis atriði sem eru góð í þessum samanburðarlöndum þá er athafnafrelsið og öryggið á Íslandi svo miklu meira að fólk á ekki að láta úrtölumenn landsins telja sér trú um að hér sé allt að fara til andskotans.
Hvað segja staðreyndir okkur um ástandið á Íslandi í dag?
Í Morgunblaðinu í gær birtist til dæmis frétt sem sagði að Íslenskir karlmenn lifðu öðrum evrópskum karlmönnum lengur.
Í grein á Deiglunni nýverið ræddi greinarhöfundur um kenningar Richards Florida um þekkingarhagkerfi framtíðarinnar. Samkvæmt dr. Florida þá er Ísland í sjöunda sæti hvað varðar sköpunarkraft hagkerfis. Hið títtnefnda Economist gerði lista yfir bestu þjóðir heims í byrjun þessa árs og var Ísland sömuleiðis í sjöunda sæti hjá þeim.
Í hinni eiginlegu heimsmeistarakeppni þjóða, hinni árlegu IMD könnun á samkeppnishæfi þjóða þá eru Íslendingar núverandi Evrópumeistarar bæði fyrir árið 2004 og 2005 (lítið heyrst um þetta í fréttum) og í fjórða sæti á heimsvísu.
Á Íslandi er mikill hagvöxtur, lágt atvinnuleysi, lækkandi skattar og gott aðgengi að menntun og heilbrigðisgæslu.
Svo maður endurorði fræga setningu: „Það er gott að búa á Íslandi“
Það er kannski við hæfi að benda ungu fólki á, að það er ekkert sjálfgefið að Ísland sé í toppbaráttunni í meistaradeildinni. Þetta gerist vegna þess að við erum að spila með okkar bestu menn í bæði sókn og vörn, það er að segja Sjálfstæðisflokkinn.
Fljótasta leiðin til þess að koma Íslandi úr toppbaráttunni niður í botnbaráttuna (þeas í Evrópudeild) er að kjósa til vinstri. Ungt fólk ber þá skyldu gagnvart framtíðinni að horfa ekki framhjá þessu.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021