Spaðagosinn

sdfdEr hugsanlegt að fyrr á tímum hafi verið til spaðagosi sem átti alltaf ás uppi í erminni?

Spaðagosinn?

Í nýliðinni viku var því slegið upp á forsíðu eins vikublaðanna að karlhóra væri væntanleg til landsins. Það var gert með vísan til bandarísks glaumgosa og leikara sem gefið hafði blaðinu viðtal. Í sögulegu samhengi er sá maður lítið annað en fótskrift í sögu Draumaborgarinnar, ólíkt þeim manni sem þessi pistill fjallar um. Á haustmánuðum kemur nefnilega út bók um dómíníkanska glaumgosann Porfirio Rubirosa, sem átti hreint ótrúlega viðburðaríka ævi. Þótt sú mynd sem af honum er dregin í bókinni sé sennilega jafnumdeild og hún er skemmtileg, látum við þá gagnrýni alveg liggja á milli hluta. Sagan er nefnilega lygileg: Rubirosa lést fyrir aldur fram þegar hann klessukeyrði Ferrari-bifreið sína á tré í París. Sagan segir að hann hafi verið á heimleið til fimmtu eiginkonu sinnar, sem var akkúrat 28 árum yngri hann sjálfur, en hann átti aðeins fjögur ár í sjötugsaldurinn. Hugsanlega keyrði hann fullhratt miðað við aðstæður, en hey – hver myndi ekki gera það eftir að hafa þambað kampavín alla nóttina til að fagna sigri á pólómóti fyrr um daginn!

Bökkum nú aðeins í tíma: á tæpum fjórum áratugum hafði Rubirosa kvænst fjórum af ríkustu konum heims og lifað í vellystingum á þeirra kostnað. Það aftraði honum þó síður en svo frá því að eiga í ástarævintýrum við Marilyn Monroe, Zsa Zsa Gabor, Övu Gardner, Jayne Mansfield, Joan Crawford, Tinnu Onassis og Evu Peron. Eftir skilnað hans við fyrstu eiginkonuna (dóttur forseta Dóminíkanska lýðveldisins) kvæntist hann frönsku kvikmyndaleikkonunni Danielle Darrieux og eftir skilnað við hana kvæntist hann bandaríska tóbakserfingjanum Doris Duke.

Sú síðastnefnda hafði víst vit á því að láta Rubirosa kvitta undir kaupmála skömmu fyrir brúðkaupið: Rubirosa varð svo móðgaður að hann keðjureykti – þó ekki Duke-sígarettur! – alla athöfnina. Þegar slitnaði upp úr hjónabandinu þrettán mánuðum síðar hafði honum, þrátt fyrir kaupmálann, tekist að hafa um hálfa milljón dala, rándýra sportbíla, B-25 flugvél (hann var líka flugmaður), og heilt stóð af pólóhestum út úr spúsunni.

Svipað var uppi á teningnum þegar hann gekk að eiga erfingja Woolworth-veldisins en Barbara Hutton sá á eftir tæpum 4 milljónum dala á þeim 53 dögum sem hjónaband þeirra entist. Það gera tæplega fimm milljónir króna á dag, börnin góð.

Hann kom víða við: starfaði sem sendiherra í Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Ítalíu, Kúbu, Argentínu og á Vichy-eyjum. Að sama skapi hafði hann náð ágætisárangri sem gimsteinaþjófur, falsari, skipamógúll og sem fjársjóðsleitarmaður (starfið þó alls ótengt hjónaböndum hans!).

Hann var málkunnugur John F. Kennedy, Josef Goebbels, Juan Peron (þekkti konu hans þeim mun betur) og Charles DeGaulle. Vinir hans voru Frank Sinatra, Ted Kennedy, David Niven og Sammy Davis yngri.

Kunnugir telja að þess verði skammt að bíða þar til sagan ratar á hvíta tjaldið í Hollywood, enda sama hvað á dundi þá virtist gosinn alltaf hafa ás uppi í erminni. Fáir hafa þó heyrt um þennan mann enda segja margir að hann hafi lifað fyrir líðandi stund og við dauða hans hafi fljótt fennt yfir spor hans: engin börn, enginn arfur – ekkert sem bar nafn hans. Ólíklegt er að nokkru sinni verði annar kóni honum líkur.

Ótrúlegast er samt að hann hafi nokkru sinni verið til.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)